Sýrurokk

tónlistarstefna
(Endurbeint frá Psychedelic rokk)

Sýrurokk (e. psychedelic rock, einnig sækadelía) er tónlistarstefna sem kom fram um miðjan sjöunda áratug tuttugustu aldar.[1] Ekki má rugla sýrurokki við ensku stefnuna acid rock sem var ein af undirstefnum sýrurokks[2]. Nátengdar stefnur eru sýrupopp, sýrufólktónlist og sýrusálartónlist. Tónlistin átti að líkja eftir áhrifum ofskynjunarlyfja og virkaði sem einhversskonar þematónlist svokallaðra dóp 'trippa' og hippamenningarinnar. Mikið var notast við alls kyns rafmagnseffekta og nýstárlega upptökutækni auk þess sem tónlistin sótti áhrif í djass og austurlenska tónlist. Rafmagnsgítar og hljómborð eða hljóðgervlar af ýmsu tagi voru áberandi einkenni þessarar tónlistarstefnu.

Sýrurokk var ákaflega vinsælt í bæði Bretlandi og Bandaríkjunum en einhver munur var á stefnunum sitthvoru megin við Atlantshafið. Þekktar hljómsveitir sem spiluðu einhverntíma svona tónlist eru meðal annars Bítlarnir,[3] The Rolling Stones,[4] Pink Floyd,[5] og Soft Machine.[6] Þrátt fyrir að sýrurokksenan hafið verið mest áberandi í Bretlandi og Bandaríkjunum náði hún líka til Íslands og hafði áhrif á tónlistarlífið hér.

Sýrurokk lifði stutt og fjaraði að mestu út á mótum sjöunda og áttunda áratugarins og flestar sýrurokksveitir sneru sér að öðrum stefnum. Það var svo í lok áttunda áratugarins sem síðpönk sveitir tóku að tvinna sækadelíu saman við tónlist sína og þar með hófts nýsækadelía sem er enn við lýði í dag.

Tónlistarstíll

breyta
 
Sítar

Sækadelía sótti mikinn innblástur í austulenska tónlist og hljóðfæri. Oft mátti heyra í sítar eða ásláttarhljóðfærinu tabla bregða fyrir í tónlistinni. Til dæmis notaði hljómsveitin The Rolling Stones sítar í lagi sínu „Paint It, Black“.[1] Sækadelískir tónlistarmenn sóttu einnig í áhrif frá djasstónlist, meðal annars löngu spuna „djömm“ (e. jam sessions) sem höfðu verið stunduð af djasstónlistarmönnum áður fyrr.[7]

Allskyns nýir rafmagnseffektar voru notaðir bæði á meðan á upptökum stóð og eftir á til að breyta og bjaga hinu ýmsu hljóð en þó aðallega gítar og söng. Algengir effektar fyrir gítara voru fuzzbox, wah wah og afturverkun (e. feedback), algengt var að fuzzboxið og wah wah pedalinn væru sameinuð í eitt tæki og kallaðist sá hljóðeffekt fuzz wah.[8] Aðrir effektar voru til dæmis öfugar upptökur (e. backmasking eða backward tapes) þar sem upptakan er spiluð afturábak.[1] Mikil áherlsa var lögð á hljómborð af einhverju tagi til dæmis orgel, mellotron[9] og frumstæða hljóðgervla þessa tíma.[10][11]

Textagerðin tók einnig að breytast í þessari nýju rokktegund. Textar fóru að fjalla meira um málefni líðandi stundar og lýsingar á eiturlyfja „trippum“ og hurfu frá þeim vana að skrifa um ást og rómantík. Einhver munur var líka á tónlistinni í Bandaríkjunum annarsvegar og Bretlandi hinsvegar. Breskir textar voru oft frekar súrrealískir og það var algengt að þeir væru skrifaðir eins og frá sjónarhorni barns eða jafnvel á ævintýraformi. Þá var mellotron mun meira áberandi í bresku greininni en þeirri bandarísku.[1]

 
Jimi Hendrix árið 1967

Það var um miðjan sjöunda áratug sem pólitísk fólktónlist með Bob Dylan í fararbroddi, uppreinsarrokk The Rolling Stones og félaga og áhyggjulaust popp-rokk bítlanna og þeirra líka fór að renna saman í eina allsherjar hippatónlistarstefnu: sýrurokk (eða sækadelíu). Tónlistarmenn fóru að bregða út fyrir settar dægurlagaformúlur þegar kom að tónsmíðum og þetta var tími miklillar tilraunastarfsemi. Ómissandi partur í þessari þróun voru ofskynjunarlyf og var sýruokkið einmitt ætlað sem nokkurskonar undirspil fyrir eiturlyfjatripp sem áttu að opna fyrir manni áður ókönnuð svæði sjálfsins.[7] Tónlistinni var ætlað að hafa sömu skynörvandi áhrif á mann og LSD.[12] Tónsmíðar tóku stakkakiptum, lögin lengdust og spunar og „djömm“, ættuð frá djass tónlist, urðu áberandi. Oft á tíðum var það einfaldlega þannig að hljómsveitir höfðu of lítið efni eða kunnu ekki nógu vel á hljóðfæri sín til að fylla upp í langa dagskrá og lausnin var að skeyta löngum samspilum og sólóum inn í lögin til að lengja prógrammið.[13]

Beggja vegna Atlantshafsins voru hljómsveitir byrjaðar að gera tilraunir með LSD. Í Bandaríkjunum byrjuðu hljómsveitir hvaðanæva að, að spila tónlist sem féll undir þennan flokk rokktónlistar. Í San Francisco myndaðist stór sýrurokk sena með hljómsveitir á borð við the Grateful Dead og the 13th Floor Elevators, sem í raun voru frá Texas, í fararbroddi. The Grateful Dead voru á meðal hljómsveita sem spiluðu á sérstökum sýrukvöldum (e."acid tests"), samkomum þar sem fólk tók LSD við undirspil sýrutónlistar. Í Bretlandi áttu svipaðir hlutir sér stað. Pink Floyd, The Move, the Soft Machine, uppreisnarseggirnir í The Rolling Stones og jafnvel góðu drengirnir í Bítlunum, allir tóku þátt. En þetta snerist ekki bara um eiturlyf, hljómsveitir vildu ganga lengra og fara nýjar leiðir í tónlist sinni. Auk áhrifa úr jassi sótti tónlistin líka innblástur frá austrænni tónlist og notuðust við hljóðfæri eins sítara og tabla trommur en líka í klassísk hljófæri eins og sembala. Sumarið 1967 náði sýrurokk hátindi sínum. Bítlarnir gáfu út plötuna Sgt. Pepper's Lonely Heartsclub sem skartaði dreymnum textum með skýrskotanir í eiturlyfjaneyslu, sítarleik og fleiru einkennandi fyrir sýrurokk. [1] Ári síðar var haldin hin þekkta hippatónlistarhátíð Woodstock í Bandaríkjunum, þar sem mörg stærstu nöfn sýrurokks komu fram, þar á meðal Jimi Hendrix, Jefferson Airplane, the Grateful Dead og Country Joe and the Fish.[14] Upp frá því fóru vinsældir sýrurokks hinsvegar dvínandi og þegar áttundi áratugurinn gekk í garð við voru flestar rokkhljómsveitir annaðhvort hættar eða höfðu aftur snúið sér að hefðbundnara rokki. En sýrurokk átti líka þátt í þróun nýrra tónlistarstefna, framsækið rokk í tilviki Pink Floyd og the Soft Machine svo og þungarokk sveita eins og Led Zeppelin.[15]

Sýrurokk á Íslandi

breyta
 
Önnur tveggja smáskífa Óðmanna, gefin út árið 1970. Hún innihélt lögin Bróðir og Spilltur Heimur

Sækadelían var lengi að taka við sér á Íslandi. Það var ekki fyrr en flestar erlendu hljómsveitirnar höfðu gefist upp og snúið sér aftur að hefðbundnara rokki eða leyft tónlistinni að þróast áfram yfir í t.d. framsækið rokk sem hljómsveitirnar hér heima fóru að spila sýrurokk. Fram að 1969-1970 höfðu íslensku hljómsveitirnar verið tregar til að til að tileinka sér framúrstefnulega tilraunasterfsemi vinsælla hljómsveita á borð við Pink Floyd, Procol Harum, The Doors og gítarkónginn Jimi Hendrix. En loks í bláenda sjöunda áratugarins tóku íslendingarnir við sér og fóru að spila tónlistina sem áður hafði bara fengið að heyrast spiluð af plötum hérlendis. Lítið var um frumsamda tónlist á Íslandi á þessum tíma og algengara var að íslensku hljómsveitirnar spreyttu sig á erlendum slögurum en þó ekki algilt. En með innkomu sýrutónlistar á íslandi fóru hljómsveitir að leggja meira upp úr því að semja sjálfar og oftast var lagður mikill metnaður í tónsmíðarnar. Tónlistin sneri ekki lengur um að skapa möguleka til að dansa við hitt kynið. Þess í stað var algengara að fólk héldi kyrru fyrir í sætum sínum, jafnvel með lokuð augun, og leyfðu sér að týnast í tónlistinni. Ef ske kynni að dansað væri voru það ekki lengur fyrirfram æfð dansspor sem réðu ríkjum á dansgólfinu. Við tóku hægar hreyfingar, hver og einn fór sínar leiðir eftir eigin skynjun á tónlistinni. Ekki var óalgengt að þessi skynjun væri aukin með hjálp ofskynjunarlyfja af einhverju tagi, til dæmis LSD eða hassi.[16] Meðal þekktustu sýrurokksveita landsins voru Trúbrot, Óðmenn og Tilvera, allar stofnaðar árið 1969.

Hljómsveitin Trúbrot var stofnuð af vel völdum meðlimum úr Hljómum og Flowers og átti hún að vera sannkölluð súpergrúppa. Upprunaleg uppröðun hljómsveitarinnar var Gunnar Þórðarson, Rúnar Júlíusson og söngkonan Shady Owens úr Hljómum en frá Flowers komu Karl Sighvatsson og Gunnar Jökull Hákonarson. Gunnar Jökull hafði þá spilað á trommur með ensku sýrurokkhljómsveitinni The Syn sem síðar var að framsæknu rokkhljómsveitinni Yes. Yfir starfsferilinn tók hljómsveitin hinsvegar miklum mannbreytingum.[17] Trúbrot gaf út frumsamið efni, sýrurokk og hippatónlist, og var þekkt fyrir mikinn metnað í tónsmíðum. Þrátt fyrir það spilaði sveitin lítið af eigin efni á böllum og tónleikum heldur tóku þau vinsælustu lög erlendu hljómsveitanna t.d. Led Zeppelin og Jefferson Airplane. Trúbrot er oft sögð forystuhljómsveit íslensk rokks þrátt fyrir að hafa ekki endilega verið með stærsta aðdáendahópinn.[18] Óðmenn spiluðu sýrurokk með blúsívafi í anda bresku hljómsveitarinnar Cream. Þeir voru ekki jafn vinsæl ballsveit og til að mynda Trúbrot vegna þess hve þung og ódanshæf tónlist þeirra var. Fram til ársins 1971, þegar hljómsveitin hætti störfum, gáfu Óðmenn út nokkrar plötur og voru fyrsta hljómsveitin til að gefa út tvöfalda plötu árið 1970. Þeir öðluðust ekki einungis vinsældir í heimalandinu heldur einnig á Norðurlöndum. Tilvera spilaði líkt og Óðmenn blúsað sýrurokk. Hljómsveitin vakti mikla athygli fyrir tónsmíðar gítarleikarans Axels Einarssonar sem þóttu líkjast meðal annars verkum Pink Floyd.[19] Árið 1971 gaf Tilvera út tveggja laga smáskífu með lögunum Lífið og Hell Road með þungum gítar og orgelleik auk þess sem textinn við Hell Road er nokkurskonar áróðurslag gegn stríði.

Nýsýrurokk

breyta

Í lok áttunda áratugarins tóku síðpönksveitir, þar á meðal Echo & the Bunnymen og The Teardrop Explodes, að endurlífga sýrurokkið með því að innleiða stíl þess í tónlist sína og úr varð ný stefna: Nýsýrurokk. Tónlistin sótti áhrif til sýrutónlistar sjöunda áratugarins, hvort sem það var súrrealísk eða pólitísk textagerðin, bjagað gítarhljóð eða jafnvel djassaður spuni. Nýsýrutónlist (e. neo-psychedelia) er jafn fjölbreytt og hljómsveitirnar sem spilað það í gegnum árin eru margar. Algengast er að indí og alternative hljómsveitir tilheyri stefnunni.[20] Dæmi um starfandi nýsýrurokkhljómsveitir eru ástralska sveitin Tame Impala[21], Ariel Pink's Haunted Graffiti[22], Animal Collective[23] og breska sveitin Toy, en tónlist hennar er samblanda sýrurokks, síðpönks og krátrokks.[24]

Tengt efni

breyta

Heimildir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 Unterberger, Richie. „Psychedelic Rock“ Geymt 3 nóvember 2011 í Wayback Machine, Allmusic. Skoðað 29. febrúar 2012.
  2. „Acid Rock“ Geymt 9 nóvember 2010 í Wayback Machine, Allmusic. Skoðað 4. mars 2012.
  3. Miller, James E. „The Beatles“, Britannica. Skoðað 29. febrúar 2012.
  4. Erlewine, Thomas. „The Rolling Stones“, Allmusic. Skoðað 1. mars 2012.
  5. O’Brien, Lucy M. „Pink Floyd“, Britannica. Skoðað 29. febrúar 2012.
  6. Unterberger, Richie og Dave Lynch. „Soft Machine“, Allmusic. Skoðað 29. febrúar 2012.
  7. 7,0 7,1 Scaruffi, Piero. „The History of Rock Music: 1966-1969“, [1]. Skoðað 21. febrúar 2012.
  8. „Guitar/Effects Pedals“, [2]. Skoðað 1. mars 2012.
  9. D. W. Marshall, Mass Market Medieval: Essays on the Middle Ages in Popular Culture (Jefferson NC: McFarland, 2007), ISBN 0-7864-2922-4, bls. 32.
  10. J. DeRogatis, Turn On Your Mind: Four Decades of Great Psychedelic Rock (Milwaukie, Michigan: Hal Leonard, 2003), ISBN 0-634-05548-8, bls. 230.
  11. Richie Unterberger, Samb Hicks, Jennifer Dempsey, Music USA: the rough guide, (Rough Guides, 1999), ISBN 1-85828-421-X, bls. 391.
  12. M. Hicks, Sixties Rock: Garage, Psychedelic, and Other Satisfactions Music in American Life (Chicago, IL: University of Illinois Press, 2000), ISBN 0-252-06915-3, bls 59.
  13. M. Hicks, Sixties Rock: Garage, Psychedelic, and Other Satisfactions Music in American Life (Chicago, IL: University of Illinois Press, 2000), ISBN 0-252-06915-3, Bls. 64.
  14. Höfundur óþekktur „The Music“ Geymt 2 apríl 2012 í Wayback Machine, Woodstock. Skoðað 10.mars 2012.
  15. Höfundur óþekktur. „Psychedelic “, Allmusic. Skoðað 10. mars 2012.
  16. Gestur Guðmundsson Rokksaga Íslands 1955-1990, frá Sigga Johnnie til Sykurmolanna., (Forlagið, 1990), ISBN=ISBN 9979-53-015-4, bls. 111.
  17. „Trúbrot“, Tónlist. Skoðað 6.mars 2012.
  18. Gestur Guðmundsson Rokksaga Íslands 1955-1990, frá Sigga Johnnie til Sykurmolanna., (Forlagið, 1990), ISBN=ISBN 9979-53-015-4, bls. 112.
  19. Gestur Guðmundsson Rokksaga Íslands 1955-1990, frá Sigga Johnnie til Sykurmolanna., (Forlagið, 1990), ISBN=ISBN 9979-53-015-4, bls. 115.
  20. „Neo-Psychedelia“ Geymt 16 apríl 2011 í Wayback Machine, Allmusic. Skoðað 8.mars 2012.
  21. Macgregor, Jody. „Tame Impala“, Allmusic. Skoðað 9. mars 2012.
  22. Henderson, Alex. „Ariel Pink's Haunted Graffiti“, Allmusic. Skoðað 9. mars 2012.
  23. Henderson, Alex. „Animal Collective - Strawberry Jam“, Wordpress. Skoðað 9. mars 2012.
  24. Long, Ralegh „Field Day 2011: The Quietus Review - Toy“, thequietus.com The Quietus. Skoðað 9.mars 2012.

Tenglar

breyta

Erlendir tenglar