Valdimar gamli

Stórfursti af Kænugarði
(Endurbeint frá Volodymyr mikli)

Valdimar gamli,[3] Volodymyr eða Vladímír Svjatoslavítsj (fornausturslavneska: Володимѣръ Свѧтославичь) var stórfursti (einnig kallaður konungur eða knjas) í Kænugarði og Hólmgarði í því sem norrænir menn kölluðu Garðaríki á 10. og 11. öld.

Skjaldarmerki Rúriksætt Stórfursti af Kænugarði
Rúriksætt
Valdimar gamli
Valdimar gamli
Ríkisár 11. júní 980 – 15. júlí 1015 (í Kænugarði)
969 – u. þ. b.  977 (í Hólmgarði)
SkírnarnafnVolodymyr Svjatoslavytsj
FæddurÍ kringum 958
 Búdník nálægt Pskov (núverandi Pskov Oblast)[1] eða Búdjatytsjí (í núverandi Volyn Oblast)[2]
Dáinn15. júlí 1015
 Berestovo, Garðaríki (nú í Kænugarði)
GröfTíundarkirkjan í Kænugarði
Konungsfjölskyldan
Faðir Svjatoslav 1.
Móðir Malúsja
EiginkonaAllogia
Ragnheiður af Palteskju
Adela
Málfríður
Anna Porfyrogenita
BörnIzjaslav, Jarisleifur, Mstislav, Boris, Gleb, Súdislav, María Dobronjega

Valdimari er talið til tekna að hafa kristnað Rús-þjóðirnar í Garðaríki undir lok 10. aldar. Hann er því heiðraður sem dýrlingur innan deilda rétttrúnaðarkirkjunnar í Rússlandi og Úkraínu og er gjarnan kallaður Valdimar helgi eða Valdimar mikli.

Æviágrip

breyta

Valdimar var sonur Svjatoslavs fursta af Kænugarði, sem lést í bardaga við Petsjenega árið 972. Hann barðist í kjölfarið við tvo bræður sína, Jaropolk og Oleg, um völdin í Garðaríki. Við dauða Svjatoslavs réði Jaropolk yfir Kænugarði, Oleg sat í Drevljana og Valdimar réði yfir Hólmgarði.[4] Eftir að Jaropolk réðst á Drevljana og Oleg lést í orrustu um borgina fór Valdimar að óttast um líf sitt og flúði því til Norðurlanda.[5]

Samkvæmt sagnaannálinum Sögu liðinna ára sneri Valdimar aftur til Garðaríkis árið 980 ásamt liði væringja og hóf hernað gegn Jaropolk til að ná völdum yfir ríki föður þeirra. Hann sigraði borgina Palteskju og tók sér Ragnheiði, dóttur furstans Rögnvaldar, fyrir konu. Ragnheiður hafði áður hafnað bónorði Valdimars vegna þess að hann var „ambáttarsonur.“[5] Valdimar lét drepa Rögnvald og syni hans og hélt síðan áfram til Kænugarðs. Þar sat her Valdimars um borgina og rak Jaropolk á flótta til borgarinnar Rodnju. Að lokum ákvað Jaropolk, samkvæmt ráðum hertogans Blúd sem var á málum hjá Valdimari, að semja um frið. Þegar til Valdimars var komið var Jaropolk hins vegar drepinn af væringjum. Þannig náði Valdimar völdum yfir furstadæmunum í Garðaríki. Eftir sigurinn tók Valdimar sér jafnframt gríska konu Jaropolks sem frillu.[6]

Kristnun Garðaríkis

breyta

Þegar Valdimar tók við völdum í Kænugarðsríkinu aðhylltist hann enn slavneska heiðni og lét reisa skurðgoð af guðunum Perún, Khors, Dazhbog, Stribog, Simargl og Mokosh yfir hallargarði sínum.[7] Eftir því sem veldi Valdimars í Garðaríki óx og dafnaði fór hann hins vegar að leita að virðulegri trúarbrögðum til að styrkja innviðu ríkisins og upphefja það í áliti nágranna sinna.[8]

Fræg saga gengur af því hvernig Valdimar tók ákvörðun um kristnitökuna í Garðaríki. Í annálum er sagt frá því að áður en Valdimar tók ákvörðun um hvaða trú ríki hans skyldi gangast undir hafi hann sent sendiboða í allar áttir til að kynna sér hvaða trúarbrögð hentuðu best.[9] Árið 986 er sagt að Búlgarar hafi kynnt íslamstrú fyrir Valdimari. Valdimar var hrifinn af fyrirheitum íslamstrúar um að Guð myndi gefa hverjum manni sjötíu fagrar konur í paradís. Hins vegar gat hann ekki hugsað sér að iðka trúarbrögð þar sem menn yrðu að gangast undir umskurð og neita sér um að borða svínakjöt og drekka áfengi.[10] Hann hafnaði því íslamstrú og mælti hin fleygu orð: „Gleði Rússa er sú að drekka, án þess getum við ekki verið.“[11]

Valdimar tók þá á móti Þjóðverjum sem kynntu fyrir honum kaþólska trú. Valdimari ku hafa þótt kaþólskar messur afar drungalegar, auk þess sem honum leist illa á að þurfa að fasta. Þá hlýddi Valdimar á Kasara sem kynntu fyrir honum gyðingdóm, en þeirri trú hafnaði Valdimar eftir að Kasararnir sögðu honum að Gyðingar hefðu hrökklast frá landi forfeðra sinna í Jerúsalem og að kristnir menn hefðu tekið lönd þeirra.[12]

Loks er sagt að Valdimar hafi tekið við grískum sendiboða frá Býsansríkinu og að sá hafi talið hann á að gangast rétttrúnaðarkirkjunni í Miklagarði á hönd. Sendiboðar Valdimars höfðu fengið að sækja messu í Ægisif í Miklagarði og þótti þeim mikið til koma hve glæsileg helgiþjónustan var.[13] Líklegt er þó að pólitískar hvatir hafi einnig legið því að baki að rétttrúnaður varð fyrir valinu. Í Sögu liðinna ára er sagt frá því að Valdimar hafi herjað á borgina Korsún, sem var undir Býsansríkinu. Hann heimtaði að fá Önnu Porfyrogenitu, systur Basils 2. Miklagarðskeisara, að konu í skiptum fyrir að Mikligarður yrði látinn vera. Á þetta var fallist að því gefnu að Valdimar tæki jafnframt skírn, sem hann gerði.[14] Þessi saga hefur verið skýrð á þann veg að Basil keisari hafi þurft liðsauka til að verjast í valdabaráttu innan Býsansríkisins og að Valdimar hafi veitt honum liðsauka 6.000 væringja. Í skiptum fyrir þessa aðstoð hafi Valdimar fengið systur keisarans fyrir eiginkonu en hafi þurft að gangast undir kristna trú til að innsigla ráðahaginn.[15]

Kristnitakan er miðuð við árið 988, en þá er sagt að Valdimar hafi tekið skírn og hafi um leið látið fella líkneskið af þrumuguðinum Perún af stalli, látið lemja það með svipum og síðan henda því í Dnjeprfljót. Valdimar lét síðan boð ganga til allra íbúa Kænugarðs um að fólk skyldi fjölmenna að Dnjepr til þess að taka skírn, sem flestir gerðu. Valdimar lýsti því yfir að hver sem ekki gengist undir kristni yrði álitinn óvinur hans.[16]

Seinni æviár og dauði Valdimars

breyta

Valdimar átti í baráttu við Petsjenega mestalla valdatíð sína. Honum tókst að koma á sæmilegum friði innanlands, bæði með því að upphefja höfðingja af margvíslegum uppruna og með því að setja syni sína yfir stjórn margra stærstu borganna. Á efri árum hafði Valdimar falið sonum sínum stjórn yfir flestum borgum Garðaríkis. Sonur hans, Jarisleifur, réð yfir Hólmgarði, Boris og Gleb sátu í Rostov og Múromu og Svjatopolk sat í Túrov vestur af Kænugarði. Árið 1014 hófust illdeilur á milli feðganna þegar Jarisleifur hætti að greiða Valdimari skatt. Valdimar hugðist fara með her gegn Jarisleifi til að skikka hann til, en um svipað leyti réðust Polovtsar (Kúmanar) inn í Garðaríki. Valdimar sendi son sinn, Boris, til að mæta Polovtsum þar sem hann var sjálfur orðinn sjúkur. Eftir fimmtán daga veiki lést Valdimar. Dauða hans var fyrst um sinn haldið leyndum af ótta við að Svjatopolk, sem var þá staddur í Kænugarði, myndi ræna völdum. Dauði Valdimars leiddi til valdabaráttu milli sona hans sem lauk með því að Jarisleifur sigraði Svjatopolk og varð nýr stórfursti í Kænugarði.[15]


Tilvísanir

breyta
  1. Александров А. А. Ольгинская топонимика, выбутские сопки и руссы в Псковской земле // Памятники средневековой культуры. Открытия и версии. СПб., 1994. С. 22—31.
  2. Díjba, Júríj (2012). Aleksandrovítsj V.; Vojtovítsj, Leontíj; og fleiri (ritstjórar). Історично-геогра фічний контекст літописного повідомлення про народження князя Володимира Святославовича: локалізація будятиного села (PDF). Княжа доба: історія і культура (úkraínska). Lviv. 6. ISSN 2221-6294. Sótt 7. janúar 2018.
  3. Finnur Jónsson, ritstjóri (1902-8). „21. Vm Ólaf Tryggva sun oc um hans æve“. Fagrskinna. Kaupmannahöfn: S. L. Møllers Bogtrykkeri. bls. 108.
  4. Rússa sögur og Igorskviða. Þýðing eftir Árna Bergmann. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag. 2009. bls. 94. ISBN 978-9979-66-238-9.
  5. 5,0 5,1 Rússa sögur og Igorskviða. bls. 95.
  6. Rússa sögur og Igorskviða. bls. 96.
  7. Rússa sögur og Igorskviða. bls. 99.
  8. Rússa sögur og Igorskviða. bls. 123.
  9. Rússland og Rússar. bls. 16.
  10. Illugi Jökulsson (29. janúar 2022). „Saga Úkraínu: Höfnuðu íslam vegna áfengisbanns“. Stundin. Sótt 23. apríl 2022.
  11. Rússa sögur og Igorskviða. bls. 115.
  12. Rússa sögur og Igorskviða. bls. 156-117.
  13. Rússa sögur og Igorskviða. bls. 124.
  14. Rússa sögur og Igorskviða. bls. 128.
  15. 15,0 15,1 Rússa sögur og Igorskviða. bls. 131.
  16. Árni Bergmann (2004). Rússland og Rússar. Reykjavík: Mál og menning. bls. 16. ISBN 9979-3-2402-3.