Sigyn
Sigyn er gyðja í norrænni goðafræði. Hún er eiginkona Loka og á með honum soninn Narfa. Minnst er á Sigyn í ýmsum íslenskum heimildum: Í Sæmundareddu, sem var unnin upp úr eldri heimildum á 13. öld, og í Snorra-Eddu.
Eina goðsagan þar sem Sigyn birtist í mikilvægu hlutverki er sagan um refsingu Loka eftir víg Baldurs. Í sögunni binda æsirnir Loka niður með þörmum sonar hans og hengja nöðru fyrir ofan hann svo eitrið drjúpi úr gini hennar í andlit Loka. Sigyn bregður þá á það ráð að standa yfir eiginmanni sínum með skál til þess að grípa eitrið áður en það drýpur framan í Loka. Öðru hverju þarf hún að bregða sér frá til þess að hella úr skálinni. Þá drýpur eitrið framan í Loka, sem skekur sig svo af sársauka að kippir hans valda jarðskjálftum.
Mynd af Sygin með skál sína yfir Loka er á Gosforth-krossinum frá 10. öld á Englandi. Einnig vísar kvæðið Haustlöng í Snorra-Eddu til Sigynjar.
Nafnsifjar
breytaNafnið Sigyn er samsett úr orðunum „sigur“ og „að unna“ og gæti því útfærst sem „sú sem ann sigri“.[1]
Ritaðar heimildir um Sigyn
breytaÍ eftirmála kvæðisins Lokasennu í Sæmundareddu er stutt frásögn af fjötrun Loka og er þar vikið að hlutverki Sigynjar. Þar stendur:
En eftir þetta falst Loki í Fránangrsforsi í lax líki. Þar tóku æsir hann. Hann var bundinn með þörmum sonar síns, Vála, en Narfi, sonr hans, varð at vargi. Skaði tók eitrorm ok festi upp yfir annlit Loka. Draup þar ór eitr. Sigyn, kona Loka, sat þar ok helt munnlaug undir eitrið. En er munnlaugin var full, bar hon út eitrið, en meðan draup eitrit á Loka. Þá kippðist hann svá hart við, at þaðan af skalf jörð öll. Þat eru nú kallaðir landsskjálftar.[2] |
Vikið er að sömu goðsögu í Völuspá. Þar vitjar Óðinn völvu og hlýðir á ýmsar fregnir og forspár. Í 35. versi kvæðisins lýsir völvan fjötrun Loka og segir að Sigyn sitji hjá honum:
|
Í Gylfaginningu í Snorra-Eddu birtist áþekk frásögn af fjötrun Loka.
Nú var Loki tekinn griðalauss ok farit með hann í helli nökkurn. Þá tóku þeir þrjár hellur ok settu á egg ok lustu rauf á hellunni hverri. Þá váru teknir synir Loka, Váli ok Nari eða Narfi. Brugðu æsir Vála í vargslíki ok reif hann í sundr Narfa, bróður sinn. Þá tóku æsir þarma hans ok bundu Loka með yfir þá þrjá eggsteina. Stendr einn undir herðum, annarr undir lendum, þriði undir knésbótum, ok urðu þau bönd at járni. Þá tók Skaði eitrorm ok festi upp yfir hann, svá at eitrit skyldi drjúpa ór orminum í andlit honum, en Sigyn, kona hans, stendr hjá honum ok heldr mundlaug undir eitrdropa. En þá er full er mundlaugin, þá gengr hon ok slær út eitrinu, en meðan drýpr eitrit í andlit honum. Þá kippist hann svá hart við, at jörð öll skelfr. Þat kallið þér landskjálfta. Þar liggr hann í böndum til ragnarökrs."[4] |
Í Gylfaginningu er það Narfi, sonur Loka og Sigynjar, sem er drepinn og þarmar hans notaðir til að fjötra Loka. Hann biður bana þegar æsirnir breyta bróður hans, Vála, í úlf og láta hann rífa Narfa á hol. Þessu er öfugt farið í Lokasennu, en þar er það Narfi sem breytist í úlf og Váli sem er drepinn. Í 33. kafla Gylfaginningar er tekið fram að Narfi sé sonur Loka og Sigynjar en ekki er ljóst hvort Sigyn er einnig móðir Vála eða hvort Váli er launsonur Loka með einhverri frillu sinni.
Fornleifar
breytaÁ Gosforth-krossinum frá 10. öld í Kumbaralandi í norðurhluta Englands eru ýmsar myndlýsingar bæði af kristnum og heiðnum goðsögum. Ein af myndunum á krossinum virðist vera af Loka hlekkjuðum og af Sigyn standandi með skálina til að grípa eitur nöðrunnar sem hangir yfir honum. Þessi mynd kallast á við aðra mynd á krossinum sem sýnir krossfestingu Jesú Krists og Maríu Magdalenu að hjálpa honum. Þessi líkindi milli atriðanna benda til þess að nokkurs konar upplýsingamiðlun kristinna hugmynda hafi farið fram með hjálp heiðinna goðsagna og að hér hafi goðsagan um Loka og Sigyn verið notuð til að gefa sögunni af Kristi aukið samhengi.[5]
Tilvísanir
breyta- ↑ „Merkingar nafna“. Áttavitinn. Sótt 4. mars 2019.
- ↑ „Lokasenna“. Heimskringla.no. Sótt 4. mars 2019.
- ↑ „Völuspá“. Heimskringla.no. Sótt 4. mars 2019.
- ↑ „Gylfaginning“. Heimskringla.no. Sótt 4. mars 2019.
- ↑ Richard Bailey (2000). Scandinavian Myth on Viking-age Sculpture in England. Old Norse Myths, Litterature and Society. bls. 15-23.