Konungsríkið Napólí
Konungsríkið Napólí var ríki sem náði yfir meginlandshluta Suður-Ítalíu frá 1282 til 1816. Ríkið varð til þegar Konungsríkið Sikiley klofnaði eftir sikileysku aftansöngvana og Sikiley varð hluti af veldi Péturs 3. af Aragóníu. Samtímamenn kölluðu ríkið Konungsríkið Sikiley, þar sem það var de jure leifarnar af því. Þegar ríkin tvö sameinuðust aftur árið 1816 var því nýja ríkið kallað Konungsríki Sikileyjanna tveggja. Höfuðborg ríkisins var Napólí.
Fyrsti konungur ríkisins var Karl 1. af Napólí sem missti Sikiley í hendur Aragóníumanna. Afkomendur hans ríktu þar sem konungar þar til Alfons 5. af Aragóníu lagði ríkið undir sig árið 1442. Eftir lát hans 1458 féll Napólí í hendur launsyni hans Ferrante. Anjou-ætt gerði samt enn tilkall til ríkiserfða og þegar Ferdinand lést 1494 gerði Karl 8. Frakkakonungur innrás í Ítalíu og hóf þar með Ítalíustríðin. Hann neyddist þó brátt til að draga her sinn til baka og krúnan gekk til Ferdinands 2. Frakkar gáfu tilkall sitt formlega eftir með friðarsamningunum í Cateau-Cambrésis árið 1559.
Eftir Spænska erfðastríðið snemma á 18. öld fékk hið Heilaga rómverska ríki Napólí í sinn hlut en í Pólska erfðastríðinu 1734 lögðu Spánverjar ríkið aftur undir sig. Karl af Parma varð konungur en þegar hann erfði spænsku krúnuna 1759 lét hann yngri syni sínum, Ferdinand, ríkið eftir. Ferdinand var af ætt Búrbóna og barðist gegn Napóleoni í Frönsku byltingarstríðunum. Napóleon lagði ríkið undir sig 1806 og Ferdinand flúði til Sikileyjar þar sem honum tókst að verjast innrásum Joachim Murat sem Napóleon hafði gert að konungi í Napólí. Eftir seinni ósigur Napóleons steyptu Austurríkismenn Murat af stóli og endurreistu Ferdinand. Árið eftir var ákveðið að sameina konungsríkin tvö sem höfðu þá verið í konungssambandi um aldir.