SFR - stéttarfélag í almannaþjónustu

(Endurbeint frá SFR)

SFR - stéttarfélag í almannaþjónustu var stéttarfélag sem nær yfir allt Ísland. Yfirlýst hlutverk þess er að vaka yfir velferð félagsmanna og stuðla að auknum lífsgæðum þeirra. Helstu verkefni félagsins eru á sviði kjara- og réttindamála, auk orlofs- og fræðslumála. SFR var stofnað 17. nóvember 1939 og var fullt nafn þess Starfsmannafélag ríkisstofnana til ársins 2004. Félagar voru síðast um 7000 og var félagið fjölmennasta aðildarfélag Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Árni Stefán Jónsson var formaður félagsins og Védís Guðjónsdóttir var varaformaður. Skrifstofa SFR var til húsa á Grettisgötu 89. Árið 2019 sameinaðist SFR Starfsmannafélagi Reykjavíkur og úr varð Sameyki.

SFR - stéttarfélag í almannaþjónustu
Einkennismerki félagsins
Félagssvæði: Ísland
Fjöldi félaga: Um 7000
Formaður: Árni Stefán Jónsson
Varaformaður: Bryndís Theodórsdóttir
Ritari:
Gjaldkeri: (stjórn samábyrg)
Framkvæmdastjóri: Þórarinn Eyfjörð
Aðrir stjórnarmenn:
 • Bryndís Theódórsdóttir
 • Hildur Kristín Ásmundsdóttir
 • Jóhanna Sóley Gunnarsdóttir
 • Jóhanna Vilhjálmsdóttir
 • Olga Gunnarsdóttir
 • Ólafur Hallgrímsson
 • Óskar Þór Vilhjálmsson
 • Salóme Berglind Guðmundsdóttir
 • Sigurður H. Helgason
Vefslóð: http://www.sameyki.is

SkipulagBreyta

Skipulagslega var aðild tvenns konar, og skiptist félagið að því leyti í tvo hluta, almennan og opinberan.

Í opinberum hluta félagsins eru starfsmenn ríkisins:

 • Einstakir starfsmenn sem ekki eru í öðru stéttarfélagi;
 • Stéttarfélög starfsmanna sem eiga aðild að félaginu, og þá teljast allir félagar þeirra tilheyra SFR;
 • Einstakir starfsmenn sjálfseignarstofnana sem starfa í þágu almennings samkvæmt lögum.

Í almennum hluta félagsins var starfsfólk fyrirtækja, sem áður voru ríkisstofnanir eða sjálfseignarstofnanir sem störfuðu í þágu almennings samkvæmt lögum.

AðalfundurBreyta

Aðalfundur var haldinn árlega, fyrir lok marsmánaðar, og kýs stjórnir orlofssjóðs, vinnudeilusjóðs, starfsmenntunarsjóðs og styrktar- og sjúkrasjóðs. Formaður félagsins og stjórn er kosinn til tveggja ára og ekki á aðalfundi heldur í allsherjaratkvæðagreiðslu.

TrúnaðarmennBreyta

Á hverjum vinnustað þar sem fimm eða fleiri félagar í SFR starfa, kusu þeir sér trúnaðarmann. SFR hafði um 250 trúnaðarmenn á sínum vegum. Trúnaðarmaður er fulltrúi stéttarfélagsins á vinnustaðnum. Það er í hans verkahring að gæta þess að kjarasamningar séu haldnir og að réttur starfsmanna sé virtur. Ef upp koma deilur um eitthvað sem snertir kjarasamninga, þá geta starfsmenn eða vinnuveitendur óskað eftir því að trúnaðarmaður aðstoði við lausn málsins. Trúnaðarmannakerfi félagsins hefur verið burðarás í starfsemi þess frá upphafi. Skipuleg trúnaðarmannafræðsla hófst á vegum SFR 1971. Árið 1998 tóku SFR og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar upp samstarf um menntun trúnaðarmanna. Auk þess sækja trúnaðarmenn námskeið á vegum BSRB og Félagsmálaskóla alþýðu um sitthvað sem þykir skipta máli að trúnaðarmenn hafi á valdi sínu.

TrúnaðarmannaráðBreyta

 
Frá fundi launamálaráðs SFR sumarið 2004.

Allir trúnaðarmenn félagsins, auk stjórnar, mynda saman trúnaðarmannaráð. Það styður stjórn félagsins og leysir úr málum sem ekki þarf að leggja fyrir félagsfund. Trúnaðarmannaráð kemur mánaðarlega saman yfir vetrarmánuðina. Trúnaðarmannaráð kýs 15 menn í félagsráð, sem auk þeirra er skipað stjórn félagsins og formönnum fagfélaga. Auk þess kýs trúnaðarmannaráð samninganefndir fyrir gerð kjarasamninga.

SagaBreyta

Í kreppunni og síðari heimsstyrjöldinni var stéttabaráttan hörð og mörg stéttarfélög voru stofnuð á þeim árum. Vorið 1939 var gengi krónunnar fellt og kjör almennings urðu krappari. Um haustið hófst stríðið, og því fylgdi mikill skortur á öllum innfluttum vörum. Stór hópur ríkisstarfsmanna afréð að þeim væri best að stofna með sér samtök til að gæta hagsmuna sinna.

StofnunBreyta

Stofnfundur SFR var í Alþýðuhúsinu þann 17. nóvember 1939 og voru stofnfélagar 142 talsins. Allt frá stofnun skilgreindi félagið starfssvæði sitt sem landið allt. Þó voru flestir félagarnir karlar á höfuðborgarsvæðinu, sem einkum unnu skrifstofustörf á rúmlega 20 ríkisstofnunum. Guðjón B. Baldvinsson, starfsmaður Tryggingastofnunar ríkisins, var kjörinn fyrsti formaður félagsins og gegndi því starfi til 1959. Þann 14. febrúar 1942 var SFR eitt af stofnfélögum BSRB.

Árið 1943 var Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins stofnaður. Þótti það mikill sigur fyrir ríkisstarfsmenn, en þetta var um aldarfjórðungi áður en almennir lífeyrissjóðir komu til sögunnar. Annar mikilsverður sigur var þegar Lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna voru sett árið 1954.

Ör vöxtur á 7. áratugnumBreyta

Fram yfir 1960 bjuggu langflestir félaganna í Reykjavík og nágrenni og voru langflestir karlkyns. Félagið var fámennt, en er fram á sjöunda áratuginn kom óx það hratt, og 1965 varð það fjölmennasta aðildarfélag BSRB. Um svipað leyti hækkaði hlutfall kvenna í því. Það sem mest munaði um var mikill vöxtur samfélagsþjónustu á vegum hins opinbera á þessum árum, og að ríkið viðurkenndi, árið 1962, að félög ríkisstarfsmanna hefðu samningsrétt eins og önnur samtök vinnandi fólks, en fram að því höfðu kjör ríkisstarfsmanna verið ákveðin með lögum.

Ríkisstarfsmönnum fjölgaði ört á þessum árum, og þar með félögum í BSRB. Félögum í SFR fjölgaði úr um 650 árið 1960 í um 1100 árið 1966, og voru orðnir um 1450 árið 1969. Sem fyrr bjuggu langflestir félagsmanna á höfuðborgarsvæðinu. BSRB hélt sitt fyrsta trúnaðarmannanámskeið 1967, í Borgarnesi.

Frekari vöxturBreyta

Árið 1973 voru sett ný lög um kjarasamninga, sem bættu stöðu stéttarfélaganna til muna. Einnig varð sú breyting á, að allir sem fengu borguð laun samkvæmt kjarasamningum stéttarfélaganna urðu skyldugir til þess að greiða þeim félagsgjöld. Þar með kusu margir að ganga í þau, sem ekki höfðu verið fullgildir félagar áður, og jókst þá fjöldinn enn. Árið 1972 voru félagar orðnir um 1700, en 1976 hafði þeim fjölgað í um 3200. Konur voru yfirgnæfandi meirihluti hinna nýju félaga, og komust í meirihluta innan félagsins.

Árið 1976 fékk BSRB verkfallsrétt um gerð aðalkjarasamnings og stofnaði vinnudeilusjóð 1979. Í ársbyrjun 1987 gengu svo lög í gildi, sem veittu aðildarfélögunum verkfallsrétt og samningsrétt, og þann 4. apríl sama ár gerði SFR sinn fyrsta heildarkjarasamning. 1992 var vinnudeilusjóður SFR svo stofnaður.

KynjahlutföllBreyta

Á 8. og 9. áratugnum fjölgaði ríkisstarfsmönnum ört. Fjölgunin varð mikil í störfum þar sem konur voru margar, ekki síst í heilbrigðiskerfinu. Frá 1965 til 1990 fjölgaði ríkisstarfsmönnum úr um 11% í um 20% af vinnandi fólki í landinu, og á sama tíma jókst atvinnuþátttaka kvenna úr nálægt 20% og hátt upp undir 70%. Þetta tvennt hafði í för með sér mikla fjölgun kvenna í SFR. Þær voru um fjórðungur félaga árið 1959 en hlutfallið var komið upp í 70% árið 1989.

KjarasamningarBreyta

SFR gerði kjarasamninga fyrir félagsmenn sína við fjármálaráðherra (fyrir hönd ríkissjóðs), Reykjavíkurborg, sjálfseignarstofnanir og fleiri. Kjarasamningar SFR eru tvíþættir:

 • Miðlægir kjarasamningar, sem fjalla um rétt til orlofs, hækkanir á launatöflu, útreikninga á yfirvinnukaupi, matar- og kaffitíma og fleira.
 • Stofnanasamningar, sem fjalla um grunnröðun starfa og viðbótarforsendur á borð við starfsreynslu, símenntun og fleira.

Þess var áður getið, að trúnaðarmenn fylgjast með því að kjarasamningar séu haldnir á vinnustöðum. Fyrir utan dagleg störf þeirra, starfa samstarfsnefndir SFR og vinnustaða, skipaðar allt að þrem fulltrúum frá hvorum tveggju, að öllu jöfnu með viðkomandi trúnaðarmanni þar á meðal. Nefndir þessar fást meðal annars við forsendur starfaflokkunar, röðun einstakra starfa í launaflokka, og koma á sáttum í ágreiningsmálum sem tengjast samningnunum.

Önnur þjónusta félagsins við félagsmennBreyta

 
Orlofshús SFR í Vaðnesi.

OrlofshúsBreyta

Fyrsta orlofshús SFR var tekið í notkun í Munaðarnesi árið 1971. Félagið á nú um 40 orlofshús víðsvegar um landið, sem félagsmönnum standa til boða: Í Munaðarnesi, Stóruskógum og Húsafelli í Borgarfirði, í Vaðnesi í Grímsnesi, Eiðum á Héraði, Arnarstapa og í Kjarnabyggð. Auk þess á félagið íbúðir í Reykjavík og á Akureyri.

Fræðslu- og útgáfumálBreyta

SFR bauð félagsmönnum upp á ýmis tómstundanámskeið á áttunda áratugnum. Áherslan hefur heldur færst til, og er nú að miklu leyti á símenntun félagsmanna, gagnkvæmt hagsmunamál launafólks og atvinnurekenda. Starfsmenntunarsjóður BSRB tók til starfa 1982 og SFR stofnaði sinn eigin starfsmenntunarsjóð árið 1994. Félagsmenn geta sótt um styrki í báða þessa sjóði á sínum eigin forsendum. Auk þess var Þróunar- og símenntunarsjóður stofnaður 1997, og hann styrkir námskeiðahald á vegum vinnustaða og SFR. Árið 2001 var Vefskóli SFR stofnaður, og einnig fræðslusetrið Starfsmennt.

SFR hélt úti vefsíðu Geymt 2007-01-24 í Wayback Machine og gefur út Blað stéttarfélaganna í samstarfi við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar.

FagfélögBreyta

Innan SFR störfuðu nokkur fagfélög. Það eru: Fangavarðafélag Íslands, Félag áfengisráðgjafa, Félag íslenskra félagsliða, Félag íslenskra læknaritara, Félag heilbrigðisritara og Félag ráðgjafa og stuðningsfulltrúa.

LífeyrismálBreyta

SFR á aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, sem aðili að BSRB.

Innan félagsins starfaði deild lífeyrisþega, sem stofnuð var árið 1976. Meðlimir hennar voru um það bil einn sjöundi félagsmanna, eða um 800 (árið 2004). Formaður lífeyrisþegadeildar er Kristrún B. Jónsdóttir, og með henni sitja í stjórn þau Bjarndís R. Júlíusdóttir ritari, Emil L. Guðmundsson, Guðrún María Hjálmsdóttir, Haukur Ársælsson, Jan Agnar Ingimarsson og María B. Gunnarsdóttir.

Styrktar- og sjúkrasjóðurBreyta

SFR rak styrktar- og sjúkrasjóð síðan 1999. Atvinnurekendur greiddu fast framlag í hann síðan árið 2000. Úr honum gátu félagsmenn fengið úthlutað styrkjum ef þeir verða fyrir heilsutjóni.

Tengt efniBreyta

Heimildir og ítarefniBreyta