Peter Andreas Munch

(Endurbeint frá P. A. Munch)

Peter Andreas Munch (15. desember 181025. maí 1863) var norskur sagnfræðingur og málfræðingur, og mikill áhrifamaður um mótun norskrar þjóðarvitundar. Hann er þekktastur fyrir rit sín um norska miðaldasögu, einkum Det norske Folks Historie í átta bindum.

P. A. Munch. Ljósmyndari ókunnur.
P. A. Munch. Mynd eftir Wihelm Obermann, úr Illustreret Tidende, 1862.

Æviferill

breyta

P.A. Munch fæddist í Kristjaníu. Foreldrar hans voru Edvard Storm Munch (1780–1847) stiftprófastur og Johanne Sophie Hofgaard (1791–1860) kona hans. Hann ólst upp á kirkjustaðnum Gjerpen á Þelamörk, þar sem faðir hans var sóknarprestur frá 1813. Samhliða heimakennslu föðurins aflaði hann sér víðtækrar þekkingar í tungumálum og sögu. Í lærða skólanum í Skien var hann í bekk með Anton Martin Schweigaard (síðar prófessor í lögfræði og stórþingsmanni), sem varð náinn vinur hans og stendur við hlið hans á stöpli utan við Háskólann í Ósló. Munch lauk stúdentsprófi 1828 og embættisprófi í lögfræði 1834. Á námsárunum hafði hann einsett sér að verða sagnfræðingur. Hann varð lektor í sagnfræði við Háskólann í Ósló 1837 eftir að hafa unnið við rannsóknir í söfnum í Kaupmannahöfn, og prófessor 1841. Hann var settur ríkisskjalavörður 1861–1863.

Auk rita um sagnfræðileg efni, liggur eftir Munch fjöldi verka um margvísleg efni, allt frá málvísindum og kortagerð til fræðirita fyrir almenning. Hann vann í nokkur ár sem aðstoðarmaður Rudolfs Keysers við útgáfu á fyrstu þremur bindunum af Norges gamle love, sem komu út 1846–1849. Hann gaf út mörg önnur heimildarrit, m.a. Konungsskuggsjá (Speculum regale), Munkelivs jordebok, Historia Norvegiae og Chronica Regum Manniae et Insularum, sem sum hver höfðu verið óþekkt eða ónotuð af fræðimönnum. Á árunum 1845–1854 fór hann í nokkrar rannsóknarferðir til nágrannalandanna, m.a. til Normandí, Skotlands og Orkneyja, til þess að leita að og skrifa upp mikilvægar heimildir frá fyrri öldum.

Munch átti í sífelldum fjárhagsvandræðum og varð stöðugt að bæta á sig vinnu og ritstörfum til að drýgja tekjurnar frá Háskólanum. Hann var lengi ritstjóri og mikilvægasti greinarhöfundur Norsk Maanedsskrift. Hann teiknaði bestu landakort af Noregi sem gefin voru út á hans dögum, og hann var snjall málfræðingur. Hann náði góðum tökum á fornmálinu (norrænu), og varð brátt ákafur talsmaður þess að Norðmenn kæmu sér upp eigin ritmáli, sem byggt væri á þeim þáttum úr fornmálinu, sem enn væru lifandi í norskum mállýskum. Hann studdi því Ivar Aasen við mállýskurannsóknir og mótun nýnorskunnar. Hann vann markvisst að því að leggja grunn að sjálfstæðri menningarstarfsemi í Noregi og gagnrýndi danska fræðimenn fyrir tilhneigingu þeirra til að fjalla um fornbókmenntirnar sem „fornnorræna“ sameign, og breiða þannig yfir uppruna þeirra á Íslandi og í Noregi.

Árið 1851 byrjaði hann á höfuðverki sínu, Det norske Folks Historie, og hafði þegar hann dó náð að fjalla um sögu Noregs frá upphafi til 1397. Verkið hefur ekki síst gildi vegna þess mikla efnis sem þar er dregið saman og sett fram með hugkvæmni og mikilli yfirsýn, sem leiðir oft til sannfærandi niðurstöðu. Verkið er skrifað af hugsjón og innlifun, og hefur enn sitt gildi fyrir sagnfræðinga.

Árið 1859 fór Munch með fjölskyldu sinni til Rómar. Hann hafði fengið leyfi til að leita að heimildum um sögu Noregs í skjalasafni Páfagarðs í Vatíkaninu, og var hann með fyrstu mótmælendum sem fengu slíkt leyfi. Tveimur árum seinna, 1861, fór hann til Kristjaníu til þess að halda áfram útgáfu á hinu mikla riti sínu um sögu Noregs, en fjölskyldan varð eftir í Róm. Árið 1863 fór hann aftur til Rómar, en fékk skömmu síðar heilablóðfall, þegar hann á heitum vordegi ætlaði að kæla höfuð sitt í gosbrunni. Meginástæðan var þó ofþreyta eftir mikla vinnutörn. Hann dó í Róm 25. maí 1863, eftir stutta sjúkdómslegu, og var jarðsettur í grafreit mótmælenda þar.

Munch kvæntist 1835 Nathalie Charlotte Linaae (18121900) frá Larvík. Þau eignuðust fjögur börn, þrjár dætur og einn son.

P. A. Munch var föðurbróðir listmálarans Edvards Munchs.

Helstu ritverk

breyta

Þýðingar, útgáfur og safnrit eru ekki tekin hér með.

  • Norges, Sveriges og Danmarks Historie til Skolebrug (1838) Google Books
  • Norges Historie i kort Udtog for de første Begyndere (1839)
  • Nordens gamle Gude- og Helte-Sagn i kortfattet Fremstilling (1840)
  • Verdenshistoriens vigtigste Begivenheder (1840)
  • De nyeste Tiders Historie (1842)
  • Fortegnelse over de mest befarede Landeveie og Reiserouter saavel mellem Stæderne, som Landdistricterne i Norge (1846)
  • Det oldnorske Sprogs eller Norrønasprogets Grammatik (med C. R. Unger, 1847) Google Books
  • Underholdende Tildragelser af Norges Historie (1847)
  • Nordmændenes Gudelære i Hedenold (1847)
  • Det gotiske Sprogs Formlære (1848) Google Books
  • Kortfattet Fremstilling af den ældste norske Runeskrift (1848) Google Books
  • Om Skandinavismen (1849) Google Books
  • Historisk-geographisk Beskrivelse over Kongeriget Norge (Noregsveldi) i Middelalderen (1849) Google Books
  • Det norske Folks Historie (18521863, 8 bindi) Project Runeberg
  • Om den saakaldte nyere historiske Skole i Norge (1853)
  • Nordmændenes ældste Gude- og Helte-Sagn (1854) NBdigital[óvirkur tengill]
  • Nordens ældste Historie (1872)
  • Samlede afhandlinger 1–4, Kristiania 1873–1876. — Gustav Storm gaf út.

Heimildir

breyta

Tenglar

breyta