Gunnfríður Jónsdóttir
Gunnfríður Jónsdóttir (26. desember 1889 - 15. maí 1968) var íslenskur myndhöggvari. Hún var frá Kirkjubæ í Húnavatnssýslu og voru foreldrar hennar Halldóra Einarsdóttir Andréssonar og Jón Jónsson. Gunnfríður fékk drep í fót átta ára gömul og útvortis berkla. Hún fór 19 ára í Kvennaskólann á Blönduósi. Hún lærði síðar kjólasaum og var fjögur ár í Reykjavík en fór til Stokkhólms 1919. Þar saumaði hún fyrir efnafjölskyldur og fékk hátt kaup og var þar í fimm ár og fór þaðan til Kaupmannahafnar, Berlínar og París.
Gunnfríður giftist Ásmundi Sveinssyni myndhöggvara árið 1924 og vann fyrir þeim báðum þar til hann lauk námi. Hún vann fyrst sem saumakona.
Hún kynntist Ásmundi í Reykjavík en þau urðu samskipa til Kaupmannahafnar árið 1919 og dvaldi Gunnfríður þar í áratug. Hér heima bjó hún og starfaði á Freyjugötu 41 en þar er í dag Ásmundarsalur. Gunnfríður lést árið 1968 og var jarðsett í kirkjugarði Strandakirkju.
Gunnfríður gerði sína fyrstu höggmynd um fertugt en það var styttan "Dreymandi drengur". Hún gerði einnig brjóstmynd af Sigurjóni Péturssyni í Álafossi en sú mynd stendur í brekkunni ofan við sundlaugina á Álafossi.
Meðal verka hennar er minnisvarði við Strandakirkju um kraftaverkið í Engisvík en það er höggmynd úr ljósu graníti sem sýnir hvítklædda konu benda sjómönnum í sjávarháska inn í Engilsvík.