Alfons 13. Spánarkonungur

Konungur Spánar (1886-1941)

Alfons 13. (17. maí 1886 – 24. febrúar 1941) var konungur Spánar frá 1886 til 1931. Valdatíð hans lauk þegar Spánverjar lýstu yfir stofnun lýðveldis árið 1931. Spánn varð ekki aftur konungsríki fyrr en árið 1975 þegar sonarsonur Alfonsar, Jóhann Karl 1., varð konungur. Í rúma fjóra áratugi var Alfons því síðasti konungur Spánar.

Skjaldarmerki Búrbónaætt Konungur Spánar
Búrbónaætt
Alfons 13. Spánarkonungur
Alfons 13.
Ríkisár 17. maí 188614. apríl 1931
SkírnarnafnAlfonso León Fernando María Jaime Isidro Pascual Antonio de Borbón y Austria-Lorena
Fæddur17. maí 1886
 Madrid, Spáni
Dáinn24. febrúar 1941 (54 ára)
 Róm, Ítalíu
GröfEl Escorial
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Alfons 12. Spánarkonungur
Móðir María Kristín af Austurríki
DrottningViktoría Evgenía af Battenberg
Börn12 (þar af 6 óskilgetin)

Æviágrip

breyta

Alfons fæddist árið 1886 og var einkasonur Alfonsar 12. Spánarkonungs og Maríu Kristínar Spánardrottningar. Alfons 13. varð konungur um leið og hann fæddist þar sem faðir hans hafði látist á meðan móðir hans var ólétt af honum. María Kristín fór með konungsvaldið sem ríkisstjóri í nafni sonar síns þar til Alfons varð sextán ára. Á þeim tíma báðu Spánverjar ósigur í stríði gegn Bandaríkjunum árið 1898 og neyddust til að láta af hendi flestar nýlendur sínar til Bandaríkjamanna.[1] Í stað þess að verða konungur yfir heimsveldi tók Alfons því við mjög veiku og brothættu ríki þegar hann var formlega krýndur árið 1902.

Árið 1906 gekk Alfons að eiga Viktoríu Evgeníu af Battenberg, dótturdóttur Viktoríu Bretlandsdrottningar. Á brúðkaupsdegi þeirra var gerð tilraun til að myrða nýju konungshjónin þegar stjórnleysingi varpaði sprengju að vagni þeirra. Alfons og Viktoría sluppu ómeidd undan sprengingunni en margir saklausir vegfarendur létu lífið.[2] Alfons varð fyrir mörgum banatilræðum til viðbótar á konungstíð sinni. Árið 1905 reyndi spænskur stjórnleysingi að myrða bæði Alfons og Émile Loubet Frakklandsforseta í París þegar Alfons var í opinberri heimsókn hjá hinum síðarnefnda.[3] Eftir að sprengju var varpað að vagni þjóðhöfðingjanna er sagt að Alfons hafi staðið upp og hrópað: „Vive la France!“.[1]

Flest börn Viktoríu og Alfonsar erfðu dreyrasýki frá móður sinni og Alfons varð kalt til eiginkonu sinnar fyrir þær sakir.[4]

Þegar Alfons tók formlega við ríki sínu greindi hann ráðherrum sínum frá því að hann hygðist fara með veruleg völd sem konungur. Hann benti meðal annars á stjórnarskrárbundinn rétt konungsins til að skipa embættismenn og veita heiðursmerki og kvaðst munu nýta sér þennan rétt óskert.[1]

Alfons ríkti fyrstu árin í samráði við þing sitt og viðhélt hlutleysi Spánar í fyrri heimsstyrjöldinni. Árið 1918 veiktist Alfons illa af inflúensu í heimsfaraldrinum sem þá stóð yfir. Þar sem Spánn var eitt fárra ríkja þar sem prentfrelsi hafði ekki verið takmarkað vegna stríðsrekstursins var mikið fjallað í blöðum um veikindi konungsins og þessi umfjöllun átti þátt í því að sú ranghugmynd varð til að veikin ætti uppruna sinn á Spáni eða hefði komið verr niður á Spáni en öðrum löndum. Þetta varð til þess að faraldurinn var kenndur við Spán og kallaður spænska veikin.

Alfons lifði veikindin af og gerðist enn ráðríkari eftir að styrjöldinni lauk. Frá 1920 til 1927 studdi hann með ráðum og dáðum stríðsrekstur Spánverja í Marokkó til þess að viðhalda spænskum nýlenduyfirráðum í Norður-Afríku. Hann var einnig hlynntur áformum um frekari landvinninga í Afríku til að bæta upp fyrir löndin sem Spánverjar höfðu glatað í stríðinu við Bandaríkin. Gagnrýnendur konungsins töldu styrjöldina í Marokkó vera óþarfa og óhóflega sóun á spænskum lífum og peningum og uppnefndu Alfons fyrir vikið el Africano eða „Afríkumanninn“.[5]

Þann 13. september árið 1923 leysti Alfons upp spænska þingið svo herforinginn Miguel Primo de Rivera gæti framið valdarán og komið á herforingjastjórn á Spáni. Primo de Rivera stjórnaði Spáni sem einræðisherra næstu sex árin með stuðningi konungsins. Primo de Rivera hrökklaðist frá völdum árið 1930 vegna efnahagslægðar og almennra óvinsælda. Þegar frjálsar kosningar voru haldnar í kjölfarið unnu lýðveldissinnaðir stjórnmálaflokkar stórsigur og almennt var svo litið á að með útkomu kosninganna hefðu Spánverjar hafnað áframhaldandi einveldi í landinu. Alfons neyddist til að láta af völdum og yfirgaf Spán í kjölfarið. Hann sagðist þó sjálfur ekki hafa afsalað sér krúnunni og hætti aldrei að gera tilkall til þess að vera konungur Spánar.[6][7]

Alfons settist að í Róm í útlegðinni ásamt fjölskyldu sinni. Þegar spænska borgarastyrjöldin braust út árið 1936 lýsti hann yfir stuðningi við her falangista og sendi son sinn, Don Juan, til að aðstoða uppreisnarmennina. Þann 15. janúar árið 1941 afsalaði Alfons sér tilkalli til spænsku krúnunnar til Don Juans, sem var eini sonur þeirra Viktoríu sem ekki var dreyrasjúkur. Alfons lést aðeins rúmum mánuði síðar.

Don Juan varð aldrei konungur Spánar en sonur hans, Jóhann Karl 1., varð konungur eftir að Francisco Franco lést árið 1975.

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 „Alfons 13., síðasti konungur Spánverja“. Morgunblaðið. 9. maí 1931. Sótt 17. ágúst 2019.
  2. „Á völtum veldisstóli“. Alþýðublaðið. 11. desember 1975. Sótt 17. ágúst 2019.
  3. „L'attentat contre le roi d'Espagne“ (franska). Le Petit Parisien. 2. júní 1905. Sótt 17. ágúst 2019.
  4. „Reinas Borbones de cuidado“ (spænska). elmundo.es. Sótt 18. ágúst 2019.
  5. „Rebelion. Prlogo para "Alfonso XIII: un enemigo del pueblo" de Pedro L. Angosto“ (spænska). rebelion.org. Sótt 18. ágúst 2019.
  6. „Byltingin á Spáni“. Lesbók Morgunblaðsins. 3. maí 1931. Sótt 18. ágúst 2019.
  7. „Byltingin á Spáni“. Tíminn. 17. júlí 1931. Sótt 18. ágúst 2019.


Fyrirrennari:
Alfons 12.
Konungur Spánar
(17. maí 188614. apríl 1931)
Eftirmaður:
Konungdæmið lagt niður
Niceto Alcalá-Zamora sem forseti Spánar