Hólmgarður

bær í Rússlandi

Hólmgarður, Novgorod eða Velikij Novgorod – (rússneska: Великий Новгород; íslenska: Mikla Novgorod eða Mikla Nýborg) er hinn forni höfuðstaður Garðaríkis og með merkustu sögustöðum Rússlands. Borgin er á milli Moskvu og St. Pétursborgar og er 180 km suðaustur af Pétursborg við ána Volkhov sem rennur úr Ilmen-vatni. Í borginni búa nú 240 þúsund manns og er hún stjórnarsetur fyrir Novgorod-sýslu (Novgorod-oblast). Loftslag er þurrt og er meðalhiti á sumrin +25 °C og á veturna –10 °C. Fornminjar í Novgorod voru settar á Heimsminjaskrá UNESCO árið 1992.

Soffíukirkjan í Novgorod er vel varðveitt kirkja frá 11. öld og hin elsta sem sýnir upprunaleg einkenni rússneskrar byggingarlistar.

Hólmgarður (gamli bærinn)

breyta

Hólmgarður (gamli bærinn) var um 2 km sunnan við Novgorod, á austurbakka Volkhov-árinnar, þar sem hún rennur úr Ilmen-vatni. Bærinn stóð á dálítilli hæð, en í kring var votlendi sem fór í kaf í vatnavöxtum, og var þá eins og bærinn stæði á hólma. Á síðari öldum var staðurinn kallaður Gorodisjtje, sem merkir Gamli bærinn, eða Gamla virkið. Í byrjun 19. aldar fóru fræðimenn að kalla staðinn Rjurikovo Gorodisjtje eftir hinum norræna Rúrik (Hræreki) sem uppi var 830 – 879 en honum var boðið til bæjarins til að koma þar á friði. Hann settist að í bænum og gerði hann að höfuðstað sínum. Árið 882 vann eftirmaður Hræreks, Helgi frá Hólmgarði, Kænugarð.

Hólmgarður (nýi bærinn) – Novgorod

breyta

Um 950 fór að myndast umtalsvert þéttbýli við Volkhov-ána, 2 km norðan við Gamla bæinn, þar sem Novgorod er nú. Sá þéttbýliskjarni varð brátt mikilvægari í stjórnkerfi svæðisins. Árið 988 var kristin trú innleidd í Garðaríki, og ári síðar var fyrsta timburkirkjan í landinu byggð í Novgorod (Soffíukirkjan), og stofnað biskupssetur. Skömmu eftir 1015 flutti stórfurstinn Jarisleifur hinn vitri aðsetur sitt frá Gamla bænum til Novgorod og var þar þá bæði miðstöð kirkjulegs og veraldlegs valds á svæðinu. Árið 1044 var byrjað að byggja virki þar á staðnum, og varð þá Gamli bærinn smábær sem hafði ekki mikla þýðingu.

Hólmgarður var mikilvæg miðstöð í viðskiptaferðum Væringja milli landanna við Eystrasalt og Miklagarðs.

Fornleifarannsóknir

breyta

Fyrsta fornleifarannsókn í Gamla bænum var gerð 1901, og var haldið áfram á árunum 1910–1969, en aðeins í takmörkuðum mæli. Á árunum 1975–1989 var svo ráðist í frekari rannsóknir á vegum Rússnesku vísindaakademíunnar í Pétursborg, og fundust þá mikilvægar heimildir um hlutverk Gamla bæjarins í sögu svæðisins. Einnig hafa farið fram umfangsmiklar fornleifarannsóknir í Novgorod sem hafa leitt í ljós miklar sögulegar heimildir um svæðið. Meðal þeirra eru um 750 sendibréf frá 11. – 15. öld, skrifuð með griffli eða ritstíl á birkibörk. Talið er líklegt að enn eldri bréf eigi eftir að finnast, frá því fyrir 1000. Einnig hafa fundist nokkrar rúnaristur, sem sýna tengsl við Norðurlönd.

Fornminjafundir benda til þess að Gorodisjtj geti verið frá miðri 9. öld. Um miðja 11. öld er Novgorod orðinn þróaður miðaldabær og stjórnarsetur. Rúrik-konungdæmið hélt velli í Rússlandi í meira en 750 ár.

Tengt efni

breyta
 
Minnismerki um þúsund ára sögu Rússlands í Novgorod. Afhjúpað 1862 til að minnast komu Rúriks til borgarinnar.

Heimildir

breyta
  • Vikingernes Rusland – Staraja Ladoga og Novgorod, Roskilde 1993.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Veliky Novgorod“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 12. júlí 2009.

Tenglar

breyta

58°29′41″N 31°18′04″A / 58.49472°N 31.30111°A / 58.49472; 31.30111