Rafíþrótt
Heimildir skortir fyrir staðhæfingum í þessari grein. Ef þú vilt bæta við heimild vinsamlegast bættu þeim við undir nýrri fyrirsögn („Heimildir“) eða skildu eftir athugasemd á spjallsíðunni. |
Þessi grein þarfnast hreingerningar svo hún hæfi betur sem grein hér á Wikipediu. Aðalvandamál þessarar greinar: laga skilgreiningu sbr. spjallsíðu |
Rafíþrótt er íþrótt þar sem keppt er í tölvuleikjum. Oftast er um að ræða skipulagðar keppnir í fjölspilunarleikjum milli atvinnumanna sem keppa ýmist sem einstaklingar eða lið. Tölvuleikjakeppnir hafa lengi verið hluti af tölvuleikjamenningunni en frá 1. áratug 21. aldar hefur áhorf aukist gegnum netstreymi á keppnum og atvinnumennska að sama skapi aukist.[heimild vantar] Á 2. áratug 21. aldar eru rafíþróttir orðnar mikilvægur hluti af þróun og markaðssetningu tölvuleikja og margir leikjaframleiðendur taka þátt í að setja upp og styrkja rafíþróttamót.

Algengustu leikirnir sem keppt er í eru stríðsleikir, fyrstu persónu skotleikir, slagsmálaleikir og herkænskuleikir. Vinsæl rafíþróttamót eru haldin í leikjunum League of Legends, Dota, Counter-Strike, Overwatch, Super Smash Bros. og StarCraft.[1] Meðal þekktustu mótanna má nefna League of Legends World Championship, The International (Dota 2), Evolution Championship Series og Intel Extreme Masters.[2] Dæmi um deildarkeppni er Overwatch League.
Rafíþróttir hafa smám saman áunnið sér viðurkenningu sem gildar íþróttagreinar innan íþróttahreyfingarinnar. Alþjóðaólympíunefndin hefur til að mynda rætt möguleikann á því að rafíþróttir verði hluti Ólympíuleikanna.[3] Árið 2018 tók alþjóðasiglingasambandið World Sailing rafíþróttagrein inn í mótaröð sambandsins með siglingakeppni á netinu með tölvuleiknum Virtual Regatta.
Undir lok 2. áratugar 21. aldar var talið að rafíþróttaviðburðir næðu til 454 milljón áhorfenda um allan heim og að velta þeirra næði yfir 1 milljarð dala.[4] Með vaxandi vægi streymisþjónusta á borð við YouTube og Twitch eiga rafíþróttir auðveldara með að ná til fjölda áhorfenda og skapa þannig tekjur.
Rafíþróttir á ÍslandiBreyta
Tölvuleikjamót hafa verið haldin nokkrum sinnum á Íslandi, meðal annars fjölmenn mót í Háskólanum í Reykjavík. Rafíþróttasamtök Íslands (RÍSÍ) voru stofnuð árið 2018.[heimild vantar] Árið 2019 var stofnuð rafíþróttadeild RÍSÍ sem fékk heitið Lenovo-deildin en varð Vodafone-deildin árið 2020.[heimild vantar] Árið 2020 var keppt í rafíþróttum í Háskólabíói á Reykjavík International Games. Þar var keppt í leikjunum Counter-Strike: Global Offensive, FIFA 20 og League of Legends. Sama ár hleypti Stöð 2 af stokkunum rafíþróttarás, Stöð 2 Esports. Nokkur íslensk íþróttafélög hafa stofnað rafíþróttadeildir, til dæmis Knattspyrnufélag Reykjavíkur, Íþróttafélagið Fylkir, Glímufélagið Ármann og Íþróttafélagið Þór Akureyri.
TilvísanirBreyta
- ↑ Daniels, Tom (22. desember 2021). „Top 10 highest viewed esports events of 2021“. Esports Insider (bresk enska). Sótt 31. janúar 2022.
- ↑ Tiozon, Daniel (22. febrúar 2021). „Ranking The 5 Biggest Esports Tournaments In The World“. ClutchPoints (bandarísk enska). Sótt 31. janúar 2022.
- ↑ Epstein, Adam. „When will esports join the Olympics?“. Quartz (enska). Sótt 31. janúar 2022.
- ↑ FinancialNewsMedia.com. „Global Esports Audience Projected to Reach 474 Million Viewers in 2021“. www.prnewswire.com (enska). Sótt 31. janúar 2022.