Muhammad Sidi Brahim Sidi Embarek Basir (arabíska: سيدي سيدي إبراهيم مبارك محمد بصير) (fæddur 1942 eða 1944, hvarf 18. júní 1970) var leiðtogi í sjálfstæðishreyfingu Sahrawi-þjóðarinnar í Vestur-Sahara. Hann hvarf og var væntanlega tekinn af lífi af spænskum yfirvöldum vegna pólitískra skoðana sinna.

Lífshlaup

breyta

Muhammad Bassiri fæddist í héraðinu Tan-Tan, sem í dag tilheyrir Marokkó en var um þær mundir hluti af Cabo Juby, landræmu milli Marokkó og Vestur-Sahara sem laut spænskri stjórn.

Árið 1957 fluttist hann til Marokkó, sem þá hafði nýverið öðlast sjálfstæði. Hann gekk í skóla í Marrakesh en hélt síðar til Kaíró í Egyptalandi til að nema íslömsk fræði og lærði síðar blaðamennsku í Damaskus í Sýrlandi. Hann sneri aftur til Marokkó árið 1966 þar sem hann stofnaði dagblaðið Al-Shihab (íslenska: Kyndillinn), sem hélt á lofti sjónarmiðum sjálfstæðissinna úr röðum Sahrawi-fólks.

Yfirvöld í Marokkó létu stöðva útgáfu blaðsins seint á árinu 1967 og fékk Bassiri þá leyfi spænskra yfirvalda til að flytjast til Vestur-Sahara, en honum hafði áður verið meinað um landvistarleyfi. Hann settist að í borginni Smara þar sem hann kenndi fræði kóranins.

Í Smara hófst Bassiri handa við að skipuleggja sjálfstæðishreyfingu sem þekkt varð undir heitinu Harakat Tahrir. Hreyfingin var í fyrstu leynileg en kallaði eftir lokum spænskra yfirstjórnar í Vestur-Sahara. Bassiri aðhylltist hugmyndafræði Gandhis um friðsamlega baráttu og vildi koma á umbótum með lýðræðislegum hætti, þrátt fyrir harðstjórn herforingjastjórnar Francos.

Endalok

breyta

Þann 17. júní árið 1970 hóf Harakat Tahrir baráttu fyrir opnum tjöldum með friðsömum mótmælum gegn spænskum yfirráðum. Mótmælin fóru fram í Zemla-hverfinu í El Aaiún og eru í dag þekkt sem Zemla uppreisnin. Þau voru skipulögð sem andóf við skipulagðri göngu Franco-stjórnarinnar á sama tíma. Spenna milli mótmælenda og hermanna óx stig frá stigi og lauk með því að herinn handtók nokkra forystumenn og skaut á mannfjöldann.

Þegar hér var komið sögu hafði Bassiri yfirgefið mótmælin. Honum stóð til boða að flýja til Máritaníu en neitaði. Nóttina eftir var hann handsamaður af spænsku herlögreglunni og gaf vitnisburð fyrir herrétti þann 19. júní. Afdrif hans eru óviss eftir það, þótt almennt sé talið að hann hafi verið tekinn af lífi í fangelsi skömmu síðar. Spænsk stjórnvöld þrættu þó lengi fyrir það.

Með dauða sínum varð Bassiri fyrsti píslarvottur sjálfstæðishreyfingar Sahrawi og er álitinn faðir þjóðfrelsisbaráttunnar þar í landi.

Heimildir

breyta

Fyrirmynd greinarinnar var „Muhammad Bassiri“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 7. nóvember 2015.