Orrustan við Hemmingstedt

Orrustan við Hemmingstedt var háð þann 17. febrúar árið 1500 við þorpið Hemmingstedt í Þéttmerski. Þar réðu heimamenn niðurlögum innrásarhers Hans Danakonungs og bandamanna hans, Holtseta og málaliða frá Niðurlöndum. Sigurinn tryggði Þéttmerski áframhaldandi sjálfstæði og var eitt af því sem stuðlaði að falli Kalmarsambandsins.

Bændalýðveldið Þéttmerski breyta

Árið 1319 höfðu bændur í Þéttmerski orðið sigursælir í uppreisn gegn lénsherrum sínum og stofnað lýðveldi. Að nafninu til játaði það erkibiskupnum af Brimum hollustu sína, en var í reyndinni sjálfstætt. Stjórnsýsluumdæmi lýðveldisins voru kirkjusóknir Þéttmerskis, og sameiginlegum málum var ráðið til lykta á árlegu þingi sem fulltrúar 48 málsmetandi fjölskyldna sátu. Þar sem lýðveldinu stóð stöðug ógn af hertoganum af Steinburg og öðrum aðalsmönnum, kom það á fót tiltölulega öflugu heimavarnarliði sem samanstóð af öllum vopnfærum karlmönnnum í héraðinu. Þéttmerskir vörðust nokkrum innrásum nágranna sinna og héldu þannig sjálfstæði sínu, allt til ársins 1559.

Hans Danakonungur safnar liði breyta

Hans, konungur Kalmarsambandsins, sem einnig var hertogi í Holtsetalandi, braut á bak aftur uppreisn í Svíþjóð skömmu fyrir aldamótin 1500. Til þess naut hann fulltingis málahers sem hafði aðsetur í Niðurlöndum og gekk undir nafninu Svarti vörðurinn (Schwarze Garde á þýsku). Höfuðsmaður þeirra var prússneskur junkari að nafni Schlentz, og sérhæfði Svarti vörðurinn sig í því að bæla niður uppreisnargjarna bændur og barðist víða um Norður-Evrópu, meðal annars á Fríslandi og á Norðurlöndum. Málaliðarnir voru af ýmsu þjóðerni, meðal annars Þjóðverjar, Spánverjar og Hollendingar. Eftir að þeir höfðu reynst konungi vel í að vinna Stokkhólm aftur á sitt vald, ákvað Hans að nota hina dýru málaliða til hins ítrasta og beindi athygli sinni að Þéttmerski. Hann safnaði liði meðal bænda á Jótlandi og fékk auk þess greifa og hertoga í Holtsetalandi og riddara hvaðanæva að frá Norður-Þýskalandi til liðs við sig. Þessi her taldi alls milli 10.000 og 12.000 menn. Þar af voru 4000 atvinnuhermenn (fótgönguliðar) úr Svarta verðinum, á að giska 2000 riddarar, flestir þýskir, um 5000 fótgönguliðar, flestir Jótar og Holtsetar. Auk þessa bjó her konungs yfir allmiklu stórskotaliði með um 1000 mönnum og hafði fjölda trússvagna, ekki bara til að flytja birgðir fyrir herinn heldur ekki síður til að flytja fyrirhugað herfang í burtu. Þessum her var stefnt til Þéttmerskis í ársbyrjun árið 1500 og bjuggust menn við auðveldum sigri, en talið var að vopnfærir karlar í Þéttmerski væru ekki fleiri en kannski 6000 ef allt var talið.

Innrásin breyta

Herinn hélt inn í héraðið og stefndi fyrst til höfuðstaðar þess, Meldorf. Þar varð fátt um varnir, og fóru hermennirnir og málaliðarnir ránshendi um þorpið með ránum, drápum, nauðgunum og eldi. Flestir þorpsbúar komust undan á flótta, en þeir sem ekki komust undan urðu hart úti. Fall og örlög Meldorf spurðist hratt út um héraðið og bændur Þéttmerskis hittust á neyðarfundi. Vildu þeir í fyrstu flestir gefast upp fyrir ofureflinu, en eldhugi að nafni Wulf Isebrand, aðfluttur frá Hollandi, mælti fyrir almennu herútkalli og að menn snerust til varnar. Hans sjónarmið varð ofan á, og var nú sent út neyðarkall og allir sem gátu bjuggu sig undir átök. Á meðan luku innrásarmenn sér af í Meldorf. Herferðin var dýr, og því vildi Hans fyrir alla muni drífa hana af. Bandamenn hans töldu aðstæður ekki henta til að halda strax áfram og vildu bíða eftir að veðrið batnaði, en Hans fékk að ráða. Veður var válynt, hlákuslydda og fjúk, vegir illfærir fyrir fallbyssuvagna og trússvagna. Menn Hans voru það sigurvissir að þeir sendu ekki marga njósnara á undan sér. Einn þeirra féll í hendur heimamönnum, sem píndu hann til sagna og fengu að vita að hernum yrði næst stefnt til Hemmingstedt.

Vörnin breyta

Um leið og heimamenn urðu þess áskynja að Hemmingstedt væri næsta skotmark, bjuggust þeir til að mæta fjendum sínum þar. Þeir höfðu lítið lið -- sumir segja ekki meira en 300 menn, en rétt tala hleypur líklega á einhverjum þúsundum. Þeir byrjuðu á að rjúfa upphækkaðan veginn sem þeir vissu að herinn mundi ferðast eftir. Sín megin hlóðu þeir upp skans og uppi á honum stilltu þeir upp nokkrum fallbyssum sem þeir áttu. Þeir grófu gildrur og síki í akrana í kring, og því næst rufu þeir skarð í flóðgarðana sem héldu öldum Norðursjávar í skefjum, svo sjór flæddi yfir vígvöllinn og hann breyttist í eina samfellda for. Þannig tryggðu þeir að óvinaherinn mundi lenda í „flöskuhálsi“ og gæti ekki fylkt liði né nýtt sér hinn gríðarlega aflsmun. Wulf Isebrand var höfuðsmaður varnarliðsins. Sér til halds og trausts hétu þeir á dísina Telse og Maríu mey (heróp þeirra var „Help, Maria milde“, „Hjálp, milda María“ á frísnesku).

Svarti vörðurinn fór fremstur, næst kom riddaraliðið, eftir það fótgönguliðið, en stórskotaliðið og trússvagnarnir festust að mestu leyti í aurnum á veginum og komu að litlu gagni. Þar sem vegurinn einn var fær, fór hinn stóri her eftir honum í langri halarófu, svo þegar Svarti vörðurinn kom að skansi heimamanna var bakvarðasveitin ennþá í Meldorf, sem liggur ekki langt frá Hemmingstedt. Þéttmerskir höfðu þétta slyddu í bakið, svo árásarmenn höfðu vindinn í fangið og skyggnið var slæmt fyrir þá. Svarti vörðurinn réðst beint til atlögu með brugðna branda og heróp sitt á vörum sér: „Wahr Di, Buer, de Gaar de kummt!“ (frísneska fyrir „Varið ykkur, bændur, hér kemur Vörðurinn!“). Þéttmerskir hrundu fyrsta áhlaupi þeirra á skansinn, einnig öðru áhlaupi og þegar þeir hrundu því þriðja hófu þeir gagnsókn og sneru líka herópinu við: „Warr Di, Garr, de Buer de kummt!“ -- „Varið ykkur, Verðir, hér koma bændurnir!“ Orrustan var hörð og miskunnarlaus og engir fangar voru teknir. Þótt kalt væri í veðri fóru sumir heimamanna úr stígvélum og herklæðum og notuðu löng spjót sín til að fara um akrana í kring á stangastökki og gátu þannig umkringt og skotið á árásarherinn, sem kom litlum vörnum við. Flótti brast á lið Svarta varðarins og á æsilegum flóttanum duttu margir riddaranna af baki, ofan í forina og drukknuðu þar sem þeir komust ekki upp úr henni. Aðrir voru drepnir þar sem þeir lágu. Sjálfur Hans konungur komst naumlega undan á flótta og missti um 7000 menn fallna (flestir drukknuðu) og um 1500 særða, eða meirihluta hers síns. Mannfall heimamanna er ekki þekkt. Þéttmerskir tóku mikið herfang, bæði fallstykki og önnur vopn, hesta, vagna og fleira -- auk þess sem þeir tóku gunnfána Danakonungs, sem var sagður vera hinn upphaflegi Dannebrog-fáni sem átti að hafa fallið af himnum ofan í orrustu í Eistlandi löngu fyrr. Fáninn var hengdur upp í kirkjunni í Meldorf, en glataðist síðar (auk þess sem heimildir eru misvísandi).

Hóllinn sem skansinn var hlaðinn á, og vígvöllurinn allt um kring, fékk nafnið Dusenddüwelswarf -- Þúsunddjöflahæð -- og heitir enn.

Þessi algeri ósigur Hans konungs sló felmtri á aðalinn í Evrópu, þar sem bændaher hafði sannað sig í orrustu gegn atvinnuhermönnum og aðalbornu riddaraliði. Hann varð konungi einnig pólitískur og persónulegur álitshnekkir, og jók óvinum hans innan Kalmarsambandsins kjark til að halda áfram baráttunni gegn honum, sem leiddi á endanum til þess að Svíar sögðu sig úr sambandinu.

Þjóðsögur og arfleifð breyta

 
Dusenddüwelfswarf í dag

Eins og nærri má geta spunnust miklar þjóðsögur um þennan frækna sigur Þéttmerska á ofureflinu. Meðal annars var sagt að dísin Telse hefði birst þeim á skansinum og barist með þeim. Einnig er sagt að eiginkona Wulf Isebrand sjálfs hafi verið komin á steypirinn, og strax eftir orrustuna hafi Isebrand fengið þá frétt að honum væri fæddur sonur. Glæst saga Þéttmerskis varð vinsælt yrkisefni. Þegar þjóðernisvakning nítjándu aldar blossaði upp, varð þessi saga innblástur fyrir sterka þjóðerniskennd í Þéttmerski og varð stuðningur við nasista snemma mjög mikill og sterkur í héraðinu. Árið 1900, er 400 ár voru liðin frá orrustunni, var gríðarstórt minnismerki reist til minningar um hana, og stendur enn. Árið 2000, á 500 ára afmælinu, var sýningarskáli fyrir ferðamenn opnaður við hliðina á minnismerkinu, þar sem saga lýðveldisins og sjálf orrustan eru raktar, og hægt að skoða líkan af vígvellinum. Í bæjum og þorpum Þéttmerskis eru enn í dag götur og torg kennd við hetjur orrustunnar, einkum Wulf Isebrand sjálfan og dísina Telse. Orrustan um Hemmingstedt er talin skólabókardæmi um þekkingu og hugvitssamlega notkun á landsvæði í herstjórnarlist.