Sumarólympíuleikarnir 1932

Sumarólympíuleikarnir 1932 voru haldnir í Los Angeles í Bandaríkjunum á tímabilinu 30. júlí til 14. ágúst. Umgjörð leikanna var með glæsilegasta móti, en vegna heimskreppunnar og hins langa ferðalags voru þátttakendur innan við helmingur þess sem verið hafði í Amsterdam 1928.

Hlið Ólympíuleikvangsins í Los Angeles.

Aðdragandi og skipulag breyta

Los Angeles hafði sóst eftir að halda Ólympíuleikana árin 1924 og 1928, en ekki fengið. Að þessu sinni sóttist engin önnur borg eftir leikunum.

Ráðist var í endurbætur á aðalíþróttaleikvangi borgarinnar, sem tekinn hafði verið í notkun árið 1923. Völlurinn var einnig notaður árið 1984 þegar Ólympíuleikarnir voru á ný haldnir í Los Angeles.

Ýmsar nýjungar voru kynntar til sögunnar á leikunum. Má þarf nefna að ljósmyndir voru teknar við marklínu í spretthlaupum til að skera úr um sigurvegara. Þá var bryddað upp á þeirri nýjung að láta verðlaunahafa stíga upp á misháa palla við verðlaunaafhendingu.

Keppnisgreinar breyta

Keppt var í 117 greinum. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga.

Einstakir afreksmenn breyta

 
Matti Järvinen sigraði auðveldlega í spjótkastskeppninni, sem var finnsk sérgrein.

Finninn Paavo Nurmi hugðist keppa á sínum fjórðu Ólympíuleikum, en var meinað að taka þátt á þeirri forsendu að hann hefði þegið greiðslu fyrir keppni á íþróttamóti í Þýskalandi. Eftir leikana var úrskurðinum breytt og Nurmi beðinn afsökunar.

Bandaríska frjálsíþróttakonan “Babe” Didrikson Zaharias vann til gullverðlauna í 80 metra grindahlaupi og spjótkasti og silfurverðlauna í hástökki. Eftir að frjálsíþróttaferlinum lauk, sneri hún sér að golfíþróttinni og keppti á móti karlatvinnumanna mörgum áratugum áður en aðrar konur náðu að leika það eftir. Árið 1999 valdi Associated Press hana íþróttakonu 20. aldar.

Volmari Iso-Hollo frá Finnlandi sigraði í 3.000 metra hindrunarhlaupi. Hlaupið varð reyndar 3.460 metrar, þar sem starfsmaðurinn sem átti að telja hringina gleymdi sér við að fylgjast með öðrum keppnisgreinum og sleppti út hring. Þau mistök kostuðu Iso-Hollo heimsmet.

 
Japaninn Chūhei Nambu sigraði í þrístökki á nýju heimsmeti, 15,72 metrum.

Stanisława Walasiewicz sigraði í 100 metra hlaupi. Hún keppti fyrir Pólland þrátt fyrir að búa og hafa alist upp í Bandaríkjunum. Eftir dauða hennar árið 1980 kom í ljós að hún hafði kynfæri bæði karls og konu og varð ekki ekki með fullu skorið úr um líffræðilegt kyn hennar. Ólymíuhreyfingin viðurkennir hana þó enn sem verðlaunahafa í kvennaflokki.

Finnar unnu þrefalt í spjótkasti. Gullið kom í hlut Matti Järvinen sem var langöflugasti spjótkastari heims um þær mundir. Á árunum 1930 til 1936 bætti hann heimsmetið í greininni tíu sinnum í röð. Finnsku keppendunum þótti lítið til andstæðinga sinna á leikunum koma og hirtu ekki einu sinni um að fara úr æfingagöllunum meðan á keppninni stóð.

Ellen Preis frá Austurríki vann til gullverðlauna í skylmingum, tvítug að aldri. Þetta voru hennar fyrstu leikar, en hún átti eftir að keppa á hverjum einustu leikum til 1956.

Japanir komu mjög á óvart sundkeppni karla, þar sem þeir hlutu fimm af sex gullverðlaunum og alls ellefu af verðlaunapeningunum átján.

Helene Madison frá Bandaríkjunum vann til þriggja gullverðlauna í sundi. Hún var um þetta leyti langöflugasta sundkona heims og hafði sett sextán heimsmet á jafnmörgum mánuðum á tímabilinu 1930-31. Eftir Los Angeles-leikanna lék Madison í kvikmynd þar sem hún sýndi sundhæfileika sína, með þeim afleiðingum að bandaríska Ólympíunefndin leit á hana sem atvinnumann og hleypti henni ekki á Berlínar-leikana 1936.

Þátttaka Íslendinga á leikunum breyta

Íþróttasamband Íslands skipaði fulltrúa í Ólympíunefnd á árinu 1931 til að kanna möguleikann á þátttöku í leikunum. Niðurstaðan varð sú að ferðalag til Los Angeles yrði alltof dýrt og kostnaðarsamt svo allar slíkar hugmyndir voru slegnar út af borðinu.

Verðlaunaskipting eftir löndum breyta

Nr. Land Gull Silfur Brons Samtals
1   Bandaríkin 41 32 30 103
2   Ítalía 12 12 12 36
3   Frakkland 10 5 4 19
4   Svíþjóð 9 5 9 23
5   Japan 7 7 4 18
6   Ungverjaland 6 4 5 15
7   Finnland 5 8 12 25
8   Bretland 4 7 5 16
9   Þýskaland 3 12 5 20
10   Ástralía 3 1 1 5
11   Argentína 3 1 0 4
12   Kanada 2 5 8 15
13   Holland 2 5 0 7
14   Pólland 2 1 4 7
15   Suður-Afríka 2 0 3 5
16   Írland 2 0 0 2
17   Tékkóslóvakía 1 2 1 4
18   Austurríki 1 1 3 5
19   Indland 1 0 0 1
20   Danmörk 0 3 3 6
21   Mexíkó 0 2 0 2
  Lettland 0 1 0 1
  Nýja Sjáland 0 1 0 1
  Sviss 0 1 0 1
25   Filippseyjar 0 0 3 3
26   Spánn 0 0 1 1
  Úrúgvæ 0 0 1 1
Alls 116 116 114 346