Rafíþrótt

Rafíþrótt er íþrótt þar sem keppt er í tölvuleikjum. Oftast er um að ræða skipulagðar keppnir í fjölspilunarleikjum milli atvinnumanna sem keppa ýmist sem einstaklingar eða lið. Tölvuleikjakeppnir hafa lengi verið hluti af tölvuleikjamenningunni en frá 1. áratug 21. aldar hefur áhorf aukist gegnum netstreymi á keppnum og atvinnumennska að sama skapi aukist.[heimild vantar] Á 2. áratug 21. aldar eru rafíþróttir orðnar mikilvægur hluti af þróun og markaðssetningu tölvuleikja og margir leikjaframleiðendur taka þátt í að setja upp og styrkja rafíþróttamót.

Heimsmeistaramótið í League of Legends 2016.

Algengustu leikirnir sem keppt er í eru stríðsleikir, fyrstu persónu skotleikir, slagsmálaleikir og herkænskuleikir. Vinsæl rafíþróttamót eru haldin í leikjunum League of Legends, Dota, Counter-Strike, Overwatch, Super Smash Bros. og StarCraft.[1] Meðal þekktustu mótanna má nefna League of Legends World Championship, The International (Dota 2), Evolution Championship Series og Intel Extreme Masters.[2] Dæmi um deildarkeppni er Overwatch League.

Rafíþróttir hafa smám saman áunnið sér viðurkenningu sem gildar íþróttagreinar innan íþróttahreyfingarinnar. Alþjóðaólympíunefndin hefur til að mynda rætt möguleikann á því að rafíþróttir verði hluti Ólympíuleikanna.[3] Árið 2018 tók alþjóðasiglingasambandið World Sailing rafíþróttagrein inn í mótaröð sambandsins með siglingakeppni á netinu með tölvuleiknum Virtual Regatta.

Undir lok 2. áratugar 21. aldar var talið að rafíþróttaviðburðir næðu til 454 milljón áhorfenda um allan heim og að velta þeirra næði yfir 1 milljarð dala.[4] Með vaxandi vægi streymisþjónusta á borð við YouTube og Twitch eiga rafíþróttir auðveldara með að ná til fjölda áhorfenda og skapa þannig tekjur.

Rafíþróttir á ÍslandiBreyta

Tölvuleikjamót hafa verið haldin nokkrum sinnum á Íslandi, meðal annars fjölmenn mót í Háskólanum í Reykjavík. Rafíþróttasamtök Íslands (RÍSÍ) voru stofnuð árið 2018.[heimild vantar] Árið 2019 var stofnuð rafíþróttadeild RÍSÍ sem fékk heitið Lenovo-deildin en varð Vodafone-deildin árið 2020.[heimild vantar] Árið 2020 var keppt í rafíþróttum í Háskólabíói á Reykjavík International Games. Þar var keppt í leikjunum Counter-Strike: Global Offensive, FIFA 20 og League of Legends. Sama ár hleypti Stöð 2 af stokkunum rafíþróttarás, Stöð 2 Esports. Nokkur íslensk íþróttafélög hafa stofnað rafíþróttadeildir, til dæmis Knattspyrnufélag Reykjavíkur, Íþróttafélagið Fylkir, Glímufélagið Ármann og Íþróttafélagið Þór Akureyri.

   Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.


TilvísanirBreyta

  1. Daniels, Tom (22. desember 2021). „Top 10 highest viewed esports events of 2021“. Esports Insider (bresk enska). Sótt 31. janúar 2022.
  2. Tiozon, Daniel (22. febrúar 2021). „Ranking The 5 Biggest Esports Tournaments In The World“. ClutchPoints (bandarísk enska). Sótt 31. janúar 2022.
  3. Epstein, Adam. „When will esports join the Olympics?“. Quartz (enska). Sótt 31. janúar 2022.
  4. FinancialNewsMedia.com. „Global Esports Audience Projected to Reach 474 Million Viewers in 2021“. www.prnewswire.com (enska). Sótt 31. janúar 2022.