Kasarar
Kasarar voru tyrknesk þjóð sem stofnaði stórt lénsveldi norðan Kákasusfjalla á 7. öld. Á hátindi sínum á 9. öld náði þetta ríki yfir stóran hluta af því sem nú eru Evrópuhluti Rússlands, austurhluti Úkraínu (þar með talinn Krímskagi), vesturhluti Kasakstans, Aserbaídsjan, hluti Georgíu og norðausturhluti Tyrklands. Ríki kasara var arftaki Vesturtyrkneska kanatsins sem var á sömu slóðum frá 6. öld til 7. aldar. Lítið er vitað um uppruna kasara sjálfra. Sumir fræðimenn vilja rekja þá til úígúra, aðrir til húna og enn aðrir til miðasískra þjóðflokka austan Kaspíahafs. Kasarska virðist hafa verið oghúrískt mál, svipað því sem hinir fornu búlgarar töluðu. Nánast engar ritheimildir á kasörsku hafa varðveist og mest af því sem vitað er um kasara kemur frá nágrannaþjóðum þeirra. Eitt af fáum dæmum um frumheimildir frá ríki Kasara eru bréfaskipti milli Jósefs ben Aron, kasarakans, og spænska fræðimannsins Hasdai ibn Shaprut, sem var utanríkisráðherra kalífans í Córdoba.[1]
Ríki kasara var fjölmenningarsamfélag þar sem fjöldi tungumála og trúarbragða fékk að dafna í friði. Kasarar virðast hafa gert bandalag við Austrómverska ríkið. Þeir mynduðu eins konar stuðpúða milli kristnu ríkjanna í Evrópu og íslömsku ríkjanna í Suðvestur-Asíu sem á þeim tíma voru í mikilli sókn. Hugsanlega var það ástæða þess að kasarska yfirstéttin snerist til gyðingdóms á 9. öld.
Endalok ríkis kasara urðu vegna uppgangs Kænugarðs. Herfarir Svjatoslavs 1. konungs Kænugarðsrússa í austurveg, gerðu út af við borgir kasara eina af annarri og að lokum féll höfuðborg þeirra, Atil, í hendur honum 968 eða 969.
Á 19. öld varð sú kenning til meðal kynþáttafræðinga að askenasígyðingar ættu rætur sínar að rekja til kasara. Þeir væru þannig í raun ekki afkomendur hinna fornu hebrea og ættu því ekkert sérstakt tilkall til Ísraelsríkis. Gagnrýnendur hafa hins vegar bent á að engar heimildir séu til sem gefa ástæðu til að ætla svo mikil tenging.[2] Askenasí-gyðingar hafa aðeins örfáar erfðalínur sem er sameiginlegt með sumum tyrkneskum og norður-kákasískum þjóðarbrotum.[3]
Tilvísanir
breyta- ↑ Brook, Kevin Alan (2018). The Jews of Khazaria (3rd. útgáfa). Rowman and Littlefield Publishers. bls. 89–92. ISBN 978-1-5381-0342-5.
- ↑ Katz, Dovid (2004). Words on Fire: The Unfinished Story of Yiddish. Basic Books. bls. 132. ISBN 978-0465037285.
- ↑ Brook, Kevin Alan (2022). The Maternal Genetic Lineages of Ashkenazic Jews. Academic Studies Press. bls. 7, 16–17, 85–86, 140–141. doi:10.2307/j.ctv33mgbcn. ISBN 978-1644699843.