Peñarol
Peñarol (fullt nafn: Club Atlético Peñarol) er úrúgvæskt knattspyrnulið frá samnefndu úthverfi borgarinnar Montevídeó, og er eitt þekktasta og sigursælasta félagslið heims. Liðið var stofnað 28. september árið 1891. Félagið hefur fimm sinnum unnið ameríkubikarinn og þrívegis sigrað í keppni Suður-Ameríkumeistaranna og Evrópumeistaranna. Auk knattspyrnu keppir Peñarol í rúbbí og frjálsum íþróttum.
Club Atlético Peñarol | |||
Fullt nafn | Club Atlético Peñarol | ||
Gælunafn/nöfn | Decano, Manyas, Aurinegros, Carboneros, Mirasoles | ||
---|---|---|---|
Stytt nafn | Peñarol | ||
Stofnað | 1891 | ||
Leikvöllur | Estadio Campeón del Siglo | ||
Stærð | 40.000 | ||
Stjórnarformaður | Juan Ignacio Ruglio | ||
Knattspyrnustjóri | Mauricio Larriera | ||
Deild | Úrúgvæska úrvalsdeildin | ||
2023 | 2. sæti | ||
|
Saga
breytaJárnbrautafélag Úrúgvæ (The Central Uruguay Railway company) var stofnað árið 1878 og var stýrt af Bretum, sem jafnframt voru stærstur hluti starfsmanna fyrirtækisins. Árið 1891 var stofnað íþróttalið innan fyrirtækisins sem var almennt þekkt undir skammstöfuninni CURCC. Fyrstu keppnisgreinar félagsins voru rúbbí og krikket, en á öðru starfsári voru knattspyrnæfingar teknar á keppnisskránna.
Fyrstu meistararnir
breytaCURCC var árið 1900 eitt fjögurra stofnliða úrúgvæsku deildarinnar og hampaði liðið meistaratitlinum þegar í fyrstu tilraun. Leikurinn var endurtekinn árin 1901, 1905 og 1907. Árið 1906 tók nýr stjórnandi við rekstri járnbrautarfyrirtækisins og neitaði hann að styrkja knattspyrnuliðið fjárhagslega. Vegna þessa og annarra deilumála var klippt á tengslin milli fyrirtækisins og knattspyrnuliðsins á árinu 1913.
Árið 1911 hlaut CURCC sinn fimmta og síðasta meistaratitil undir því nafni. Árið eftir reyndu stjórnendur félagsins að opna það fyrir iðkendum sem ekki störfuðu hjá járnbrautarfélaginu og lögðu til að tekið yrði upp heitið CURCC Peñarol. Hugmyndinni var hafnað og að lokum ákvað fyrirtækið að slíta á tengslin í lok árs 1913. Frá og með þeim tímamótum hófu flestir iðkendur félagsins að keppa undir nafni og merkjum Peñarol og daginn eftir fór fram fyrsti grannaslagurinn milli Nacional og Peñarol.
Peñarol hefur um áratuga skeið rakið sögu sína til 1891 en ekki 1913 og litið á meistaratitla CURCC sem sína. FIFA og Knattspyrnusamband Úrúgvæ hafa deilt þeirri túlkun. Ýmsir, þar á meðal ófáir stuðningsmenn Nacional, hafa þó bent á að járnbrautarfélagið hafi áfram haldið úti liði undir nafninu CURCC allt fram í ársbyrjun 1915 þegar það var leyst upp og verðlaunagripir félagsins færðir breska sjúkrahúsinu í Mentevídeó en ekki Peñarol.
C.A. Peñarol
breytaPeñarol tók sæti CURCC í úrúgvæsku deildarkeppninni árið 1914. Tveimur árum síðar var nýr heimavöllur, Las Acacias, tekinn í notkun. Fyrsti meistaratitillinn lét þó bíða eftir sér til ársins 1918. Árið 1922 var Peñarol vikið úr úrúgvæsku deildinni fyrir að hafa leikið vináttuleik gegn argentínsku félagsliði sem átti aðild að klofnings-knattspyrnusambandi í Argentínu. Þetta leiddi til klofnings úrúgvæsku deildarkeppninnar til ársins 1926 og má leiða líkum að því að Peñarol hafi fyrir vikið orðið af einhverjum meistaratitlum vegna þessa.
Árið 1927, eftir að búið var að sameina úrúgvæska knattspyrnuheiminn á ný, hélt Peñarol í keppnisferð til Evrópu og lék þar 19 kappleiki gegn liðum frá sex Evrópulöndum. Frammistaða úrúgvæska landsliðsins á ÓL 1924 olli því að mikill áhugi var á komu liðsins. Leikirnir 19 fóru fram á 80 daga tímabili og lauk með sjö sigrum, fjórum jafnteflum og átta ósigrum.
Atvinnumennska var formlega viðurkennd í úrúgvæsku knattspyrnunni fyrir leiktíðina 1932. Afleiðing þess varð sú að Peñarol og Nacional öðluðust yfirburðastöðu í landinu, sem varað hefur nær óslitið til þessa dags. Frá 1935 til 1938 varð félagið fjórfaldur meistari. Á fimmta áratugnum hampaði liðið meistaratitlinum þrisvar og á þeim sjötta fjórum sinnum.
Meistarar Suður-Ameríku
breytaMeistaratitillinn árið 1959 gaf Peñarol keppnisrétt í nýstofnaðri Suður-Ameríkukeppni, Copa de Campeones de América sem síðar varð betur þekkt undir heitinu Copa Libertadores. Fyrstu tvö skiptin sem keppnin var haldin, 1960 og 1961, fór Peñarol með sigur af hólmi. Fyrst eftir sigur á Olimpia frá Paragvæ og því næst Palmeiras frá Brasilíu. Seinna árið varð félagið heimsmeistari félagsliða eftir sigur á Benfica frá Portúgal. Peñarol varð úrúgvæskur meistari alls fimm ár í röð á árunum 1958-62, síðast undir stjórn hins kunna Béla Guttmann.
Þriðji Copa Libertadores-titillinn vannst árið 1966 eftir sigur á River Plate frá Argentínu. Sigurinn þýddi að Peñarol mætti Real Madrid í tveggja leikja einvígi um heimsmeistaratitilinn og vann 2:0 bæði heima og að heiman. Árið 1970 komst liðið enn á ný í úrslit Copa Libertadores en tapaði fyrir Estudiantes de La Plata. Á leiðinni í úrslitaleikinn vann Peñarol stórsigur á Valencia frá Venesúela, 11:2, sem enn er met í keppninni.
Árin 1982 og 1987 vann Peñarol Copa Libertadores í fjórða og fimmta sinn. Fyrst eftir sigur á Cobreloa frá Síle en í kjölfarið varð félagið heimsmeistari eftir sigur á Aston Villa. Í seinna skiptið voru mótherjarnir América de Cali frá Kólumbíu og vannst leikurinn með marki á lokasekúndunum.
Frá 1993-97 varð Peñarol á ný fimmfaldur meistari í heimalandinu. Í Suður-Ameríkukeppninni hefur liðinu hins vegar ekki tekist að endurtaka fyrri afrek enda fjárhagslegir burðir liðanna frá Úrúgvæ miklu minni en keppinautanna frá stærri löndum.
Titlar
breytaInnlendir
breyta- Úrúgvæskur meistari (51): 1900, 1901, 1905, 1907, 1911(*), 1918, 1921, 1928, 1929, 1932, 1935, 1936, 1937, 1938, 1944, 1945, 1949, 1951, 1953, 1954, 1958, 1959, 1960, 1961, 1962, 1964, 1965, 1967, 1968, 1973, 1974, 1975, 1978, 1979, 1981, 1982, 1985, 1986, 1993, 1994, 1995, 1996, 1997, 1999, 2003, 2009–10, 2012–13, 2015–16, 2017, 2018, 2021.
(*) Fyrstu fimm titlarnir eru umdeildir, enda unnir undir merkjum Central Uruguay Railway Cricket Club.
Erlendir titlar
breyta- Copa Libertadores (5): 1960, 1961, 1966, 1982, 1987.
- Heimsmeistarakeppni félagsliða (3): 1961, 1966, 1982.