Braghenda er bragarháttur þar sem vísan er þrjár línur. Önnur og þriðja braglína ríma næstum saman, og eru oftast látnar ríma við fyrstu braglínu með sérhljóðshálfrími, en stundum með venjulegu rími. Stundum ríma þær ekki við hana og kallast braghendan þá frárímuð. Undirtegundir braghendu eru fimm: „venjuleg“ braghenda, valhenda, stuðlafall, vikhenda, og hurðardráttur. Síðastnefndu tvær tegundirnar sker sig úr að því leyti að fyrsta og síðasta lína ríma saman, en önnur línan ekki. Þar að auki eru afhending og stúfhenda stundum taldar sjötta og sjöunda undirtegund braghendu, en í þær vantar síðustu línuna og þá ríma báðar saman.

Bragfræðilega er fyrsta lína braghendu eiginlega fyrri partur úrkasts og síðari tvær línurnar samsvara vísuhelming breiðhendu.

Vanaleg braghenda með sérhljóðshálfrími (skárímuð):

Sólskríkjan mín situr þar á sama steini
og hlær við sínum hjartans vini,
honum Páli Ólafssyni.
(Páll Ólafsson)

Vanaleg braghenda frárímuð:

Þegar ég mátti falla í faðm á fljóði
vissi ég ekkert um mig lengur,
aðrir skynja hvað þá gengur.
(Sigurður Breiðfjörð).

Vanaleg braghenda samrímuð:

Hrífa mig úr heimahögum hrjósturfjöllin,
ég er orðin eins og tröllin,
uni lítt við byggðasköllin.
(Sveinbjörn Beinteinsson)

Eitt og annað

breyta
  • Í rökfræði er talað um rökhendur, en nafnið var fengið með hliðsjón af braghendu sem er samansett af þremur braglínum, rétt eins og rökhendan er í þremur liðum.

Tenglar

breyta