Mairead Maguire (f. 27. janúar 1944), einnig þekkt undir nafninu Mairead Corrigan Maguire og áður kölluð Mairéad Corrigan, er friðarsinni og aðgerðasinni frá Norður-Írlandi. Ásamt Betty Williams og Ciaran McKeown stofnaði hún Samtök Friðarfólksins, hóp sem hvatti til friðsamlegrar lausnar á átökunum á Norður-Írlandi.[1] Corrigan og Williams voru sæmdar friðarverðlaunum Nóbels fyrir störf sín árið 1976.

Mairead Corrigan
Mairead Corrigan árið 2009.
Fædd27. janúar 1944 (1944-01-27) (80 ára)
ÞjóðerniNorður-Írsk
MenntunTrinity-háskóli í Dyflinni
TrúKaþólsk
MakiJackie Maguire (g. 1981)
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1976)

Í seinni tíð hefur Corrigan oft gagnrýnt stefnu ísraelskra stjórnvalda gagnvart íbúum Gasastrandarinnar, sérstaklega hafnarbann Ísraela á svæðið. Í júní árið 2010 fór Corrigan með skipinu MV Rachel Corrie og reyndi án árangurs að rjúfa hafnarbannið.

Æviágrip

breyta

Árið 1976 létust þrjú systurbörn Corrigans þegar liðsmaður Írska lýðveldishersins ók á þau á flótta undan lögreglunni. Atvikið varð til þess að Corrigan gekk til liðs við Betty Williams, sem hafði orðið vitni að atvikinu og hafði ákveðið að stofna til friðarhreyfingar til þess að mótmæla átökunum á Norður-Írlandi.[2] Konurnar fóru milli húsa til að safna undirskriftum fyrir friðaráskorun til stjórnvalda og skipulögðu kröfugöngur sem löðuðu til sín tugþúsundir manna í Belfast.[3][4][5]

Mótmælagöngur Friðarfólksins vöktu heimsathygli og leiddu til þess að Corrigan og Williams voru sæmdar friðarverðlaunum Nóbels árið 1976. Umsvif Friðarfólksins fóru hins vegar fljótt að dvína eftir verðlaunaafhendinguna og samstarf Williams og Corrigans fór að súrna. Konurnar tvær voru ósammála um hvernig verðlaunafénu skyldi ráðstafað: Williams taldi að sem verðlaunahafar ættu þær Corrigan verðlaunaféð til eigin umráða en Corrigan taldi að það tilheyrði sjóði friðarsamtakanna.[3] Williams sagði sig að endingu úr friðarhreyfingunni árið 1980.[6]

Anne Maguire, systir Maireads, sem hafði misst þrjú börn í atvikinu árið 1976, fyrirfór sér árið 1980.[7][8] Árið 1981 giftist Mairead ekkli systur sinnar og fyrrum mági sínum, Jackie Maguire. Hún gaf ekki kost á sér til endurkjörs sem formaður Friðarfólksins sama ár.[9] Starfsemi friðarhreyfingarinnar rann að mestu út í sandinn á næstu árum.[10]

Mairead Maguire hefur haldið áfram að starfa með Friðarfólkinu fram til dagsins í dag. Í seinni tíð, sérstaklega eftir undirritun Föstudagssáttmálans árið 1998, hafa samtökin tekið á sig alþjóðlegri mynd og hafa látið sig ýmis málefni varða. Maguire hefur sér í lagi verið gagnrýnin á stefnu Ísraelsstjórnar gagnvart Palestínumönnum og hefur tekið þátt í mótmælaaðgerðum gegn henni.[11]

Tilvísanir

breyta
  1. „Peace People – History“ (enska). Friðarfólkið. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. júní 2011. Sótt 19. júní 2019. „This was the beginning of the Movement and the three co-founders worked to harness the energy and desire of many people in Northern Ireland for peace... Ciaran named the movement, Peace People, wrote the Declaration, and set out its rally programme, etc.“
  2. „Írsk friðarhreyfing vekur heimsathygli“. Tíminn. 7. október 1976. Sótt 19. júní 2019.
  3. 3,0 3,1 „Friðarfólkið á N-Írlandi starfar enn“. Dagblaðið Vísir. 8. nóvember 1983. Sótt 19. júní 2019.
  4. „Stöðva konur IRA?“. Tíminn. 12. september 1977. Sótt 19. júní 2019.
  5. „Byrjuðu í litlu risherbergi“. Vísir. 14. október 1977. Sótt 19. júní 2019.
  6. Ólafur Geirsson (8. mars 1980). „Leiðir skilja hjá friðarkonum“. Dagblaðið. Sótt 19. júní 2019.
  7. „Ógnaröldin á Norður-Írlandi lagði líf hennar í rúst“. Tíminn. 29. febrúar 1980. Sótt 19. júní 2019.
  8. „Móðir barnanna sem féllu í Belfast '76 framdi sjálfsmorð“. Vísir. 13. febrúar 1980. Sótt 19. júní 2019.
  9. „Friðarhetjan giftist“. Tíminn. 17. september 1981. Sótt 19. júní 2019.
  10. „Vonast til að verðlaunin festi friðarferlið í sessi“. Morgunblaðið. 17. október 1998. Sótt 19. júní 2019.
  11. „Nobel laureate Maguire: UN should suspend Israel membership“ (enska). Haaretz. 20. nóvember 2008. Sótt 20. júní 2019.