Vilhjálmur Árnason (heimspekingur)
Vilhjálmur Árnason (fæddur 6. janúar 1953 í Neskaupstað á Íslandi) er íslenskur heimspekingur og prófessor emeritus við Háskóla Íslands.
Íslensk heimspeki Heimspeki 20. aldar, Heimspeki 21. aldar | |
---|---|
Nafn: | Vilhjálmur Árnason |
Fædd/ur: | 6. janúar 1953 |
Skóli/hefð: | Samræðusiðfræði |
Helstu ritverk: | Siðfræði lífs og dauða; Broddflugur |
Helstu viðfangsefni: | siðfræði, siðspeki, stjórnspeki |
Markverðar hugmyndir: | mannhelgi, samræðusiðfræði, greinarmunur á leikreglum og lífsgildum, sjálfræði |
Áhrifavaldar: | Immanuel Kant, Jürgen Habermas, Jean-Paul Sartre, John Rawls |
Vilhjálmur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni árið 1973, B.A.-gráðu í heimspeki og bókmenntum frá Háskóla Íslands árið 1978 og hlaut kennsluréttindi árið 1979. Að loknu námi við Háskóla Íslands hélt Vilhjálmur utan í nám. Hann hlaut M.A.-gráðu í heimspeki frá Purdue háskóla í Indiana fylki í Bandaríkjunum árið 1980 og Ph.D.-gráðu frá sama skóla árið 1982. Hann var Alexander von Humboldt styrkþegi í Berlín árið 1993 og Visiting fellow við Clare Hall í Cambridge University á Englandi á vormisseri 2006.
Veturinn 1976–1977 kenndi Vilhjálmur íslensku við Gagnfræðaskólann í Neskaupstað. Hann var stundakennari í heimspeki við Menntaskólann við Sund veturinn 1977-1978 og var auk þess leiðbeinandi í heimspekilegum forspjallsvísindum við Háskóla Íslands. Á árunum 1983–1988 var Vilhjálmur stundakennari í heimspeki við Heimspekideild, Guðfræðideild og Félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Hann varð lektor í heimspeki við sama skóla árið 1989, dósent árið 1990 og prófessor árin 1996–2023. Vilhjálmur er í hlutastarfi (20%) við Høgskolen på Vestlandet í Bergen (2023).
Vilhjálmur hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum. Hann var formaður Siðaráðs Landlæknis árin 1998–2000 og var formaður stjórnar Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands árin 1997–2022. Vilhjálmur var varaformaður stjórnar Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands árin 1995–1997. Hann var deildarforseti heimspekideildar Háskóla Íslands 2000–2002 og fulltrúi hugvísindadeiladr í háskólaráði Háskóla Íslands 2004–2006. Hann sat í Norrænu lífsiðfræðinefndinni, Nordisk komité for bioetik 2004–2010, formaður 2007. Sat í stjórn European Society for Philosophy of Medicine and Health Care 2004–2010 og í stjórn International Association of Bioethics (IAB) 2012–2022. Vilhjálmur var formaður vinnuhóps á vegum Forsætisnefndar Alþingis sem lagði mat á hvort skýringar á falli íslensku bankanna og tengdum efnahagsáföllum væri að einhverju leyti finna í starfsháttum og siðferði 2009–2010.
Vilhjálmur var ritstjóri Lærdómsrita Hins íslenska bókmenntafélags frá 1997–2003 (ásamt Ólafi Páli Jónssyni frá 2002) og ritstjóri Skírnis árin 1987–1994 (ásamt Ástráði Eysteinssyni frá 1989).
Vilhjálmur fæst einkum við siðfræði, bæði fræðilega og hagnýtta siðfræði. Hann hefur birt fræðilegar greinar um þau efni víða, bæði á íslensku og erlendum málum. Bók hans Siðfræði lífs og dauða var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Forseta Íslands árið 1993. Hún var gefin út aukin og endurbætt 2003 og 2023. Einnig kom hún út í þýskri þýðingu 2005 hjá LIT–Verlag undir heitinu Dialog und Menschenwürde. Ethik im Gesundheitswesen.
Heimasíða: https://vilhjalmurarna.is/
Helstu ritverk á íslensku
breyta- Siðfræðikver. (2016); ensk þýðing: The Moral Perspective. Reflections on Ethics and Practice (2018).
- Rabbað um veðrið og fleiri heimspekileg hugtök (2015)
- Hugsmðar. Um siðferði, stjórnmál og samfélag (2014)
- „Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008“ (ásamt Salvöru Nordal og Kristínu Ástgeirsdóttur). Í (ritstj. Páll Hreinsson, Sigríður Benediktsdóttir og Tryggvi Gunnarsson) Aðdragandi og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengdir atburðir (Reykjavík: Rannsóknarnefnd Alþingis, 2010), bls. 7-243.
- Farsælt líf, réttlátt samfélag - kenningar í siðfræði (2008)
- Sjálfræði og aldraðir í ljósi íslenskra aðstæðna, ásamt Ástríði Stefánsdóttur (2004)
- Broddflugur: Siðferðilegar ádeilur og samfélagsgagnrýni (1997)
- Siðfræði lífs og dauða (1993, 2. útg. 2003, 3. útg. 2023; þýsk útgáfa 2005: Dialog und Menschenwürde. Ethik im Gesundheitswesen')
- Þættir úr sögu siðfræðinnar (1990)
- Siðfræði heilbrigðisþjónustu (1990)
Tengill
breyta
Fyrirrennari: Kristján Karlsson og Sigurður Líndal |
|
Eftirmaður: Jón Karl Helgason og Róbert H. Haraldsson |