Norræn goðafræði
Norræn goðafræði er samnefni yfir goðafræði þeirra heiðnu trúarbragða sem voru áður fyrr iðkuð á Norðurlöndum öllum og áhrifasvæðum þeirra. Hún er þekktasta grein germanskrar goðafræði. Trú á hana lagðist víðast hvar af um það leyti sem kristni breiddist yfir Norðurlönd. Í dag er trúin stunduð á Íslandi og víða erlendis undir heitinu ásatrú. Ásatrúarfélagið er skráð trúfélag á Íslandi.
Heimildir
breytaNorræn goðafræði hafði aldrei neitt höfuðrit og átrúnaðurinn var líklega ekki mjög formfastur. Helstu heimildir um goðafræðina eru nokkur rit, flest rituð á Íslandi eftir að kristni var lögtekin. Það eru helst Eddukvæði, sem sagt er að Sæmundur fróði hafi tekið saman, en eru þó líklega mun eldri að uppruna (og þar með frá tímum þeim er trúin var iðkuð) og rit eftir Snorra Sturluson til dæmis Snorra-Edda.
Goð
breytaGoð skiptast í tvær fylkingar, æsi og vani. Ættfaðir ása er Óðinn, sonur Bors og Bestlu. Bor var sonur Búra, sem sleiktur var úr hrími af kúnni Auðhumlu, en Bestla var jötunn. Vanir voru færri en æsir, og koma minna við sögu í goðafræðinni, nema Njörður og börn hans Freyja og Freyr sem voru mikið dýrkuð. Meðal helstu ása voru Þór, Baldur, Loki og Frigg. Svo virðist sem að vanir hafi aðallega verið frjósemisgoð og er talið að þeir gætu hafa verið leifar eldri trúarbragða sem urðu undir við þjóðflutninga.
Norræn goðafræði hefur, auk goða, ýmsa vætti og verur sem ekki teljast til goða en eru þó mörg mjög kröftug og mikilvæg. Þeirra fremst eru jötnar, mestu óvinir goðanna, sem þó eru yngri í heiminum en jötnar. Þar að auki eru margar verur sem eru hálf-jötnakyns og hálf-ásakyns, þeirra á meðal börn Loka Fenrisúlfur, Miðgarðsormur og Hel. Hlutverk goðanna voru margvísleg, þau eiga öll einhverja sérstaka eiginleika og virka sem bæði fyrirmyndir og vættir sem fólk getur beðið um hjálp til með því að blóta.
Fleiri nöfn má nefna eins og Mímir, Bifröst, Heimdallur, Bragi, Iðunn, Týr, Sigyn, Sif.
Heimsmynd
breytaHeimsmynd manna á 17. öld um heimsýn norrænna manna var sú að jörðin væri flöt sbr. myndina er hér fylgir. Lítið er vitað um heimsýn norrænna manna en margt bendir til að norrænir menn hafi talið jörðina hnöttótta. Jörðin var sögð sköpuð af Óðni, Vilja og Vé úr líkama jötunsins Ýmis. Himinkringlan var sköpuð úr höfuðkúpu hans, sjórinn úr blóði hans, fjöllin úr beinunum og þar fram eftir götunum. Í gegnum miðjan heiminn kom tréð Askur Yggdrasils. Ein rót þess var í Niflheimum, sem voru eins konar undirheimar, þangað sem flestir fóru þegar þeir dóu. Þar var ríki Heljar. Önnur rót trésins var þar fyrir ofan, á jörðinni, með Miðgarði, ríki mannanna. Annars ber Eddukvæðum ekki saman við Snorra Sturluson um legu rótanna. Frá jörðinni lá regnbogabrú upp til himna, Bifröst. Þar var goðið Heimdallur tilbúinn að vara hin goðin við innrás. Uppi á himnum var aðsetur ása, Ásgarður og þriðja rót Yggdrasils.