Betty Williams (22. maí 1943 – 17. mars 2020) var norður-írskur friðarsinni sem vann friðarverðlaun Nóbels ásamt Mairead Corrigan árið 1976 fyrir að stofna samtök „Friðarfólksins“, sem hvöttu til friðsamlegrar lausnar á átökunum á Norður-Írlandi.

Betty Williams
Betty Williams árið 1996.
Fædd22. maí 1943
Dáin17. mars 2020 (76 ára)
ÞjóðerniNorður-Írsk
TrúKaþólsk
MakiRalph Williams, James Perkins
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1976)

Æviágrip breyta

Eftir að þrjú börn létust í Belfast árið 1976 þegar þau urðu fyrir bifreið hryðjuverkamanns Írska lýðveldishersins sem var á flótta undan lögreglunni ákvað Betty Williams að stofna til samtaka til að mótmæla ófriðinum í Norður-Írlandi. Hún hafði samband við frænku barnanna, Mairead Corrigan, og stofnaði með henni hreyfingu sem gekk á milli húsa til að safna undirskriftum á friðaráskorun.[1] Á sama degi stofnaði Williams litla nefnd kvenna til að vinna að því að koma á friði á Norður-Írlandi.[2] Samtökin byrjuðu smátt en brátt tókst þeim að safna saman þúsundum manna í kröfugöngur til þess að mótmæla ófriðinum og krefjast friðsamlegrar lausnar.[3]

Williams og Corrigan voru sæmdar friðarverðlaunum Nóbels árið 1976, þegar mest fór fyrir friðarhreyfingu þeirra. Á næstu árum eftir verðlaunaafhendinguna spilltist hins vegar samstarf þeirra, einkum vegna ósættis með það hvernig verðlaunafénu skyldi ráðstafað. Williams taldi að sem verðlaunahafar ættu þær Corrigan verðlaunaféð til eigin umráða en Corrigan taldi að það tilheyrði sjóði friðarsamtakanna.[3] Williams sagði sig formlega úr samtökum Friðarfólksins í febrúar árið 1980 og sagði að samtökin væru „ekki orðin annað en eitt skrifstofuveldið í viðbót“.[4] Williams komst í kast við lögin fyrir ölvunarakstur og ákvað að endingu árið 1981 að flytja til Bandaríkjanna til að hefja þar nýtt líf. Þessar uppákomur rýrðu mjög það traust sem fólk bar til friðarsamtakanna.[3]

Tilvísanir breyta

  1. „Byrjuðu í litlu risherbergi“. Vísir. 14. október 1977. Sótt 19. júní 2019.
  2. „Stöðva konur IRA?“. Tíminn. 12. september 1977. Sótt 19. júní 2019.
  3. 3,0 3,1 3,2 „Friðarfólkið á N-Írlandi starfar enn“. Dagblaðið Vísir. 8. nóvember 1983. Sótt 19. júní 2019.
  4. Ólafur Geirsson (8. mars 1980). „Leiðir skilja hjá friðarkonum“. Dagblaðið. Sótt 19. júní 2019.