Saó Tóme og Prinsípe
Saó Tóme og Prinsípe (portúgalska: São Tomé e Príncipe), formlega Lýðstjórnarlýðveldið Saó Tóme og Prinsípe (República Democrática de São Tomé e Príncipe) eru tveggja eyja eyríki í Gíneuflóa undan strönd Mið-Afríku. Eyjarnar eru 150 km frá hvor annarri og í um 250 og 225 km fjarlægð frá strönd Gabon. Báðar eru hluti af röð eldfjalla. Syðri eyjan, Saó Tóme, er nær nákvæmlega á miðbaug. Íbúar voru 201.800 árið 2018[1] og landið er því annað fámennasta fullvalda ríki Afríku, á eftir Seychelles-eyjum.
Lýðstjórnarlýðveldið Saó Tóme og Prinsípe | |
República Democrática de São Tomé e Príncipe | |
Fáni | Skjaldarmerki |
Kjörorð: Unidade, Disciplina, Trabalho (portúgalska) Eining, agi, vinna | |
Þjóðsöngur: Independência total | |
Höfuðborg | São Tomé |
Opinbert tungumál | portúgalska |
Stjórnarfar | Forsetaþingræði
|
Forseti | Carlos Vila Nova |
Forsætisráðherra | Patrice Trovoada |
Sjálfstæði | |
• frá Portúgal | 12. júlí 1975 |
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
171. sæti 964 km² 0 |
Mannfjöldi • Samtals (2021) • Þéttleiki byggðar |
186. sæti 223.107 199,7/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2017 |
• Samtals | 0,685 millj. dala (209. sæti) |
• Á mann | 3.220 dalir (182. sæti) |
VÞL (2021) | 0.618 (138. sæti) |
Gjaldmiðill | dóbra (STD) |
Tímabelti | UTC |
Þjóðarlén | .st |
Landsnúmer | +239 |
Eyjarnar voru óbyggðar þar til portúgölsku landkönnuðirnir João de Santarém og Pedro Escobar uppgötvuðu þær árið 1470. Eyjarnar voru smám saman byggðar á 16. öld og urðu mikilvæg miðstöð fyrir Atlantshafsverslunina með þræla. Næringarríkur eldfjallajarðvegur og nálægð við miðbaug gerðu eyjarnar hentugar fyrir ræktun sykurreyrs, kaffis og kakós. Plantekruræktunin reiddi sig að stórum hluta á þræla frá Afríku. Á 19. og 20. öld gengu eyjarnar gegnum regluleg óróa- og óstöðugleikatímabil en fengu sjálfstæði með friðsömum hætti árið 1975. Síðan þá hafa eyjarnar verið með stöðugustu og lýðræðislegustu löndum álfunnar. Saó Tóme og Prinsípe er þróunarland við miðbik vísitölu um þróun lífsgæða.
Íbúar Saó Tóme og Prinsípe eru að mestu af afrískum og blönduðum evrópskum og afrískum uppruna og flestir eru kaþólskir. Arfur frá nýlendutímanum sést í portúgölskum áhrifum á menningu, siði og tónlist, þar sem afrísk og evrópsk áhrif blandast saman. Saó Tóme og Prinsípe var stofnaðili að Samtökum portúgölskumælandi landa.
Heiti
breytaEyjarnar voru óbyggðar þegar portúgalskir sæfarar komu þangað fyrst árið 1471. Saó Tóme sást fyrst 21. desember (á Tómasarmessu) og Prinsípe þann 17. janúar (á Antonsmessu). Eyjarnar voru því nefndar eftir dýrlingunum Tómasi postula og Antoni mikla, São Tomé og Santo Antão. Fjórum árum síðar ákvað Jóhann 2. Portúgalskonungur að nefna eyjuna Santo Antão Ilha do Príncipe eftir prinsinum Afonso prins af Portúgal, sem fæddist árið 1475 og var gerður að krónprins árið eftir.[2]
Saga
breytaEyjarnar voru óbyggðar þegar Portúgalar komu þangað á 15. öld. Þeir fluttu þræla þangað frá mið-Afríku eða þar sem Angóla og Kongó eru í dag. Þrælarnir unnu á sykurplantekrum sem síðar urðu kakó- og kaffiplantekrur. Þrælaviðskipti voru milli Saó Tóme og Prinsípe og Suður-Ameríku (Brasilíu) og Karíbaeyja.
Landið fékk sjálfstæði frá Portúgal 12. júlí 1975 og 12. júlí er þjóðhátíðardagur landsins.
Landfræði
breytaEyjarnar tvær sem mynda landið Saó Tóme og Prinsípe mynduðust fyrir 30 milljón árum, á ólígósen, vegna eldvirkni á miklu dýpi meðfram Kamerúnhryggnum. Eldfjallajarðvegur[3][4] úr basalti og fónólíti, sem hóf að myndast fyrir 3 milljón árum, hefur verið undirstaða plantekruræktunar á eyjunum frá nýlendutímanum.
Eyjarnar eru í Atlantshafi við miðbaug í Gíneuflóa, um 300 og 250 km undan norðvesturströnd Gabon, og eru minnsta land Afríku.[5][6] Báðar eyjarnar liggja á Kamerúnhryggnum, ásamt Annobón-eyjum og Bioko sem tilheyra Miðbaugs-Gíneu, og Kamerúnfjalli við strönd Gíneuflóa.
Saó Tóme er 50 km löng og 30 km breið og fjalllendust eyjanna tveggja. Hæstu tindar eyjunnar ná 2024 metra hæð (Pico de São Tomé). Prinsípe er um 30 km löng og 6 km breið. Hæstu tindar hennar ná 948 metrum (Pico de Príncipe). Ár og lækir renna niður fjallshlíðarnar, gegnum þéttan skóg og ræktarland, út í sjó á báðum eyjum. Miðbaugslínan liggur rétt sunnan við Saó Tóme, þvert yfir smáeyjuna Ilhéu das Rolas.
Pico Cão Grande („stóri hundatindur“) er áberandi gígtappi á suðurenda Saó Tóme. Hann rís í 300 metra hæð yfir umhverfinu og tindurinn er 663 metrum yfir sjávarmáli.
Stjórnmál
breytaSaó Tóme og Prinsípe býr við forsetaþingræði. Forseti landsins er kjörinn til fimm ára í almennum leynilegum kosningum, og þarf meirihluta atkvæða til að ná kjöri. Forseti getur setið í tvö samliggjandi kjörtímabil. Forsætisráðherrann er skipaður af forseta, og 14 ráðherrar eru skipaðir af forsætisráðherra.
Þing Saó Tóme og Prinsípe fer með löggjafarvaldið og situr í einni deild. Á þinginu sitja 55 þingmenn sem eru kosnir til fjögurra ára í senn. Landið hefur búið við fjölflokkakerfi frá 1990. Tjáningarfrelsi og frelsi til að stofna stjórnarandstöðuflokka eru tryggð í stjórnarskránni. Hæstiréttur Saó Tóme og Prinsípe er æðsti dómstóll landsins. Dómsvaldið er sjálfstætt samkvæmt núverandi stjórnarskrá.
Samkvæmt Ibrahim-vísitölunni yfir stjórnhætti í Afríku situr Saó Tóme og Prinsípe í 11. sæti.[7] Landið er talið frjálst land þar sem tjáningarfrelsi, stjórnmálafrelsi og viðskiptafrelsi eru tryggð. Spilling er í meðallagi og hefur minnkað síðustu ár.[8] Áhætta fyrir ferðamenn er talin lítil, eða svipuð og í Frakklandi.[9]
Efnahagur
breytaSíðan á 19. öld hefur efnahagur Sao Tomé og Principe verið byggður á plantekrubúskap. Þegar landið fékk sjálfstæði frá Portúgal var 90% af plantekrunum í eigu Portúgala. Síðan þá hefur ríkið verið aðaleigandinn. Aðalafurðin er kakó sem stendur undir 95% af öllum útflutningi. Aðrar útflutningsafurðir eru pálmaolía og kaffi.
Íbúar
breytaÍbúar Saó Tóme og Prinsípe voru rétt rúmlega 200 þúsund árið 2018 samkvæmt áætlun tölfræðistofnunar eyjanna. Um 193.380 bjuggu á Saó Tóme og 8.420 á Prinsípe. Íbúum fjölgar um 4000 á ári.
Nær allir eyjarskeggjar eru afkomendur fólks sem Portúgalar fluttu þangað frá ýmsum svæðum undir stjórn þeirra allt frá 1470, aðallega frá Kongó, en líka frá Mósambík og Grænhöfðaeyjum sem dæmi. Á 8. áratugnum fluttu flestir íbúar af portúgölskum uppruna frá eyjunum, en nokkur hundruð flóttamenn frá Angóla fluttu þangað í staðinn.
Langflestir íbúar tala portúgölsku og meirihluti er í rómversk-kaþólsku kirkjunni. Um þriðjungur íbúa talar auk þess kreólamálið forro sem byggist á bantúmálum og kwa-málum en hefur mikið af orðaforða sínum úr portúgölsku.
Tilvísanir
breyta- ↑ Instituto Nacional de Estadística de São Tomé e Príncipe, as at 13 May 2018.
- ↑ Albertino Francisco; Nujoma Agostinho (2011). Exorcising Devils from the Throne: São Tomé and Príncipe in the Chaos of Democratization. bls. 24.
- ↑ Becker, Kathleen (26. júní 2014). São Tomé and Príncipe (enska). Bradt Travel Guides. ISBN 978-1-84162-486-0.
- ↑ Becker, Kathleen (2008). São Tomé & Príncipe (enska). Bradt Travel Guides. ISBN 978-1-84162-216-3.
- ↑ Bradley, Archie (30. janúar 2017). São Tomé and Príncipe Political Governance and Economy (enska). Lulu Press, Inc. ISBN 978-1-365-72042-0. Afrit af upprunalegu geymt þann 19. apríl 2023. Sótt 8. maí 2023.
- ↑ Warne, Sophie (2003). Gabon, São Tomé and Príncipe (enska). Bradt Travel Guides. ISBN 978-1-84162-073-2.
- ↑ 2010 Ibrahim Index of African Governance (PDF), afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 19. október 2011, sótt 4. mars 2012
- ↑ „Sao Tome and Principe“. Transparency.org (enska). Sótt 17. júní 2020.
- ↑ „Travel Risk Map — International SOS“. www.travelriskmap.com. Sótt 17. júní 2020.