Ríma
Rímur (et. ríma) eru alíslenskur epískur kveðskapur sem var órjúfanlegur þáttur í íslensku menningarlífi frá miðöldum (14. öld) alveg fram á miðja 20. öld. Rímur eru ortar undir sérstökum bragarháttum, sem kallast rímnahættir, og samanstendur hver ríma yfirleitt af nokkrum tugum erinda. Rímur eru vanalega nokkrar saman, og kallast þá rímnaflokkur og eru ein samhangandi frásögn en hver ríma eins og einn kafli í sögu. Yrkisefni eru oftast sögur af köppum úr fornaldarsögum, riddarasögum eða ævintýrum en síður úr efni Noregskonungasagna og Íslendingasagna.
Hver ríma er ort undir sama bragarhætti, en yfirleitt er breytt um bragarhátt á milli rímna í rímnaflokki. Hver ríma byrjar vanalega á mansöng (sem upprunalega var ástarkveðskapur) þar sem skáldið notar nokkrar vísur til þess að afsaka vankunnáttu sína í kveðskap eða kvarta undan ógæfu sinni. Þá er algengt að karlskáld kvarti undan óláni í kvennamálum. Eftir það kemur frásögn rímunnar í nokkrum tugum erinda, og gjarnan er síðasta erindi rímunnar haft dýrar kveðið en hinar, til dæmis með meira innrími.
Talið er að rímnaflokkar hafi frá upphafi verið skráðir beint á bók um leið og þeir voru ortir. Þó vera megi að fólk hafi getað lært rímur utan að og flutt þær eftir minni tilheyra þær almennt séð ekki munnlegri hefð, ólíkt t.d. íslenskum þjóðkvæðum sem lifðu á vörum manna um aldir áður en þau voru skrásett.
Fræðimenn áætla að u.þ.b. 1.050 rímnaflokkar séu til í varðveittum skinn- og pappírshandritum.
Saga rímnanna
breytaSegja má að rímnahefðin hafi þróast úr nokkrum skáldskapartegundum sem þekktust bæði hér á landi og erlendis. Bragarhættina hafa þær að öllum líkindum fengið frá danskvæðum í Evrópu en stílinn hafa rímurnar hins vegar fengið úr dróttkvæðum og eddukvæðum. Dæmi um stílbrögð sem rímur hafa fengið úr dróttkvæðum og eddukvæðum má nefna kenningar og heiti sem eru eitt af megineinkennum rímnakveðskaparins. Talið er að rímnahefðin hafi fullmótast einhvern tímann á 15. öld.[1]
Fyrstu þekktu rímurnar eru frá síðari hluta miðalda og mun elsta ríman vera Ólafs ríma Haraldssonar, frá seinni hluta 14. aldar, sem varðveist hefur í Flateyjarbók (GKS 1005 fol.). Þá hafa um 80 rímnaflokkar varðveist sem ortir voru fyrir árið 1600.
Mikilvægustu handrit sem varðveita rímnaflokka fyrri alda eru handrit á borð við Kollsbók (Codex Guelferbytanus 42.7 Augusteus quarto) frá 15. öld og Staðarhólsbók rímna (AM 604 4to), frá því um miðja 16. öld.
Rímurnar færðust mjög í aukana sem bókmenntagrein er frá leið miðöldum, og íslensk skáld ortu flestar þær sem til eru á 17., 18. og 19. öld. Um miðja 19. öld, eftir að Jónas Hallgrímsson ritaði mjög harðorðan ritdóm í Fjölni, fóru þær að komast úr tísku og lentu smám saman á jaðri bókmenntanna.
Rímnahættir
breytaHefðbundnar rímur eru ortar undir bragarháttum sem gróflega má skipta í þrjá flokka: Ferskeytlu (í fjórum línum), braghendu (í þrem línum) og afhendingu (í tveim línum). Hver þessara flokka á sér marga undirflokka, sem byggjast á mismunandi línulengd, mismunandi endarími og mismunandi innrími.
Rímnahættir ferskeytla eru draghenda, stefjahrun, skammhenda, úrkast, dverghenda, gagaraljóð, langhenda, nýhenda, breiðhenda, stafhenda, samhenda, stikluvik og valstýfa. Undirflokkar braghendu eru valhenda, stuðlafall, vikhenda og hurðardráttur. Stúfhenda er ein tegund afhendingar.[2]
Flutningur rímna
breytaRímur eru yfirleitt kveðnar af einum kvæðamanni í senn, en þó með undantekninum. Flutningur eða framsaga hefur ávallt verið mjög mikilvægur þáttur í listformi rímna og án hans er einungis hálf sagan sögð.
Þegar flutningur fer fram heitir það jafnan að kveða og eru notaðar ákveðnar stemmur við rímurnar og þær sungnar. Við sönginn lifna rímurnar við og séu þær sungnar af góðum og þróttmiklum kvæðamönnum er von á glæsilegri skemmtun fyrir þá sem hlýða á.
Annað einkenni á rímnaflutningi kvæðamanna var að draga seiminn. Það fólst í því að kvæðamenn hægðu á flutningi sínum í enda hverrar stemmu oft með fremur skrautlegum hætti.
Efni rímna
breyta- Rímur úr Riddarasögum
- Rímur úr Noregskonungasögum
- Rímur úr Íslendingasögum
- Rímur um goðsögulegt efni
- Rímur úr fornaldarsögum
- Rímur úr ævintýrum
- Rímur úr almúgabókum
- Rímur um skopstælingar
Nokkrar þekktar rímur
breytaRímur fyrri alda:
- Andrarímur fornu
- Blávussrímur og Viktors
- Bósa rímur
- Friðþjófsrímur
- Grettisrímur
- Lokrur
- Ólafs ríma Haraldssonar
- Ólafs rímur Tryggvasonar
- Rímur af Mábil sterku
- Skáld-Helga rímur
- Skíðaríma
- Sörla rímur
- Sturlaugs rímur
- Völsungsrímur
- Þrymlur
- Þrænlur
Rímur síðari alda:
- Sigurður Breiðfjörð: Rímur af Núma kóngi Pompilssyni, betur þekktar sem Númarímur.
- Gísli Konráðsson og Hannes Bjarnason: Rímur af Andra jarli, betur þekktar sem Andrarímur.
Tenglar
breytaTengt efni
breytaHeimildir
breyta- ↑ Vésteinn Ólason (1993). Íslensk bókmenntasaga II. Mál og menning. bls. 322.
- ↑ „Rímnahættir“. Bragfræðivefur Halls. Sótt 3. júní 2023.