Historia Norvegiæ

(Endurbeint frá Historia Norvegiae)

Historia Norvegiæ (íslenska: Saga Noregs) er stutt yfirlit um sögu Noregs að fornu, samið á latínu á seinni hluta 12. aldar. Talið er að höfundurinn hafi verið norskur munkur, og e.t.v. búið austanfjalls.

Handritið

breyta

Historia Norwegiæ – (skammstafað HN) – hefur aðeins varðveist í einu pappírshandriti, sem er í einkaeign jarlsins af Dalhousie í Skotlandi. Það var lengst af geymt á heimili jarlsins í Brechin kastala norðan við Dundee, en jarlinn kom því árið 1998 til geymslu í Þjóðskjalasafni Skotlands í Edinborg. P. A. Munch frétti af handritinu í Skotlandi og lét prenta textann árið 1850 í bókinni Symbolæ ad Historiam Antiquiorem Rerum Norvegicarum. Handritið var áður talið frá 15. öld, en skv. nýjustu rannsóknum er það frá árabilinu 1500–1510. Skrifarinn virðist hafa starfað í Láglöndum Skotlands fyrir Henry Lord Sinclair (d. 1513) afkomanda Williams Sinclair, sem var Orkneyjajarl til 1470. Því hefur verið giskað á að HN hafi verið skrifuð eftir skinnbók frá Orkneyjum. Meðal efnis í handritinu er:

  • 1. Historia Norvegiæ (blað 1r – 12r)
  • 2. Ættarskrá Orkneyjajarla (blað 12v – 17v)
  • 3. Listi yfir Noregskonunga til Eiríks af Pommern (ríkti 1396-1439) (blað 18r – 18v)
  • 4.–8. Chronicon Scotiæ, og fleiri gögn um sögu Skotlands, þau yngstu frá því um 1490 (blað 18v – 35v). Á milli blaða 23 og 24 vantar eitthvað í handritið.

Hluti af konungatalinu í 9. og 10. kafla HN var tekið upp í tvö sænsk handrit á árabilinu 1350–1430, sem sýnir að HN hefur þá verið þekkt í Svíþjóð.

Innihald Sögu Noregs

breyta

Historia Norvegiæ hefst á stuttri landlýsingu, sem nær yfir Noreg og þau lönd sem þaðan byggðust, m.a. Ísland. Á eftir fylgir stutt saga Noregs fram á daga Ólafs helga. Frásögnin endar í miðju kafi, og hefur því verið haldið fram að vantað hafi aftan á handritið sem skrifað var eftir og því sé HN aðeins upphaf að mun lengra riti sem náð hafi fram á daga höfundarins. E.t.v. hefur ritinu þó aldrei verið lokið. HN er yfirlitsrit í sama anda og Ágrip af Noregskonungasögum og verk Þjóðreks munks. Hún er talin elst þeirra, líklega rituð á árabilinu 1160 – 1175, þó að talsvert hafi verið um það deilt.

Íslandslýsingin í HN er með þeim elstu sem til eru. Einnig er í HN að finna sjálfstæða latneska gerð af Ynglingatali Þjóðólfs af Hvini, sem er óháð Ynglinga sögu í Heimskringlu. Þá eru áhugaverðar í augum þjóðfræðinga lýsingar á töframönnum Sama. Loks er HN elsta skriflega heimildin um marga þá sögulegu atburði sem lýst er.

Útgáfur og þýðingar

breyta

Áður er minnst á frumútgáfu P. A. Munch, frá 1850. Gustav Storm sá um aðra útgáfu 1880, og var hún lengi sá texti sem vitnað var til. Ný útgáfa með ítarlegum skýringum birtist 2003, sjá heimildaskrá.

Historia Norvegiae hefur ekki enn verið þýdd á íslensku (nema stuttir kaflar), en til eru þýðingar á norsku og nýnorsku og tvær á ensku.

Heimildir

breyta
  • P. A. Munch: Symbolæ ad Historiam Antiquiorem Rerum Norvegicarum. Kristiania 1850. — Frumútgáfa
  • Gustav Storm (útg.): Monumenta historica Norvegiæ: Latinske kildeskrifter til Norges historie i middelalderen, Kristiania 1880.
  • Inger Ekrem (útg.), Lars Boje Mortensen (útg.) og Peter Fisher (ensk þýð.): Historia Norwegie. Museum Tusculanum Press. Kbh. 2003. ISBN 87-7289-813-5
  • Michael Chesnutt: The Dalhousie Manuscript of the Historia Norvegiae. Bibliotheca Arnamagnæana, Vol. XXXVIII, Kbh. 1985, 54-95.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Historia Norwegiæ“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 26. nóvember 2008.

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta