Nikita Krústsjov

Sovéskur stjórnmálamaður (1894-1971)

Níkíta Sergejevítsj Khrústsjov (Ники́та Серге́евич Хрущёв) (17. apríl 189411. september 1971) var eftirmaður Stalíns sem aðalritari sovéska kommúnistaflokksins. Hann var litríkur persónuleiki, lítill, þybbinn og sköllóttur, og vakti oft athygli fyrir óvenjulega framkomu. Frægt varð þegar hann eitt sinn hélt ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, fór úr öðrum skónum og lamdi honum í ræðupúltið til að leggja áherslu á orð sín. Khrústsjov stóð fyrir „af-Stalínvæðingu“ Sovétríkjanna, fyrir byrjun sovéskra geimrannsókna og fyrir nokkrum frjálslyndisumbótum í innanríkismálum. Flokksfélagar Khrústsjov steyptu honum af stóli árið 1964 og komu Leoníd Bresnjev til valda í hans stað.

Níkíta Khrústsjov
Никита Хрущёв
Nikita Khruchchev Colour.jpg
Aðalritari sovéska kommúnistaflokksins
Í embætti
14. september 1953 – 14. október 1964
Forsætisráðherra Sovétríkjanna
Í embætti
27. mars 1958 – 14. október 1964
Persónulegar upplýsingar
Fæddur17. apríl 1894
Kalínovka, Úkraínu, rússneska keisaradæminu
Látinn11. september 1971 (77 ára) Moskvu, Sovétríkjunum
StjórnmálaflokkurKommúnistaflokkur Sovétríkjanna
MakiJefrosínja Khrústsjova (1914–19, lést); Marúsja Khrústsjova (1922, skilin); Nína Kúkharchúk (Khrústsjova) (1923–71)
BörnJúlía (1915–81), Leoníd (1917–43), Rada (1929–2016), Sergei (1935–), Elena (1937–72)
HáskóliIðnháskólinn í Moskvu
StarfVerkfræðingur, stjórnmálamaður
Undirskrift

ÆviágripBreyta

Khrústsjov fæddist árið 1894 í þorpinu Kalínovka, sem er í dag við landamæri Rússlands og Úkraínu. Hann vann sem járnvinnslumaður á unga aldri og var pólitískur þjóðfulltrúi í hernum á meðan rússneska borgarastyrjöldin stóð yfir. Með hjálp Lazars Kaganovítsj vann hann sig upp metorðastigann í stjórn Sovétmanna. Hann studdi hreinsanir Stalíns og staðfesti handtökur á þúsundum meintra andófsmanna. Árið 1938 sendi Stalín hann til þess að stjórna Úkraínu og Khrústsjov hélt þar áfram hreinsununum. Khrústsjov var aftur embættismaður í hernum þegar seinni heimsstyrjöldin braust út og vann sem milliliður á milli Stalíns og hershöfðingja hans. Eftir stríðið sneri hann aftur til Úkraínu en var síðan kvaddur til Moskvu til að gerast einn helsti ráðgjafi Stalíns.

Dauði Stalíns árið 1953 hratt af stað valdabaráttu sem Khrústsjov vann að endingu. Honum tókst að ryðja keppinautum sínum, Lavrentíj Bería og Georgíj Malenkov, úr vegi með valdaráni sem hann framdi með aðstoð Georgíj Zhúkov hermarskálks þann 26. júní. Þann 25. febrúar 1956 flutti Khrústsjov á 20. flokksþingi kommúnistaflokksins „leyniræðuna“ svokölluðu þar sem hann fordæmdi hreinsanir Stalíns og harðstjórn Stalínstímans og lofaði að innleiða frjálslyndara stjórnarfar í Sovétríkjunum. Innanríkisumbætur hans, sem áttu að bæta líf óbreyttra borgara, höfðu oft lítil áhrif, sérstaklega í landbúnaði. Khrústsjov vonaðist til þess að geta reitt sig á eldflaugar fyrir landvarnir Sovétríkjanna og skar því niður fjármagn til hersins sjálfs. Þrátt fyrir þennan niðurskurð var valdatíð Khrústsjovs spennuþrungnasta tímabil kalda stríðsins og náði spennan hátindi í Kúbudeilunni árið 1962.

Kúbudeilan hófst með því að Khrústsjov hugðist koma fyrir langdrægum eldflaugum á Kúbu, þar sem kommúnistar höfðu komist til valda í byltingu þremur árum fyrr. Hugsanlega gerði Khrústsjov þetta til að styrkja stöðu sína eftir ýmis pólitísk vonbrigði heima fyrir og erlendis.[1] Heimurinn rambaði á barmi kjarnorkustyrjaldar þar sem Bandaríkjamenn vildu alls ekki að kjarnorkuvopnum yrði komið fyrir á dyraþrepi þeirra og íhuguðu alvarlega að gera árás þegar sovésk flutningaskip nálguðust Kúbu. Eftir mikla spennu féllst Khrústsjov á að fjarlægja kjarnavopnin frá Kúbu í skiptum fyrir að Bandaríkjamenn fjarlægðu sín eigin kjarnavopn á Tyrklandi.[1] Fjarlægingu bandarísku kjarnavopnanna var hins vegar haldið leyndri fyrst um sinn. Því hlaut Khrústsjov engan hróður af málinu heldur var tilfinningin fremur sú að hann hefði lúffað þegar Bandaríkin settu honum úrslitakosti. Deilan veikti mjög stöðu hans innan Sovétríkjanna.[1]

Vinsældir Khrústsjovs döluðu smám saman vegna vankanta í stefnumálum hans. Við þetta óx andstæðingum hans ásmegin og svo fór að þeir steyptu honum af stóli í október árið 1964. Ólíkt fyrri valdsmönnum sem höfðu beðið ósigur í valdabaráttu Sovétríkjanna var Khrústsjov þó ekki tekinn af lífi, heldur var honum gefið hús á rússnesku landsbyggðinni og íbúð í Moskvu.[2] Þar bjó hann á kostnað ríkisins þar til hann lést vegna hjartagalla árið 1971.

Tengt efniBreyta

TilvísanirBreyta

  1. 1,0 1,1 1,2 Vísindavefurinn:Um hvað snerist Kúbudeilan?
  2. „Frá völdum til einangrunar“, Vikan, 3. tbl. (18.01.1968), bls. 22.


Fyrirrennari:
Georgij Malenkov
Aðalritari sovéska kommúnistaflokksins
(1953 – 1964)
Eftirmaður:
Leoníd Bresnjev
Fyrirrennari:
Nikolaj Búlganín
Forsætisráðherra Sovétríkjanna
(1958 – 1964)
Eftirmaður:
Alexei Kosygin


   Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.