Söngleikur er tegund tónlistarleikhúss sem blandar saman tónlist, söng, leik og dansi. Sagan er sögð í gegnum orðin, tónlistina og hreyfingarnar, sem og tilfinningar.[1] Hægt er að tengja söngleiki við óperu en aðalmunurinn er að í söngleikjum er jafn mikil áhersla lögð á dans, söng og talað mál. Samtölin á milli laga eru oftast töluð en í óperum er allt verkið sungið. Í sumum söngleikjum eru þó öll samtölin sungin, til dæmis í Vesalingunum.[2] Þeir sem standa að baki uppsetningu söngleiks eru leikstjóri, tónlistarstjóri, danshöfundur og hljómsveitarstjóri ef það á við. Flestir söngleikir styðjast við söngbók með texta laganna sem sungin eru.

Mynd frá uppsetningu á Oklahóma! frá 2015.

Vestrænir söngleikir komu fram á sjónarsviðið á 19 öld og hin svokallaða „gullöld söngleikjanna“ byrjaði 1940. Meðal þekktustu söngleikja sögunnar eru Leikhússkipið (1927), Oklahóma! (1943), Saga úr vesturbænum (1957), The Fantasticks (1960), Hárið (1967), Vesalingarnir (1985), Óperudraugurinn (1986) og Skuld (1994).

Margir frægir söngleikir hafa orðið að vinsælum kvikmyndum, en dans- og söngvamyndir eru oft byggðar á söngleikjum. Eins eru til dæmi um hið gagnstæða, þar sem söngleikurinn byggist á kvikmyndinni, eins og nýlegir söngleikir byggðir á teiknimyndum frá Disney.

Skilgreiningar

breyta

Bókarsöngleikir

breyta

Bókarsöngleikir eru söngleikir með söguþræði sem komu fram á 20 öld. Þar er söngbók (libretto) handritið sem skilgreinir söguþráð, þróun persónanna, talað mál og sviðsleiðbeiningar. Söngbókin tryggir að söngleikurinn sé ekki samsafn af söngatriðum sem passa ekkert saman.[3]

Aðalmunurinn á þessum söngleikjum og söngleikjum sem á undan komu er að í bókarsöngleikjum eru lögin og dansatriðin fléttuð inn í söguþráðinn til þess að vekja alls kyns tilfinningar hjá áhorfendum og til að styðja við framvindu sögunnar. Áður höfðu dans- og söngatriði oft aðeins þann tilgang að láta fáklæddar stúlkur með fjaðrir valsa um sviðið, áhorfendum til ánægju. Á fyrri árum voru söngleikir settir upp til þess að sýna tónlistina eða frægan söngvara og leikurinn bara stutt atriði sem áttu að tengja úr einu lagi í annað.

Gullöldin 1940 til 1969

breyta
 
Rodgers og Hammerstein.

Söngleikjadúóið Rodgers og Hammerstein markaði upphaf gullaldar söngleikja á fimmta og sjötta áratugnum með mörgum vinsælum söngleikjum. Richard Rodgers samdi tónlistina og Oscar Hammerstein II textana, söguna og sviðsleiðbeiningarnar. Hann var það sem kallað var söngbókarhöfundur. Oklahóma! var fyrsti söngleikurinn sem þeir skrifuðu saman og markaði upphaf sautján ára samstarfs þeirra.[4] Söngleikurinn er byggður á leikritinu Green Grow the Lilacs eftir Lynn Riggs. Söngleikurinn segir ástarsögu kúrekans Curly McLain og bóndastúlkunnar Laurey Williams. Oklahóma! er gott dæmi um svokallaðan bókarsöngleik, sem voru komnir fram á þessum tíma, þar sem var góður söguþráður og lög og dansar sem ýttu honum áfram.[5] Rodgers og Hammerstein unnu með Agnes de Mille, danshöfundi, sem fór allt aðrar leiðir með dansinn heldur en hafði áður verið gert og notaði oft frekar hversdagslega atburði til að láta persónur tjá sig. Í byrjun söngleiksins eru tjöldin til dæmis dregin frá og á sviðinu stendur kona að strokka, en utan sviðs heyrist rödd syngja byrjunina á upphafslaginu „Oh, What a Beautiful Mornin'“. Söngleikurinn Oklahóma! varð mjög vinsæll og var fluttur 2.212 sinnum á Broadway. Hann fékk mjög góða dóma. Til dæmis skrifaði Brooks Atkinson í The New York Times að upphafslagið hefði breytt söngleikjum til framtíðar. Rodgers og Hammerstein urðu innblástur fyrir yngri rithöfunda sem höfðu áhuga á að skrifa söngleiki. Fleiri söngleikir sem þeir skrifuðu saman eftir Oklahóma! voru South Pacific (1949), Kóngurinn og ég (1951) og Söngvaseiður (1959).

Árið 1956 skrifuðu Alan Jay Lerner, textahöfundur, og Frederick Loewe, tónlistarhöfundur, hinn fræga söngleik My Fair Lady sem var byggður á skáldsögu eftir George Bernard Shaw. Ung og efnileg leikkona, Julie Andrews, lék aðalhlutverkið en hún hafði fyrst komið fram á sviðinu aðeins tveimur árum fyrr, í The Boy Friend árið 1954 sem var flutt í London. Á þessum árum var heimsmetið í fjölda sýninga oft slegið. The Boy Friend hélt því í mörg ár með 2.078 sýningar, en My Fair Lady sló það með 2.717 sýningar. Söngleikurinn Túskildingsóperan kom nálægt því að slá það, með 2.707 sýningar, en hann sló annað met og varð sá söngleikur sem var sýndur lengst í leikhúsi utan Broadway, þangað til að The Fantasticks sló það árið 1960.

Saga úr vesturbænum, sem kom út 1957, er nútíma útgáfa af leikritinu Rómeó og Júlíu þar sem sagan gerist í New York og í stað fjölskyldnanna Montague og Capulet eru götugengin Jets og Sharks. Jets er gengi ungra pólsk-ameríska unglinga en Sharks unglinga frá Púertó Ríkó. Tony, einn af Jets, er byggður á Rómeó sem verður ástfanginn af Maríu, sem er systir leiðtoga Sharks og er byggð á Júlíu. Leonard Bernstein gerði tónlistina og nýliðinn Stephen Sondheim gerði textana. Sýningin var sýnd 732 sinnum á Broadway en 1.040 sinnum á West End.[6]

Síðasti frægi söngleikur 6. áratugarins var Söngvaseiður eftir Rodgers og Hammerstein. Hann er orðinn einn frægasti söngleikur sögunnar, en hann var sýndur 1.443 sinnum á Broadway þegar hann var settur upp fyrst. Söngleikurinn hefur verið sett upp margoft eftir það. Til dæmis var gerð fræg mynd með Julie Andrews og Christopher Plummer í aðalhlutverkum árið 1965. Söngvaseiður var síðasti söngleikur Rodgers og Hammerstein því níu mánuðum eftir frumsýninguna dó Oscar Hammerstein úr krabbameini. Sagan gerist árið 1938 í Austurríki og er um Von Trapp-fjölskylduna og Mariu sem fær vinnu sem kennslukona fyrir börnin sjö.

Árið 1960 kom söngleikurinn The Fantasticks út, með tónlist eftir Harvey Schmidt og texta eftir Tom Jones. Sagan er allegoría og lauslega byggð á gamanleiknum Les Romanesques eftir Edmond Rostand. The Fantasticks var sett upp á Sullivan Street Theatre í Greenwich Village og var í sýningu þar í yfir 40 ár. The Fantasticks er sá söngleikur sem hefur verið lengst í sýningu. Schmidt og Jones héldu svo áfram að gefa út söngleiki á sjöunda áratugnum, til dæmis I Do! I Do!, sem er fyrsti Broadway-söngleikurinn með aðeins tveimur persónum.

Meðal vinsælla söngleikja frá 7. áratugnum voru þrír sem komu allir út árið 1964. Fyrstur þeirra var Fiðlarinn á þakinu sem var sýndur 3.242 sinnum; annar söngleikurinn var Hello, Dolly! sem var sýndur 2.844 sinnum og sá þriðji var Funny Girl sem var sýndur 1.348 sinnum. Tónlistarhöfundur Hello, Dolly!, Jerry Herman, hafði mikil áhrif á söngleiki sjöunda áratugarins sem og textahöfundur Sögu úr vesturbænum, Stephen Sondheim.[7]

Fyrsti söngleikur Jerry Herman kom út árið 1961 og heitir Mjólk og hunang. Hann var sýndur 563 sinnum á Broadway. Söngleikurinn fjallar um stofnun Ísraelsríkis. Sondheim byrjaði að semja bæði tónlist og textana í söngleikjum, en sá fyrsti, A Funny Thing Happened on the Way to the Forum, kom út árið 1964. Andrúmsloftið í söngleikjum Sondheims fór svo að breytast og hann fór að fjalla um þyngra efni.

Konseptsöngleikir og rokkóperur

breyta
 
Uppsetning á Hárinu í París árið 1971.

Við lok 7. áratugarinns kom söngleikurinn Hárið. Höfundarnir, James Rado og Gerome Ragni, sáu fyrir sér að tónlistin yrði einhvers konar blanda af hefðbundinni söngleikjatónlist og rokktónlist. Hárið telst vera fyrsta dæmið um það sem hefur verið kallað konseptsöngleikur, þar sem söguþráðurinn skiptir minna máli en stemningin sem reynt er að skapa Á 8. áratugnum komu margir söngleikir sem notuðust við rokktónlist. Fólk trúði því að rokkið væri eini möguleiki söngleikjanna til að halda vinsældum af því það var vinsælasta tónlistartegund tímabilsins. Nokkrir frægir rokksöngleikir komu fram á tímabilinu svo sem Súperstar og Grease.[8] Súperstar var sýning sem var talsvert ólík fyrstu rokksöngleikjunum og er í raun fyrsta dæmið um nýja undirtegund: rokkóperuna. Munurinn á rokksöngleik og rokkóperu er í meginatriðum sá að rokksöngleikurinn fylgir hefðbundnu formi söngleiksins þar sem sum samtölin eru töluð/leikin en sum eru sungin við lög; en í rokkóperu er allur textinn sunginn. Önnur nýjung sem höfundar Súperstar komu með var að gefa tónlistina út á plötu áður en söngleikurinn var frumsýndur. Hann var líka gerður að kvikmynd aðeins tveimur árum eftir frumsýningu. Önnur vinsæl rokkópera var svo gerð eftir konseptplötunni Tommy með hljómsveitinni The Who. Rokkóperan kom fyrst út sem kvikmynd en var svo sett á svið árið 1992.

Á 8. áratugnum voru settir upp söngleikir sem voru eingöngu með þeldökkum leikurum og byggðu þá á tónlist sem vinsæl meðal svartra. Til dæmis má nefna Dreamgirls sem fjallar um upplifun ungra stúlkna í stúlknasveit sem flytja meðal annars R&B tónlist og er hún því í forgrunni í sýningunni. Rokksöngleikirinr fengust við ýmsa menningarkima sem ekki höfðu áður sést í söngleikjum. Sem dæmi má nefna að Hárið fjallar um líf nokkura hippa í New York, og fjallaði þess vegna líka um ýmislegt sem var ekki var samþykkt af samfélaginu, svo sem frjálsar ástir. Á sama tíma deildi söngleikurinn mikið á Víetnamstríðið. Súperstar fjallaði um síðust vikuna í lífi Jesú Krists og samband hans við lærisveina sína og sérstaklega Júdas. Dreamgirls fjallaði um drauma og þrár ungra kvenna á tímum réttindabaráttu blökkumanna í Bandaríkjunum. Hér má líka minnast á The Rocky Horror Show, rokksöngleik sem vísaði til vísindaskáldskapar og B-mynda áranna á undan, en hafði engan sérstakan boðskap eins og þeir fyrrnefndu.

Á 8. áratugnum urðu svokallaðir konseptsöngleikir mjög vinsælir með tónskáldinu/textahöfundinum Stephen Sondheim. Ásamt samstarfsmanni sínum Harold Prince, sem var leikstjóri og framleiðandi, bjó hann í raun til þá tegund söngleikja. Sondheim var aldrei ánægður með hugtakið „konseptsöngleikur“, þótt það nafn lýsi ágætlega söngleik sem gengur út á að sýna einhverja hugmynd útfrá nokkrum sjónarhornum. Dæmi um hugmyndir sem þessi tegund söngleikja hefur fjallað um eru líf einhleypra á móti lífi giftra eða söguleg menningarátök. Tónlistinni sem Sondheim samdi fyirr konseptsöngleikinn Company hefur verið lýst sem hreinni Brodway-tónlist með samtímaáhrifum. Sondheim var virkur í tónsmíðum út næstu tvo áratugi. en þekktasti söngleikurinn hans frá þessum tíma er líklega Sweeney Todd sem fjallar um mann sem dæmdur er fyrir glæp sem hann framdi ekki og hvernig þörf hanns fyrir hefnd eyðileggur líf hans. Í Sweeney Todd var tónlistin það stór hluti söngleiksins að fólk hefur talað um sýninguna sem nútímaóperu fremur en söngleik.

Skopstælingar og ofursöngleikir

breyta
 
Frá uppsetningu á Vesalingunum árið 2013.

Á meðan Sondheim skoðaði myrkustu kima manns sálarinnar í Sweeney Todd, héldu Andrew Lloyd Webber og Tim Rice áfram sínu striki frá Súperstar og gerðu tónlist fyrir söngleikinn Evitu, sem fjallar um Evu Perón. Persónur sögunnar eru ekki flóknar og því er hægt að segja að flott umgjörð hafi skipt áhorfendur meira máli en innihaldið. Evita markaði upphaf svokallaðra ofursöngleikja.

Nýir söngleikir sem komu fram á 9. áratugnum voru allt frá því að vera góðlátlegar skopstælingar yfir í tilkomumikil sjónarspil. Dæmi um skopstælingu sem átti velgengni að fagna er Litla hryllingsbúðin sem var samin af tónskáldinu Alan Menken og textasmiðnum Howard Ashman. Söngleikurinn byggðist á mynd frá 1960 sem fjallaði um mannætuplöntu úr geimnum. Einn stærsti söngleikur áratugarinns var Cats. Cats er með tónlist eftir Andrew Lloyd Webber við ljóð T.S. Eliot úr bókinni Old Possum's Book of Practical Cats. Það sem var sérstakt við Cats var markaðsetningin: Aldrei hafði neinn söngleikur tengt nafn sitt við jafn mikið af vörum.[9]

Óperudraugurinn er annar söngleikur með tónlist eftir Andrew Lloyd Webber og texta eftir Charles Hart með hjálp frá Richard Stilgoe, sem einnig skrifaði söngbókina með Webber. Söngleikurinn byggist á frönsku skáldsögunni Le fantôme de l'opéra eftir Gaston Leroux. Hann var sýndur á West End árið 1986 og Broadway 1988 og báðar uppsetningarnar voru vinsælar. Sagan fjallar um hina fallegu Christine Daaé, sópransöngkonu, sem er ofsótt af dularfullum, afmynduðum tónlistarsnillingi.

Ofursöngleikirnir sem höfðu hafist með Evitu héldu áfram á 9. áratungum með innrás breskra söngleikja á Brodway. Þessir söngleikir byggðu oft á popptöktum og miklum tæknibrellum. Segja má að sjónarspilið hafi orðið mikilvægara en innihaldið og djúpt var orðið á húmornum. Evrópsku ofursöngleikirnir voru margir hverjir poppaðar útgáfur af gamaldags óperettum. Einn franskur söngleikur skar sig þó úr röðum ofursöngleikjanna vegna þess hversu góð sagan var.

Vesalingarnir er söngleikur þar sem allur textinn er sunginn. Hann byggist á sögu eftir franska skáldið og rithöfundinn Victor Hugo. Tónlistin er eftir Claude-Michel Schönberg og upprunalegu textarnir á frönsku eru eftir Alain Boublil og Jean-Marc Natel. Söngleikurinn var upprunalega settur upp á frönsku, en Herbert Kretzmer þýddi allt á ensku og hann var sýndur fyrst í Barbican Centre í London 8. október 1985. Vesalingarnir hafa verið settir upp margoft út um allan heim og eru einn vinsælasti söngleikur allra tíma. Hann hefur unnið Tony-verðlaunin fyrir besta söngleik, bestu söngbók og bestu tónlistina. Árið 2006 fagnaði söngleikurinn tuttugu og fimm ára afmæli sínu og er sá West End-söngleikur sem hefur verið sýndur lengst, en hann hefur einnig verið sýndur á Broadway sem og út um allan heim.

10. áratugurinn

breyta
 
Frá uppsetningu á Skuld árið 2015.

Á 10. áratugnum gekk rokksöngleikurinn í endurnýjun lífdaga með frumsýningu Skuldar. Skuld fjallar um hóp af ungum listamönnum sem reyna að lifa á list sinni án þess að svíkja hugsjónir sínar, ásamt því að lifa í skugga AIDS-faraldursins sem gekk yfir heiminn við lok 9. og upphaf 10. áratugarinns. Heróín leikur líka stórt hlutverk í lífi nokkurra persóna. Að vissu leyti eru fyrsti rokksöngleikurinn og sá nýjasti (þegar Skuld var frumsýndur) andstæður. Hárið sýnir frjálsar ástir og eiturlyfjaneyslu sem skemmtilega, hugvíkkandi og góða hluti en í Skuld er dópið, kynlífið og lífið allt orðið lífshættulegt. Jonathan Larson var höfundur handrits, texta og laga, en sagan byggist að hluta á óperunni La bohème. Flestar persónurnar eiga rætur að rekja til þess verks; sumarr eru beint upp úr óperunni, en aðrar eru samsettar úr fleiri en einni persónu. Eitt af því sem gerir Skuld svo heillandi eru fjölbreytileikinn sem einkennir persónur og leikendur. Persónurnar eru gagnkynhneigðar, samkynhneigðar og ein persónan er dragdrottning. Leikhópurinn samanstóð af fólki af ólíkum kynþáttum. Skuld gekk í gegnum langt og strangt ferli skrifa og endurskrifa áður en hann var settur upp, fyrst utan Brodway, og varð svo mjög vinsæll á Brodway. Ekki er einu sinni víst að söngleikurinn væri með þeim hætti sem við þekkjum í dag vegna þess að Larson féll frá kvöldið sem generalprufan var haldin. Skuld eignaðist stóran aðdáendahóp og stór hluti hans voru nemar sem stóðu í löngum biðröðum til að reyna að ná þeim fáu ódýru miðum sem í boði voru á sýningarnar.

Margar frægustu dans- og söngvamyndir Walt Disney Corporation komu út á 10. áratugnum; til dæmis Litla hafmeyjan, Konungur ljónanna, Aladdín og Hringjarinn í Notre Dame, en það var áðurnefndur Alan Menken sem skrifaði tónlistina fyrir þessar kvikmyndir, fyrir utan Konung ljónanna, en þar samdi Elton John tónlistina. Disney hóf að framleiða sviðsútgáfur af vinsælustu myndunum sínum, eins og Konungi ljónana og Fríðu og dýrinu.[10]

Eftir aldamótin 2000 hafa komið út nokkrir skemmtilegir söngleikir sem vert er að minnast á. Wicked fjallar um vondu nornina úr vestri úr Galdrakarlinum í Oz. Tónlistin í Wicked líkist að sumu leyti meira kvikmyndatónlist en hefðbundinni söngleikjatónlist og er mikið um endurtekin stef í henni.

Mikið hefur líka verið um að vinsælir söngleikir hafa verið kvikmyndaðir á fyrsta og öðrum áratug 21. aldarinnar. Dæmi um kvikmyndaða söngleiki byggða á sviðsverkum eru Chicago, Óperudraugurinn, Dreamgirls og Sweeney Todd að ógleymdri stórmyndinni Vesalingunum frá 2012.

Tilvísanir

breyta
  1. Weepingsam (1.6.2005). „Types of Musicals“. The Listening Ear.
  2. „What distinguishes an opera from a musical?“. The Guardian. 4.5.2011.
  3. John Kenrick (2000). „Elements of a Musical The Book (Libretto)“. Musicals101.com.
  4. „Rodgers and Hammerstein“. Columbia 250.
  5. Sarah Green (8.1.2012). „The Wicked Stage: Book musicals vs. concept musicals – are they both under threat?“. A Younger Theatre.
  6. „This Day in History: Bernstein's West Side Story opens“. History.org. 9.2.2010.
  7. „Stephen Sondheim“. Academy of Achievement. 17.2.2022.
  8. John Kenrick (1996). „The 1970s“. Musicals101.com.
  9. John Kenrick (1996). „The 1980s“. Musicals101.com.
  10. John Kenrick (1996). „The 1990s“. Musicals101.com.

Heimildir

breyta

Fyrirmynd greinarinnar var „Musical theatre“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt mars 2013.