Andrew Lloyd Webber
Sir Andrew Lloyd Webber, barón Lloyd-Webber Kt. (f. 22. mars 1948) er breskt tónskáld og söngleikjahöfundur. Hann hefur samið þrettán söngleiki sem margir hverjir hafa gengið áratugum saman í leikhúsum í West End og Broadway. Meðal þekktustu söngleikja hans eru Súperstar (1970), Evíta (1976), Cats (1981) og Óperudraugurinn (1986). Hann var aðlaður fyrir framlag sitt til tónlistar árið 1992. Hann hefur sjö sinnum fengið Tony-verðlaunin, þrjú Grammýverðlaun, ein Óskarsverðlaun, fjórtán sinnum Ivor Novello-verðlaunin, sjö sinnum Olivier-verðlaunin, ein Golden Globe-verðlaun og heiðursverðlaun Kennedy-sviðslistastofnunarinnar árið 2005.
Hann stofnaði framleiðslufyrirtækið Really Useful Group árið 1977. Það er nú einn af stærstu leikhúsrekendum í London og rekur aðallega leikhús sem sýna söngleiki. Fyrirtækið hefur líka tekið þátt í framleiðslu sýninga og kvikmynda sem byggjast á söngleikjum Lloyd Webber og annarra.