Annað ráðuneyti Geirs Haarde
Önnur ríkisstjórn Geirs H. Haarde var ríkisstjórn Íslands ríkisstjórn Íslands frá 24. maí 2007 til 1. febrúar 2009. Í henni sátu ráðherrar frá Sjálfstæðisflokki og Samfylkingunni. Hún tók við völdum 24. maí 2007 í kjölfar þess að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur ákváðu að slíta samstarfi sínu vegna naums þingmeirihluta eftir Alþingiskosningarnar 2007. Ríkisstjórnin hafði einn rúmasta meirihluta sem ríkisstjórn hefur haft á Alþingi, 43 menn en einungis 20 þingmenn voru í stjórnarandstöðu.
Stór hluti viðræðnanna í aðdraganda stjórnarmyndunarinnar fór fram á Þingvöllum og þar undirrituðu formenn stjórnarflokkana jafnframt stjórnarsáttmálann 23. maí 2007. Þess vegna hefur stjórnin verið kölluð Þingvallastjórnin.
Geir H. Haarde baðst lausnar fyrir ríkisstjórnina 26. janúar 2009 vegna erfiðleika í samstarfi flokkanna í kjölfar hruns íslenska bankakerfisins í október 2008. Samfylkingin myndaði í kjölfarið minnihlutastjórn með Vinstrihreyfingunni - grænu framboði sem tók við völdum 1. febrúar 2009.
Ráðherrar stjórnarinnar voru:
- Forsætisráðherra og ráðherra Hagstofu:Geir H. Haarde (D)
- Félagsmála- og tryggingamálaráðherra: Jóhanna Sigurðardóttir (S)
- Fjármálaráðherra: Árni M. Mathiesen (D)
- Dóms- og kirkjumálaráðherra: Björn Bjarnason (D)
- Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra : Einar Kristinn Guðfinnsson (D)
- Utanríkisráðherra: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (S)
- Heilbrigðisráðherra: Guðlaugur Þór Þórðarson (D)
- Umhverfisráðherra: Þórunn Sveinbjarnardóttir (S)
- Samgönguráðherra: Kristján Möller (S)
- Iðnaðarráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda: Össur Skarphéðinsson (S)
- Viðskiptaráðherra: Björgvin G. Sigurðsson (S)
- Menntamálaráðherra: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (D)
Kannanir
breytaÍ alþingiskosningum árið 2007 vann Sjálfstæðisflokkurinn með 36,6% fylgi, næst á eftir var Samfylkingin með 26,8% fylgi og að lokum Vinstri græn með 14,3% fylgi, auk annarra flokka sem höfðu minna fylgi. Niðurstöður Markaðs- og miðlarannsókna (MMR), sem var framkvæmd 8. október árið 2008, sýndu miklar breytingar á fylgi flokkanna í kjölfar Bankahrunsins. Þetta var net- og símakönnun þar sem 2464 einstaklingar á aldrinum 18 til 67 ára svöruðu. Hún leiddi í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn hafði misst mesta fylgið af öllum flokkunum en fylgi mældist um 27,8%, Samfylkingin var stöðug en bætti við sig fylgjendum og mældist 27,3% en Vinstri græn juku fylgi sitt um 12,86% og voru komin í forystu með 29% fylgjendur.[1]
Í fyrsta skipti í sögu Íslands mældust Vinstri græn með meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn, samkvæmt könnun Gallups 29.10.2008, þá kom einnig í ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hafði ekki mælst með minna fylgi síðastliðin 15 ár. Samfylkingin kom best út úr könnuninni með 31%, Vinstri græn 27% og Sjálfstæðisflokkurinn 26%. Þessi könnun var tekin í kjölfarið að stjórnvöld tilkynntu að ríkið tæki yfir þrjá fjórðu af Glitni en á þessum tímapunkti voru allir þrír viðskiptabankar Íslands komnir í þrot og viðræður voru hafnar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.[2]
Capacent gerði könnun fyrir Morgunblaðið um fylgi flokkanna í lok október 2008 og niðurstöður gáfu til kynna að Samfylkingin missti fylgi til Vinstri grænna en bætti við sig fylgjendum þar sem þeir sem kusu Sjálfstæðisflokkinn í kosningum árið 2007 virtust vilja sjá Samfylkinguna í ríkisstjórn frekar en Sjálfstæðisflokkinn. Mögulega væri þó hægt að mynda þrenns konar meirihlutastjórnir. Samfylkingin gæti myndað ríkisstjórn með meirihluta hvort sem væri með Sjálfstæðisflokknum eða Vinstri grænum, en Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn hefðu einnig getað myndað meirihluta stjórn.[3]
Samkvæmt könnunum MMR sem var gerð þann 8. desember 2008, töldu 55,4% að boðskapur mótmæla og borgarafunda undanfarinna vikna, endurspeglaði viðhorf meiri hluta þjóðarinnar. Þar kom einnig fram að 80% svarenda voru andvígir ríkisstjórninni.[4]
Tenglar
breyta- „Stjórnarsamstarfinu slitið“ á Vísi.is.
- „Stjórnarsamstarfi lokið“ á Mbl.is.
- „Baksvið: Þingvallarstjórnina þraut örendið“ á Mbl.is.
Fyrirrennari: Fyrsta ráðuneyti Geirs H. Haarde |
|
Eftirmaður: Fyrsta ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur |
- ↑ http://www.mbl.is/frettir/innlent/2008/12/05/vilja_nyja_stjornmalaflokka
- ↑ http://eyjan.pressan.is/frettir/2008/10/30/ny-konnun-gallup-vinstri-graen-med-meira-fylgi-en-sjalfstaedisflokkur/[óvirkur tengill]
- ↑ http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=287147&pageId=4203575&lang=is&q=fylgi%20Sj%E1lfst%E6%F0isflokki%20Sj%E1lfst%E6%F0isflokkur
- ↑ http://mmr.is/frettir/birtar-nieurstoeeur?start=336