Frísland (frísneska: Fryslân, hollenska: Friesland) er þriðja stærsta fylki Hollands, 5.748 km2. Fylkið er að hluta til á fastalandinu en því tilheyra einnig nokkrar eyjar í Vaðhafinu. Frísland er eina fylki Hollands þar sem frísneska er töluð sem opinbert mál, auk hollensku.

Fáni Skjaldarmerki
Fáni
Fáni
Skjaldarmerki
Upplýsingar
Höfuðborg: Leeuwarden
Flatarmál: 5.748 km²
Mannfjöldi: 647.280
Þéttleiki byggðar: 194/km²
Vefsíða: [1][óvirkur tengill]
Lega

Lega og lýsing

breyta

Frísland liggur við Vaðhafið og við Ijsselmeer nyrst í Hollandi. Önnur héruð sem að Fríslandi liggja eru Groningen og Drenthe í austri, Overijssel og Flevoland í suðri. Frá Fríslandi er hægt að aka eftir sjóvarnargarði yfir Ijsselmeer til fylkisins Norður-Hollands. Til Fríslands heyra vestur-frísnesku eyjarnar Vlieland, Terschelling, Ameland og Schiermonnikoog. Íbúar Fríslands eru 647 þúsund. Höfuðborgin er Leeuwarden. Stór hluti Fríslands er undir sjávarmáli, sérstaklega í suðri og vestri. Hæsti punktur fylkisins er 45 metra yfir sjávarmáli og er á eyjunni Vlieland. Á fastalandinu er hæsti punkturinn 12 metra yfir sjávarmáli.

Fáni og skjaldarmerki

breyta

Fáni Fríslands er með fjórum bláum og þremur hvítum skáröndum. Í hvítu röndunum eru samtals sjö vatnaliljublöð. Blöðin tákna hinar sjö fornu sýslur sem mynduðu fylkið á miðöldum. Elstu heimildir um þær eru frá 11. öld. Skjaldarmerkið er miklu yngra, en það var formlega tekið upp 9. júlí 1957. Það skartar tveimur gylltum ljónum á bláum fleti. Ljónin eru merki greifanna af Hollandi annars vegar og biskupanna frá Utrecht hins vegar, en þeir áttu ítök í fylkinu á miðöldum. Ytra skrautið, ljónaberarnir og kórónan, eru nýrri tíma viðbætur.

Orðsifjar

breyta

Frísland heitir eftir germanska þjóðflokkinum Frísum sem bjuggu á svæðinu forðum (og búa enn). Heitið var áður fyrr notað yfir miklu stærra svæði, en forðum var talað um Frísland frá Norður-Hollandi allt til Suður-Jótlands. Með tímanum þrengdist það landsvæði sem heitið var notað um. Nú eru Austur-Frísland og Norður-Frísland innan marka Þýskalands. Þjóðverjar kalla hollenska fylkið enn Vestur-Frísland, en það veldur oft misskilningi, því Hollendingar sjálfir kalla fylkið Norður-Holland gjarnan Vestur Frísland, þar sem það var vestasti hluti hins gamla Fríslands. Á frísnesku heitir fylkið opinberlega Fryslân. Frísar kalla fylkið oft It Heitelân, sem merkir föðurlandið.

Söguágrip

breyta

Frísland var áður fyrr miklu stærra svæði og var hluti af ríki Franka. Á miðöldum lagði hið heilaga rómverska ríki austurhluta landsins undir sig, en greifarnir af Hollandi innlimuðu alltaf stærri og stærri hluta þess í vestri. Eftir stutt sjálfstæðistímabil á 15. öld gengu Frísar í raðir Hollendinga í uppreisn þeirra gegn Spánverjum. Frísland varð eftir það að nokkuð sjálfstæðri einingu í hollenska ríkinu. Til dæmis kom fylkið sér upp eigin herflota, enda lá landið vel að sjó. Frakkar innlimuðu Frísland á sínum tíma í Batavíska lýðveldið, en síðan 1815 er Frísland fylki í Hollandi.

Borgir

breyta

Stærstu borgir í Fríslandi:

Röð Borg Íbúar Ath.
1 Leeuwarden 96 þúsund Höfuðborg fylkisins
2 Drachten 44 þúsund
3 Heerenveen 43 þúsund

Heimildir

breyta