Strandarkirkja er kirkja við Engilvík á Suðurstrandavegi. Kirkjan var kirkja íbúa í Selvogi og bjó prestur í Vogsósum uns brauðið var lagt niður árið 1907. Strandakirkja er þjóðfræg vegna áheita og helgisagna. Strandarkirkja stendur við skerjótta og hafnlausa Suðurstöndina. Þar hjá er viti. Í kirknatali Páls Jónssonar biskups í Skálholti sem er að stofni til frá um 1200 er kirkjan á Strönd nefnd. Sennilegt er að lending í víkinni hafi verið um Strandarsund sem er suður og austur af kirkjunni. Núverandi kirkja var reist 1888 og endurvígð eftir endurbætur 14. júlí 1968 og endurbætt frekar og endurvígð aftur 13. október 1996.

Strandarkirkja.

Helgisagnir um Strandarkirkju

breyta

Elsta helgisögnin um Strandarkirkju er að Gissur hvíti hafi gert kirkju þar á 10. og 11. öld úr kirkjuvið sem Ólafur Tryggvason Noregskonungur sendi hann með frá Noregi. Önnur sögn er að Árni nokkur formaður hafi reist kirkjuna úr smíðavið sem hann kom með frá Noregi. Þriðja helgisögnin er um ungan bónda frá uppsveitum Árnessýslu sem fer til Noregs að sækja smíðavið í hús sín en lendir í sjávarháska og hafvillum og dimmviðri og veit ekki hvar skipið er. Hann ákveður í örvæntingu sinni að gefa allan smíðaviðinn til kirkjubyggingar á þeim stað þar sem hann næði landi heilu og höldnu. Þá sá hann ljósengil framundan stefni skipsins og verður sá engill stefnumið sem hann stýrir eftir. Hann lendir í sandvík milli sjávarklappa og þá hvarf engillinn. Skipsmenn sáu í birtingu morguninn eftir að þeir höfðu verið leiddir eftir bugðóttu lendingarsundi milli boðaskerja á úthafsbrimströnd. Var hin fyrsta Strandakirkja reist úr viðnum sem kom úr skipinu.

Vorið 1950 var reistur minnisvarði um kraftaverkið í Engilsvík norðvestan við kirkjuna. Minnisvarðinn sem er standmynd á stalli sem sýnir hvítklædda konu sem heldur á skínandi krossmarki er eftir Gunnfríði Jónsdóttur myndhöggvara og nefnist Landsýn. Árið 1994 var vígt minnismerki um látna sjómenn.

Messað er í Strandarkirkju um tíu sinnum á ári.

Heimild

breyta