Kollsbók
Kollsbók (Codex Guelferbytanus 42.7 Augusteus quarto) er íslenskt skinnhandrit frá 15. öld.[1] Þetta handrit hefur að geyma elsta safn íslenskra rímna frá miðöldum og er það mikilvægasta ásamt Staðarhólsbók rímna. Ólafur Halldórsson handritafræðingur (1920-2013) hefur aldursgreint handritið og telur að það hafi verið skrifað einhvern tímann á árunum 1480-1490. Handritið er nefnt eftir Jóni kolli Oddssyni (um 1450 - eftir 1540) lögréttumanni í Holti í Saurbæ (Dalasýsl. Vesturl.) fyrsta eiganda handritsins. Handritið komst síðar í eigu Augusts hins yngra, hertoga yfir Braunschweig-Lüneburg-Wolfenbüttel, eins mesta bókasafnara í Evrópu á 17. öld.[2]
Rímur þær, sem munu hafa verið í Kollsbók frá öndverðu, voru að öllum líkindum allar ortar á 15. öld. Talið er þó að elstu rímur handritsins séu Geiplur, ortar laust eftir árið 1400, en yngstu rímurnar Mábilar rímur.[3] Grettis rímur þær, sem eru í Kollsbók, eru hvergi varðveittar annars staðar. Kollsbók hefur ekki varðveist heil og mörg blöð hafa glatast úr henni.
Kollsbók er nú varðveitt í bókasafni Augusts hertoga í Wolfenbüttel í Þýskalandi og líklegt þykir að handritið muni dvelja þar um ókomna framtíð.
Efni Kollsbókar
breytaÍ Kollsbók hafa í upphafi verið tuttugu rímnaflokkar (samkvæmt efnisyfirliti handritsins sem hefur varðveist) en þar sem upphaf Kollsbókar vantar hafa fjórir af þessum rímnaflokkum glatast.[4]
Glötuðu rímur (rímnaflokkar) Kollsbókar eru:
- Reinalds rímur. Þær hafa varðveist að hluta í Staðarhólsbók rímna, Hólsbók en þær hafa varðveist heilar í nokkrum pappírshandritum.
- Skáld-Helga rímur. Þær hafa varðveist heilar í Staðarhólsbók rímna, Hólsbók og fleiri pappírshandritum.
- Andra rímur fornu. Níu rímur Andra rímna hafa varðveist í Staðarhólsbók rímna, tvær rímur til viðbótar Hólsbók (AM 603 4to) og tvær til viðbótar í handritinu Holm Perg 4to nr. 23.
- Óþekktur rímnaflokkur tveggja rímna sem hefur að öllum líkindum glatast með öllu.
Varðveittar rímur (rímnaflokkar) Kollsbókar:
- Sigurðar rímur fóts. Sex rímur alls.
- Skikkju rímur. Þrír rímur alls.
- Ormars rímur. Fjórir rímur alls.
- Áns rímur bogsveigis. Átta rímur alls.
- Geðraunir (Hrings rímur og Tryggva). Ellefu rímur alls.
- Geiraðs rímur. Átta rímur alls.
- Konráðs rímur. Sex rímur alls en hafa í upphafi verið átta sbr. önnur handrit. Í Kollsbók vantar rímu VI og VIII.
- Ólafs rímur Tryggvasonar af Svöldrarorrustu (Svöldrar rímur fornu). Fimm rímur alls.
- Griplur (Hrómundar rímur Gripssonar). Fjórir rímur alls en hafa í upphafi verið sex sbr. önnur handrit. Í Kollsbók vantar rímur I og II.
- Ektors rímur. Ellefu rímur alls en hafa í upphafi verið tólf, sbr. Staðarhólsbók rímna. Í Kollsbók vantar rímu VIII.
- Filipó rímur (Krítarþáttur). Átta rímur alls.
- Sálus rímur og Níkanórs. Átta rímur alls.
- Herburts rímur. Fjórar rímur alls.
- Geiplur. Fjórar rímur alls en hafa í upphafi verið sex að tölu. Í Kollsbók vantar rímur II og III.
- Grettis rímur. Átta rímur alls.
- Mábilar rímur. Níu rímur alls. Vantar tíundu rímuna sem mun vera yngsta ríman. Hún er varðveitt í yngri pappírshandritum.
Rannsóknir og útgáfur
breyta- Ólafur Halldórsson. 1964. Kollsbók. Handritastofnun Íslands, Reykjavík.
Tenglar
breytaHeimildir
breyta- ↑ Vésteinn Ólason (1993). Íslensk bókmenntasaga II. Mál og menning. bls. 322.
- ↑ Ólafur Halldósson (1964). Kollsbók. Handritastofnun Íslands, Reykjavík. bls. ix.
- ↑ Ólafur Halldórsson (1964). Kollsbók. Handritastofnun Íslands, Reykjavík. bls. xvi.
- ↑ Ólafur Halldórsson (1968). Kollsbók. Handritastofnun Íslands, Reykjavík. bls. xv.