Adolfo Pérez Esquivel

Argentínskur aðgerðasinni og Nóbelsverðlaunahafi

Adolfo Pérez Esquivel (f. 26. nóvember 1931) er argentínskur aðgerðasinni, listmálari, myndhöggvari og rithöfundur sem vann árið 1980 til friðarverðlauna Nóbels fyrir andspyrnu sína gegn herforingjastjórn Argentínu á tíma skítuga stríðsins.[1] Á þeim tíma var Pérez Esquivel pyntaður og honum haldið í fangelsi í átján mánuði án gildrar handtökuskipunar.

Adolfo Pérez Esquivel
Adolfo Pérez Esquivel árið 1983.
Fæddur26. nóvember 1931 (1931-11-26) (93 ára)
ÞjóðerniArgentínskur
MenntunÞjóðarháskólinn í La Plata
StörfListmálari, aðgerðasinni
TrúKaþólskur
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1980)
Undirskrift

Æviágrip

breyta

Pérez Esquivel fæddist í Búenos Aíres. Faðir hans var spænskur sjómaður sem hafði flust til Argentínu frá Poio í Galisíu. Móðir hans lést þegar hann var þriggja ára. Pérez Esquivel gekk þrátt fyrir mikla fátækt í Manuel Belgrano-listaskólann og síðan í Þjóðarháskólann í La Plata, þar sem hann nam listmálun og höggmyndalist.[2] Hann var útnefndur prófessor í byggingarlist og kenndi í 25 ár á öllum námsstigum frá grunnskóla til háskóla, auk þess sem hann vann við höggmyndalist á ýmsum vettvangum. Á sjöunda áratugnum byrjaði Pérez Esquivel að starfa með kristnum friðarhreyfingum sem voru þá vinsælar í Rómönsku Ameríku. Hann sagði upp kennarastarfi sínu árið 1974 eftir að hann var valinn umsjónarmaður félagasamtaka sem töluðu fyrir friðsamlegri frelsun hinna fátæku í samræmi við frelsunarguðfræði.[3]

Þegar skipulegar ríkisofsóknir hófust í kjölfar valdaráns hershöfðingjans Jorge Rafael Videla í mars 1976 tók Pérez Esquivel þátt í stofnun og fjármögnun samtaka til að verja mannréttindi í Argentínu og til að aðstoða fjölskyldur fórnarlamba skítuga stríðsins. Frjálsu félagasamtökin Servicio Paz y Justicia (ísl. „Frelsi, friður og réttlæti“ eða SERPAJ), sem hann stofnaði árið 1974, stóðu fyrir alþjóðlegri herferð fyrir fordæmingu á glæpum argentínsku herforingjastjórnarinnar.[4]

Brasilíska herlögreglan handtók Pérez Esquivel árið 1975. Hann var settur í fangelsi í Ekvador næsta ár ásamt rómansk-amerískum og norður-amerískum biskupum. Hann var handtekinn í Búenos Aíres árið 1977, pyntaður og honum haldið í fangavist í 14 mánuði. Á þeim tíma hlaut hann meðal annars friðarverðlaun Jóhannesar 23. páfa.[3]

Þann 10. desember 1980 hlaut Pérez Esquivel friðarverðlaun Nóbels fyrir mannréttindabaráttu sína í Argentínu. Hann hafði verið tilnefndur af friðarverðlaunahöfunum Mairead Corrigan og Betty Williams.[5] Hann þáði verðlaunin „í nafni fátækustu og minnstu bræðra minna og systra“[5] og gaf verðlaunaféð til líknarmála.[6] Hann var áfram virkur stuðningsmaður mæðra Maítorgsins þrátt fyrir að sæta áframhaldandi ofsóknum herforingjastjórnarinnar.[6] Hann gekk síðar í hreyfingar til stuðnings frumbyggjaréttindum, náttúruvernd og til að mótmæla efnahagslegum aðhaldsaðgerðum Fríverslunarsvæðis Ameríkuríkja.[5]

Pérez Esquivel hlaut Pacem in Terris-verðlaunin árið 1999. Árið 1995 gaf hann út bókina Caminando Junto al Pueblo, þar sem hann fjallaði um reynslu sína af friðarhreyfingum í Rómönsku Ameríku. Hann var útnefndur prófessor í friðar- og mannréttindafræðum við Háskólann í Búenos Aíres árið 1998.[7] Árið 2010 tók hann þátt í mótmælaherferð gegn hugmyndum um að lögreglan í Esquel þjálfaði börn í sérstakar varnarsveitir, sem Pérez Esquivel líkti við Hitlersæskuna í Þýskalandi nasismans.[8]

Pérez Esquivel var á móti inngripi Evrópuríkja í líbísku borgarastyrjöldina árið 2011 og varaði gegn inngripi í sýrlensku borgarastyrjöldina.[9] Eftir dauða Osama bin Laden sendi Pérez Esquival Barack Obama Bandaríkjaforseta bréf þar sem hann gaf í skyn að Bandaríkjamenn hefðu drepið bin Laden í stað þess að draga hann fyrir rétt af ótta við að hann byggi yfir óþægilegum upplýsingum um hryðjuverkin 11. september 2001.[9] Pérez Esquival hélt því fram að Bandaríkjastjórn stæði mögulega sjálf á bak við árásina og að hún hefði verið „fullkomin afsökun til að lýsa yfir stríði gegn Afganistan og Írak og nú gegn Líbíu“. Hann kallaði Bandaríkin jafnframt „öxulveldi hins illa“.[9]

Þegar Jorge Bergoglio, erkibiskup af Búenos Aíres, var kjörinn páfi rómversk-kaþólsku kirkjunnar undir nafninu Frans þann 13. mars 2013 lagði Pérez Esquivel orð í belg og sagði að sem yfirmaður Jesúítareglunnar í Argentínu hefði Bergoglio „skort hugrekkið sem aðrir biskupar sýndu með því að styðja mannréttindabaráttu okkar á tíma einræðisstjórnarinnar“.[10] Pérez Esquivel sagði þó einnig að Bergoglio hefði „gert það sem hann gat miðað við aldur sinn á þeim tíma“.[11] Hann tók jafnframt fram að Bergoglio hefði aldrei verið bandamaður eða samstarfsmaður einræðisstjórnarinnar og bætti við: „Þótt margir segi að hann hafi ekki gert nóg til að fá tvo presta látna lausa úr fangelsi veit ég persónulega að margir aðrir biskupar biðluðu til herforingjastjórnarinnar um frelsi þeirra og að þeim var synjað“.[12]

Í júní árið 2017 kom Pérez Esquivel ríkisstjórn Nicolásar Maduro í Venesúela til varnar og sagði að Bandaríkin væru að reyna að fremja „valdarán“ í landinu.[13]

Listaverk

breyta

Meðal listaverka Pérez Esquivels[14] má nefna innsetningar, veggmyndir og minnisvarða, þar á meðal veggmyndina Via Crucis Latinoamericano y Paño Cuaresma sem gerð var árið 1992 til að minnast 500 ára afmæli landtöku Evrópumanna í Ameríku. Pérez Esquivel hefur einnig gert minnisvarða fyrir flóttamenn sem stendur í höfuðstöðvum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í Sviss, veggmynd af þjóðum Rómönsku Ameríku í dómkirkjunni í Riobamba í Ekvador og bronsstyttu til heiðurs Mahatma Gandhi á Gandhi-torgi í Barselóna.

Tilvísanir

breyta
  1. „Veik rödd, sem talar máli þeirra sem sviptir eru röddinni“. Tíminn. 11. janúar 1981. Sótt 24. febrúar 2020.
  2. „Adolfo Pérez Esquivel“. Peace Jam. Afrit af upprunalegu geymt þann 24. september 2015.
  3. 3,0 3,1 „Adofo Pérez Esquivel“. Nobel Prize Committee. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. september 2005. Sótt 25. september 2005.
  4. „Panelist:Adolfo Pérez Esquivel“. OAS. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. febrúar 2002.
  5. 5,0 5,1 5,2 „Adolfo Pérez Esquivel“. Encyclopedia of World Biography.
  6. 6,0 6,1 Carol Brennan. „Adolfo Pérez Esquivel“. Contemporary Hispanic Biography.
  7. „Biografía“. Adolfo Pérez Esquivel. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. júlí 2012.
  8. „Polémica en Argentina por la "policía infantil que promueve un sacerdote“. Noticias24. Afrit af upprunalegu geymt þann 1. apríl 2012. Sótt 7. ágúst 2011.
  9. 9,0 9,1 9,2 Luis Fleishman, The Gaza Crisis and the Intellectual Left in Latin America: A Dark Picture, The Americas Report: Center for Security Policy, December 6, 2012
  10. „Bergoglio no fue cómplice directo de la dictadura pero no tuvo el coraje para acompañar nuestra lucha“. InfoNews. 14. mars 2013. Afrit af upprunalegu geymt þann júlí 12, 2014. Sótt febrúar 25, 2020.
  11. El Nobel de la Paz Pérez Esquivel defiende al Papa durante la dictadura. elmundo.es. 14. mars 2013.
  12. „Bergoglio had no links with the dictatorship, says Nobel Peace Prize winner“. Buenos Aires Herald. 14. mars 2013. Afrit af upprunalegu geymt þann júlí 24, 2020. Sótt febrúar 25, 2020.
  13. „Dos Nobel de la Paz discutieron por Venezuela: Pérez Esquivel apoyó al chavismo y Arias declaró que el país "dejó de ser una democracia hace mucho tiempo“. NTN24. 8. júní 2017. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. ágúst 2017. Sótt 9. júní 2017.
  14. Obra Artística. Heimasíða Adolfo Pérez Esquivel (á spænsku)