Stemma (eða kvæðalag) er lagstúfur notaður til að flytja hefðbundinn íslenskan kveðskap, oftast rímur eða lausavísur. Þegar stemma er flutt er það kallað að kveða, það er tegund af söng, sem leyfir vissan breytileika og dregur oft seiminn. Þekktar stemmur skipta hundruðum. Þær eru flestar í fornum lýdískum eða dórískum tóntegundum og hver stemma sniðin að einhverjum ákveðnum bragarhætti, til dæmis ferskeytlu, braghendu, stuðlafalli, gagaravillu og svo framvegis, eftir hrynjandi hverrar og einnar. Fyrir hverja stemmu eru til einn eða fleiri lagboðar þ.e. vísa sem stemman er kennd við og algengt er að flytja.[1]

Á nítjándu og tuttugustu öld söfnuðu áhugamenn um íslenskan tónlistararf stemmum, meðal annarrar tónlistar, bæði á nótum (til dæmis Bjarni Þorsteinsson: Íslensk þjóðlög) og síðar á upptökum (til dæmis Silfurplötur Iðunnar og umfangsmikið upptökusafn á Stofnun Árna Magnússonar). Samhliða því að rímnakveðskapur komst úr tísku á síðari hluta nítjándu aldar og fyrri hluta þeirrar tuttugustu, fór mörgum að þykja stemmur sveitó og hallærislegar. Þær hurfu þó aldrei að fullu úr huga landsmanna; bæði lagði Kvæðamannafélagið Iðunn rækt við kveðskaparhefð frá stofnun árið 1929, nokkur tuttugustu aldar skáld, til dæmis Einar Benediktsson viðhéldu rímnakveðskap, og tónskáld, til dæmis Jón Leifs og Jórunn Viðar, unnu með gamlar stemmur. Sveinbjörn Beinteinsson og síðar Steindór Andersen fóru líka að flytja stemmur í samhengi við nútímatónlist: pönk, rapp, Sigur Rós og fleira.

Tilvísanir

breyta
  1. „Lagboðar Iðunnar“. Kvæðamannafélagið Iðunn.