Fornaldarsögur eða Fornaldarsögur Norðurlanda eru sögur sem, ólíkt Íslendingasögum, gerast í nágrannalöndunum fyrir landnám Íslands. Þó eru þar undantekningar, svo sem Yngvars saga víðförla, sem gerist á 11. öld. Sögurnar voru líklega allar ritaðar á Íslandi, á tímabilinu frá því um 1250 og fram undir 1400. Þó er hugsanlegt að einhverjar þeirra séu yngri.

Hjörvarður og Hjálmar hugumstóri biðja Ingibjargar konungsdóttur í Uppsölum, sbr. Hervarar sögu, 2. kapítula. Teikning eftir Hugo Hamilton, gerð um 1830

Helstu einkenni fornaldarsagna

breyta

Sögusvið fornaldarsagna er oftast á Norðurlöndum, en stundum berst frásögnin til fjarlægra og furðulegra staða. Oft blandast goðsöguleg eða yfirnáttúruleg öfl inn í frásögnina, svo sem dvergar, álfar, risar og galdrar. Á 17. og 18. öld voru fornaldarsögur taldar nothæfar sagnfræðilegar heimildir meðal norrænna fræðimanna, en á 19. öld komust menn á þá skoðun að lítið væri á þeim byggjandi fyrir sagnfræðinga. Nú er almennt litið svo á, að þó að sumar sögurnar hafi að geyma dálítinn sögulegan kjarna og að sumar persónurnar hafi verið til, þá hafi meginhlutverk fornaldarsagna verið að skemmta fólki, en ekki að segja sanna sögu frá fyrri tíð. Nýlega hefur þó verið lögð áhersla á að sögurnar geti varpað ljósi á íslenska þjóðmenningu á 13. og 14. öld, þegar þær voru samdar.

Sumar sögurnar fjalla um sögulegar persónur, eins og sjá má þar sem til eru heimildir til samanburðar, svo sem um Ragnar loðbrók, Yngvar víðförla og sumar af persónum Völsunga sögu. Í Hervarar sögu koma fram staðanöfn í Úkraínu frá árabilinu 150–450, og síðasti hluti sögunnar er notaður sem heimild um sögu Svíþjóðar.

Löngum hafa fornaldarsögur notið heldur lítillar virðingar og taldar hafa mun minna bókmenntagildi en Íslendingasögur. Efnið er ekki eins trúverðugt, persónulýsingar skortir dýpt, og efnið er oft keimlíkt, fengið að láni úr öðrum sögum eða þjóðsögum. Þrátt fyrir það ber ekki að vanmeta þær. Sumar sögurnar hafa að geyma ævafornar germanskar sagnir, svo sem Hervarar saga og Völsunga saga, þar sem er kveðskapur um Sigurð Fáfnisbana sem er ekki í Konungsbók Eddukvæða og hefði annars glatast, (sjá Eyðan í Konungsbók). Aðrar fjalla um þekktar hetjur eins og Ragnar loðbrók, Hrólf kraka og Örvar-Odd. Fornaldarsögur hafa mikið gildi fyrir þjóðsagnarannsóknir, því að í þeim er fjöldi sagnaminna (mótífa) úr margs konar þjóðsögum, sem annars eru engar heimildir um á Norðurlöndum fyrr en um miðja 19. öld. Þær eru einnig áhugaverðar fyrir þá sem rannsaka norræn fornkvæði, sem oft fjalla um sama eða svipað efni. Loks eru þær mikilvægar við rannsóknir á norrænum og þýskum hetjukvæðum, og einnig á Danasögu Saxa, sem var byggð á sömu fornaldarsögum og hetjukvæðum.

Fornaldarsögur hafa haft áhrif á rithöfunda og listamenn á síðari öldum, einkum á tímum rómantísku stefnunnar. T.d. samdi sænska skáldið Esaias Tegnér söguljóðið Friðþjófssögu, sem byggt er á Friðþjófs sögu hins frœkna. Matthías Jochumsson þýddi það á íslensku.

Fornaldarsögur í stafrófsröð

breyta

Þættir

breyta

Aðrar sögur

breyta

Heimildir

breyta
  • Einar Ól. Sveinsson: „Fornaldarsögur“, Í: Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder fra vikingtid til reformasjonstid, 4. bindi, Kbh. 1959.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Legendary saga“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 9. júlí 2008.

Tenglar

breyta