Sahrawi
Sahrawi eða Sahrawi-þjóðin er þjóðflokkur sem býr í vesturhluta Sahara-eyðimerkurinnar, einkum í Vestur-Sahara sem að mestu er hernumið af Marokkóstjórn, en einnig innan viðurkenndra landamæra Marokkó, í Máritaníu og í flóttamannabúðum í Alsír.
Menning Sahrawi-fólksins er líkt og algengt er í Sahara-eyðimörkinni afar blönduð af berbneskum og túaregískum áhrifum, sem birtist meðal annars í sterkri stöðu kvenna. Sahrawi skiptast í fjölda ættbálka sem flestir tala hassarísku, arabíska mállýsku, en aðrir notast við berbísk tungumál.
Orðsifjar
breytaOrðið Sahrawi kemur úr arabísku (صحرواوي) og merkir bókstaflega maður úr eyðimörkinni. Flest vestur-evrópsk tungumál notast við orð þetta, þó stundum með örlítið frábrugðinni stafsetningu. Ekki er kunnugt um að til sé íslensk útgáfa af nafninu.
Fólksfjöldi
breytaÁætlað er að rúmlega þrjár milljónir manna hafi hassarísku að móðurmáli, þar af 2,3 milljónir í Máritaníu. Ómögulegt er að segja með fullri vissu hversu margir þeirra líta á sig sem Sahrawi-menn í pólitískum skilningi þess hugtaks. Vegna deilunnar um sjálfstæði Vestur-Sahara er hart deilt um þessa tölfræði, en flestar áætlanir rokka á bilinu 200 þúsund til 400 þúsund. Búa flestir í Marokkó, Vestur-Sahara og í flóttamannabúðum í Tindouf-héraðinu í vestur-Alsír.
Trúarbrögð
breytaSahrawi-fólkið aðhyllist velflest súnní-grein íslamskrar trúar og tilheyrir Maliki-skólanum innan hennar. Eitt og annað í trúarsiðum þeirra hefur þó mótast af staðbundnum aðstæðum og hefðum. Allt frá miðöldum hefur áhrifa súfisma gætt í trúariðkun almennings.