Ríkisstjóri er einstaklingur sem er skipaður tímabundið í embætti þjóðhöfðingja á meðan einvaldur ríkisins er ófær um að sinna skyldum sínum, t.d. ef einvaldurinn er ólögráða, fjarverandi eða veikur.

Í konungsstjórnum er ríkisstjóri yfirleitt skipaður af ofangreindum ástæðum en stundum er ríkisstjóri einnig kjörinn til lengri tíma ef konungsættin hefur dáið út án erfingja. Þá tekur oft ríkisstjóri eða ráð ríkisstjóra við völdum á meðan leitað er að nýjum þjóðhöfðingja.

Liechtenstein er eina landið þar sem ríkisstjóri er í embætti í dag. Krúnuarfinn Alois hefur þar farið með völd þjóðhöfðingja sem ríkisstjóri í umboði föður síns, Hans-Adams 2. fursta, frá árinu 2004.

Nokkur fræg dæmi um stjórnir ríkisstjóra eru:

  • Í Frakklandi var Filippus hertogi af Orléans ríkisstjóri frá 1715 til 1723, frá dauða Loðvíks 14. Frakklandskonungs og þar til ríkisarfinn, Loðvík 15., varð lögráða.[1] Stjórnartíð Filippusar var gjarnan kölluð la Régence á frönsku.
  • Á Bretlandi var erfðaprinsinn Georg Ágústus Friðrik ríkisstjóri fyrir föður sinn, Georg 3. Bretlandskonung, frá 1811 til 1820.[2] Georg 3. átti við alvarleg geðræn vandamál að stríða og árið 1811 höfðu þau ágerst svo mjög að hann var talinn ófær um að sinna skyldum sínum sem konungur. Erfðaprinsinn var ríkisstjóri þar til Georg 3. lést árið 1820, en þá settist ríkisstjórinn sjálfur á konungsstól undir nafninu Georg 4. Bretlandskonungur. Þetta tímabil er kennt við ríkisstjóraembættið og er gjarnan kallað ríkisstjóratímabilið eða the Regency Era á ensku.
  • Í Kína á tíma Tjingveldisins var Cixi keisaraekkja í raun einráð frá 1861 til 1908 með því að gerast ríkisstjóri, fyrst fyrir ólögráða son sinn, Tongzhi-keisarann, og síðan fyrir arftaka hans, Guangxu-keisarann.
  • Í Finnlandi gerðust Pehr Evind Svinhufvud og Carl Gustaf Emil Mannerheim ríkisstjórar eftir sjálfstæði Finnlands, frá 18. maí 1918 til 26. júlí 1919. Ástæðan var sú að Nikulási 2. Rússakeisara, sem jafnframt var stórfursti Finnlands, hafði verið steypt af stóli og einveldið leyst upp árið 1917. Ætlun Finna var að stofna sjálfstætt konungsríki með frænda Vilhjálms 2. Þýskalandskeisara sem konung Finnlands, en þegar Vilhjálmur sagði af sér árið 1918 var hætt við þessar áætlanir. Finnland varð þess í stað lýðveldi og forseti var kjörinn.
  • Í Ungverjalandi ríkti Miklós Horthy sem ríkisstjóri frá 1920 til 1944. Horthy ríkti að nafninu til sem staðgengill Karls 4. Ungverjalandskonungs, sem hafði hrakist frá völdum eftir fyrri heimsstyrjöldina. Þrátt fyrir að Horthy ætti aðeins að heita staðgengill Karls tókst Karli aldrei að endurheimta krúnuna þar sem nágrannaríki Ungverjalands hótuðu stríði ef Karl yrði settur á konungsstól og Horthy hafði lítinn áhuga á að afsala sér völdum til Karls. Ungverjaland var því í reynd „konungslaust konungsríki“ á valdaárum Horthy.
  • Á Íslandi var Sveinn Björnsson kjörinn ríkisstjóri landsins af alþingi árið 1941.[3] Ástæðan var sú að Þjóðverjar höfðu hertekið Danmörku og því var litið svo á að Kristján 10. Danakonungur væri ófær um að sinna skyldum sínum sem konungur Íslands. Sveinn fór með völd þjóðhöfðingja Íslands sem ríkisstjóri þar til lýðveldi var stofnað árið 1944, en þá var Sveinn kjörinn fyrsti forseti Íslands.

Tilvísanir

breyta
  1. Dufresne, Claude, Les Orléans, CRITERION, París, 1991.
  2. "No. 16451". The London Gazette. 5. febrúar 1811. bls. 233.
  3. „Hvernig maður var Sveinn Björnsson forseti og hvað afrekaði hann?“. Vísindavefurinn.