Kristjanía (Ósló)

Kristjanía var nafn, sem á árabilinu 1624–1925 var notað um Osló.

Gamla Osló brann til grunna um miðjan ágúst 1624. Kristján 4. Danakonungur tók þá ákvörðun að borgin skyldi ekki endurreist á sama stað, heldur skyldi hún flutt um set, til norðvesturs, yfir á svæðið norðan við Akershúsvirkið. Þar var byggð ný borg, með breiðum götum, til þess að auðvelda brunavarnir. Til heiðurs konungi, var borgin kölluð Kristjanía. Nafnið var lengst af skrifað Christiania, nema á árabilinu 1877–1925 þegar oft var ritað Kristiania, fyrst í opinberum gögnum, síðan almennt.

Árið 1859 voru mörk Kristjaníu færð út, og varð gamla Osló þá aftur innan borgarmarkanna. Hún er nú sérstakt hverfi, Gamlibærinn (norska: Gamlebyen).

Í ársbyrjun 1925 ákváðu borgaryfirvöld í Kristjaníu að taka aftur upp gamla nafnið á borginni, Osló (Oslo).

Heimildir breyta

  • Nýnorska og norska Wikipedian, 20. maí 2008.