Mahatma Gandhi

(Endurbeint frá Mohandas Gandhi)

Mohandas Karamchand Gandhi (Devanagarí/Hindí: मोहनदास करमचन्द गांधी; gújaratí: મોહનદાસ કરમચંદ ગાંધી; 2. október 186930. janúar 1948), betur þekktur með virðingartitlinum Mahatma Gandhi, var pólitískur leiðtogi Indverja sem fór fyrir sjálfstæðishreyfingu Indlands og friðsamlegri baráttu Indverja fyrir sjálfstæði frá Bretum, hreyfingu sem tugir milljóna Indverja tóku þátt í. Allt hans líf hryllti hann við tilhugsuninni um ofbeldi og hryðjuverk. Heimspeki hans, Satyagraha (viðleitni til að komast að sannleika / sálarkraftur), var friðsamleg og hafði áhrif á friðsamlegar fjöldahreyfingar innan lands sem utan. Hann fæddist inn í vaishya-stétt, stétt kaupsýslumanna. Foreldrar hans voru Karamchand Gandhi og fjórða kona hans Putlibai. Gandhi giftist Kasturbai Makharji árið 1883 þau áttu fjóra syni; Harilal Gandhi, f 1888, Manilal Gandhi, f 1892, Ramdas Gandhi, f 1897 og Devdas Gandhi, f. 1900.

Mohandas Gandhi
Fæddur
Mohandas Karamchand Gandhi

2. október 1869
Dáinn30. janúar 1948 (78 ára)
DánarorsökMyrtur
StörfStjórnmálamaður
FlokkurIndverski þjóðarráðsflokkurinn
TrúHindúismi
MakiKasturba Gandhi
BörnHarilal Gandhi, Manilal Gandhi, Ramdas Gandhi, Devas Gandhi
ForeldrarKaramchand Gandhi, PutlibaiGandhi
Undirskrift

Menntun

breyta
 
Gandhi og konan hans Kasturba árið 1902.

Árið 1887 innritaðist Gandhi í Háskólann í Mumbai (þáverandi Bombay). Ári síðar, eða 19 ára gamall hélt Gandhi til Englands með það fyrir augum að ljúka námi sínu til málafærslumanns frá Londonháskóla. Í London gerðist hann grænmetisæta. Þegar hann snéri aftur til Indlands að loknu námi með aðild að bresku lögmannasamtökunum upp á vasann var lítið um laus störf fyrir lögfræðinga. Hann reyndi fyrir sér sem lögfræðingur í Bombey en gekk illa. Gandhi þáði boð um eins árs starf hjá indversku fyrirtæki í Natal í Suður-Afríku árið 1893.

Mannréttindabarátta í Suður-Afríku

breyta
 
Verkið Mahatma Gandhi (J. Gosławski, 1932)

Eftir að Gandhi varð ítrekað fyrir barðinu á kynþáttamisrétti og vitni að kynþáttafordómum og óréttlæti í garð Indverja í Suður-Afríku, íhugaði hann stöðu sína í samfélaginu. Á meðan uppreisn Zulumanna stóð skipulagði Gandhi eina af fáum heilsugæslum sem þjónuðu svörtum Suður-Afríkubúum. Í kveðjuhófi sem haldið var honum til heiðurs, þegar samningur hans var á enda runninn og Gandhi við það að fara heim, sá hann frétt þess efnis að til stæði að afnema atkvæðisrétt Indverja í Natal. Gandhi framlengdi dvöl sína í Suður Afríku með það fyrir augum að vinna gegn þessum áformum. Hann stofnaði Þing Indverja í Natal 1894.

Í seinna Búastríðinu 1899-1902, ályktaði Gandhi sem svo, að Indverjar þyrftu að styðja stíðsreksturinn svo þeir ættu lögmætt tilkall til borgararéttinda í Suður-Afríku. Hann skipulagði sjúkrabílaþjónustu með 300 indverskum sjálfboðaliðum og 800 starfsmönnum. Þrátt fyrir stuðning Indverja við stríðsreksturinn bættist hagur þeirra ekki að loknu stríði. Frá 1906, þegar stjórnvöld í Transvaal komu á nýjum lögum um skráningu Indverja, stóð sjö ára stríð sem byggði á friðsamlegum mótmælum (hvar fjöldi Indverja, Gandhi þar með talinn, var tekinn höndum eða jafnvel skotinn fyrir að neita að skrá sig), verkföllum eða að brenna skráningarskírteinin. Að endingu sömdu suðurafrísk stjórnvöld við Gandhi.

Indland

breyta
 
Spunahjól Gandhis var notað sem skjaldamerki á fána þjóðernissinnaðra Indverja

Gandhi snéri aftur til Indlands 1915. Hann taldi rangt að hjálpa ekki til við varnir Breska heimsveldisins í fyrri heimsstyrjöldinni. Menn yrðu að hjálpa til við varnir heimsveldisins til að geta gert tilkall til frelsis og réttar sem fullgildir borgarar þess. Gopal Krishna Gokhale kynnti fyrir honum stöðu mála á Indlandi og Gandhi talaði á fundum indverska þjóðarráðsins (Indian National Congress). Gopal var á þeim tíma einn helsti leiðtogi Þjóðarráðs flokksins (Congress Party).

Kraftaverkamaður kemst á kreik

breyta

Staða verkafólks og ánauðugra var slæm á Indlandi, Bretar komu víða illa fram við heimamenn í krafti valds nýlenduherranna. Ástandið var sérlega slæmt árið 1918 í Champaran í Bihar og Kheda í Gujarat. Landlausu fólki í Champaran var nauðugur einn kostur að rækta sitthvað sem seldist á mörkuðum í stað þess að rækta eitthvað til eigin næringar. Þar greiddu Bretar lágt verð fyrir framleiðsluna sem jók enn á fátækt fólksins og jafnframt kröfðu þeir Indverja um hækkandi skatta. Í Kheda kröfðust Bretar, þrátt fyrir hungursneið að skattur væri goldinn að fullu auk 23% hækkunar. Famtíðarsýnin var myrk fyrir þá sem áttu hvorki til hnífs né skeiðar.

Gandhi stakk upp á friðsamlegri óhlýðni enn fremur krafðist hann þess að mótmælendur einbeittu sér að mótmælum gegn harðstjórninni vegna hins mannlega harmleiks og að þeir myndu ekki tala um sjálfstæði.

Eftir að hafa notið aðstoð sjálfboðaliða við að kanna ástandið og þarfir heimafólks í Champaran tók hann til við að lappa upp á þorpin sem voru í niðurníslu, enda fáir sem skeyttu um þann fjölda ósnertanlegra sem þar bjó. Með vilja íbúanna að vopni vann hann að byggingu skóla og sjúkrahúsa og hvatti framámenn í samfélögunum til að koma betur fram við hina ósnertanlegu og að láta af kúgun kvenna. Með honum í för slóst fjöldi ungra indverskra þjóðernissinna, hvaðanæfa að, þar á meðal; Brajkishore Prasad, Dr. Rajendra Prasad og Jawaharlal Nehru.

Er Gandhi var tekinn höndum og gert að yfirgefa svæðið, hann var ákærður fyrir að vera valdur að þeim óróa sem hafði skapast í Champaran, mótmæltu hundruð þúsunda handtökunni og fangelsuninni fyrir framan fangelsið, dómshús og lögreglustöðvar og kröfðust þess að hann yrði látinn laus. Sem dómurinn að endingu gerði tilneyddur. Frá því skipulagði Gandhi mótmæli og verkföll til að vinna á misrétti því sem landeigendurnir beittu. Frá því var Gandhi jafnan ávarpaður Bapa (Faðir) ellegar Mahatma (Mikla sál).

Andlegur leiðtogi

breyta

Í Kheda var Gandhi öðru fremur andlegur leiðtogi. Hinn náni samverkamaður Gandhis Sardar Vallabhbhai Patel sá um framkvæmdina, en þeir voru báðir tregir til að kalla til fólk annars staðar að af Indlandi, þeir vildu hjálpa heimamönnum að sigrast á okri og ofríki landeigandanna.

Sardar fékk heimamenn til að undirrita bænaskrá þess efnis að skatturinn yrði felldur niður vegna hungursneyðarinnar. Bóninni var hafnað og stjórnin í Bombay tók það fram að ef skatturinn yrði ekki goldinn þá yrðu eignir vanskilamanna gerðar upptækar og ekki væri líktlegt að þeim yrði komið til skila til fyrri eigenda janfvel þó þess yrði sérstaklega óskað. Þar sem enginn greiddi skatt sendi stjórnin út menn til að taka það sem tækt væri, land, búfénað og verkfæri. Bændur sýndu enga burði til þess að andæfa handtökum. Bændur studdu Sardar, jafnvel þó allar eigur þeirra hefðu verið gerðar upptækar.

Þeir sem gerðu sig líklega til til að kaupa það land sem gert hafði verið upptækt, voru útskúfaðir úr indversku samfélagi.

Aðlokum sættustjórnvöld á að fella niður skatt fyrir umrætt ár og það næsta á eftir, draga úr skatta hækkuninni, og að leyfa mótmælendum að endurheimta eigur sínar.

Án samstarfs

breyta

Að Rowlatt-lögunum samþykktum, 6. apríl 1919, var heimilt að fangelsa grunaða landráðamenn án dóms og laga. Vaxandi óánægju gætti meðal Indverja með að indverskir hermenn væru notaðir af Bretum í bardögum í fyrri heimsstyrjöldinni.

Amritsar

breyta

Tveir helstu leiðtogar sjálfstæðishreyfingarinnar í Punjab, Dr. Saifuddin Kitchlew og Dr. Satyapal, voru teknir höndum 10. apríl með vísan í Rowlatt-lögin. Fólk kom saman í Jallianwala Bagh garðinum í Amritsar í Punjab til að hlýða á ræður sem flytja átti í mótmælaskyni við handtöku doktoranna. 90 hermenn skutu á fólkið að skipan Reginald Dyers sem sagðist síðar hafa skotið á fólkið svo það myndi ekki halda að það gæti haft hann að fífli. 397 Indverjar, skv. opinberum tölum, skotnir til bana. Gandhi gagnrýndi hvorttveggja breska herliðið og ofbeldið sem Indverjar beittu í mótmæla skyni. Með hrifnæmri ræðu, þar sem hann sagði allt ofbeldi illt og óréttlætanlegt, fékk hann flokksfélaga sína til að samþykkja að votta breskum fórnarlömbum virðingu sína og fordæma ofbeldisfull ólæti. Upp frá þessu fór Gandhi að hugleiða fullt sjálfstæði frá Bretum.

Flokkurinn

breyta

Indverska þjóðarráðið fól Gandhi framkvæmdavald í desember 1921, þar sem hann var kominn á þá skoðun að Indland þyrfti á fullu og óskoruðu sjálfstæði, andlegu sem raunverulegu, að halda – Swaraj. Þjóðarráðsflokkurinn (Kongressflokkurinn) setti sér nýja stefnuskrá undir forustu Gandhis með Swaraj sem endalegt stefnumark. Aðild var öllum heimil. Nefndir voru settar á stofn til að umbreyta flokkum úr hópi yfirstéttamanna í agaða fjöldahreyfingu indversku þjóðarinnar.

Hartal

breyta

Gandhi skipulagði ítrekað fjöldamótmæli, sem líktust fjöldaverkfalli, þar sem þjóðin tók sig saman og lagði niður sína daglegu vinnu og vinnustaðir, skólar og sjúkrahús lokuðu, til að beita stjórnvöld þrýstingi svo að þau hyrfu frá óvinsælum ákvörðunum. Þessi mótmæli kallast Hartal og útlegst það sem verkfallsaðgerð, 'BHOOKH HARTAL' merki hungurverkfall á hindí.

Sjálfsþurftir

breyta
 
Mahadev Desai les bréf landstjórans til Gandhi, í khadi, við Birla Húsið í Mumbai, 7. apríl, 1939.

Með Þjóðarráðsflokkinn að baki sér hóf Gandhi að sniðganga innfluttar vörur, einkum breskar vörur, hann vildi sína fram á að Indland gæti staðið eitt og sér og væri ekki upp á aðra komið. Upp frá því klæddist Gandhi í heimaofnum fatnaði að indverskum sið, khadi Hefur sá fatnaður og hvattningar hans þess efnis að Indverjar klæddust indverskum fötum í stað þess sem ofið var í bretlandi úr indversku líni iðuglega verið tengt við swadeshi - sjálfþurfta stefnu Gandhis. Hann sagði að með hannyrðum heima við gætu allir Indverjar, ríkir sem fátækir stutt sjálfstæðishreyfinguna

Gandhi lagði upp með mótmæli við setningu Rowlatt-laganna, og hvatti Indverja til að hætta námi sínu í skólum sem styrktir væru af landstjóranum og lögmenn til að reka ekki mál sín fyrir dómstólum Breta á Indlandi. Hann sagði mótmælendum að bjóða hinn vangann ef lögreglan beytti þá ofbeldi. Sérhver Indverji skildi sætta sig við einingu hindúa og múslima, og hafna allri aðgreiningu m.t.t. stéttar eða kynþáttar, svo landið gæti staðið sameinað og unnið sigur í baráttunni. Múslimabandalagið á Indlandi, auk fjölda indverskra stjórnmálamanna, gagnrýndi hann og áætlanir hans. Yngri menn í Þjóðræðisflokknum fögnuðu fyrirætlunum hans.

Hin friðsamlegu mótmæli, borgaralega óhlýðni, bar árangur; í fyrstu kom það Bretum á óvart hve víðtæk samstaða Indverja var. Til viðbótar við algjöra sniðgöngu á þjónustu landstjórnarinnar, þá flykktust Indverjar úr skólum, lögreglusveitum og herdeildum sem rekin voru á vegum Landstjórans og skiptu yfir sambærilegar stofnanir sem skipulagðar voru af þjóðernissinnum. Gandhi var ásamt öðrum forustu mönnum Þjóðræðisflokksins fangelsaður. Þá fór að bera á vaxandi ofbeldi meðal Indverja. Í febrúar árið 1922 voru 15 indverskir lögreglumenn drepnir af mótmælendum. Gandhi kenndi sjálfum sér um hvernig fór og neitaði sér um að borða þar til ofbeldinu linnti. Hann var í hungurverkfalli í 21 dag uns mótmælendur létu af ofbeldinu. Þannig batt hann enda á mótmælin sem einkenndust af engu samstarfi við Breta. Hann var fljótlega handtekinn og dæmdur í fangelsi fyrir landráð af dómara sem vildi helst að Gandhi gengi laus. Nokkrir forustumenn Þjóðræðisflokksins snéru baki við Gandhi vegna „ótímabærs“ endis, að þeirra mati, á samstarfsleysinu við Breta.

Frá 21. mars til 6. apríl 1930 þrammaði Gandhi 400 km ásamt þúsundum Indverja til framleiðslu salts. Gangan var mótmæli við skatta á salt. Um 60.000 manns voru handteknir. Í mars 1931 rituðu Gandi og Irwin lávarður samning þar sem öllum pólitískum föngum var heitið frelsi.

Seinni heimsstyrjöldin

breyta

Gandhi vildi veita Bretum friðsamlega andlegan stuðning í seinni heimsstyrjöldinni, en samverkamenn voru því andsnúnir þar sem án samráðs við Indverja var Indland gert að stríðsaðila. Gandhi varði tveimur árum í fangelsi frá 9. ágúst 1942.

Sjálfstæði og sundrung Indlands

breyta

Að fengnu sjálfstæði sögðu múslimar undir stjórn Muhammad Ali Jinnah skilið við hindúa og stofnuðu sérstakt ríki, Pakistan 14. ágúst 1947 í óþökk Gandhis. Indverjar fögnuðu sjálfstæði sínu degi síðar eða 15. ágúst 1947.

Morðið

breyta

Þann 30. janúar 1948 var Gandhi myrtur, tilræðismaðurinn var hinn róttæki hindúi, Nathuram Godse.

Jawaharlal Nehru sagði við andlát Gandhis í ávarpi sínu til Indversku þjóðarinnar:

 
Vinir og bandamenn, ljósið er horfið úr lífi okkar og myrkrið er um allt, og ég veit því ekki hvað ég get sagt eða hvernig. Ástkær leiðtogi okkar, Bapu eins og við kölluðum hann, faðir þjóðarinnar, er fyrir bí. Kannski er rangt af mér að segja það; en þó munum við ekki sjá hann aftur eins og við höfum séð hann í mörg ár, við munum ekki leita ráða hans eða huggunar og það er hörmulegt reiðarslag, ekki einungis fyrir mig heldur fyrir milljónir, milljónir manna í þessu landi.
 

Heimild

breyta

Tenglar

breyta
  • Webb Miller (3. mars 1940). „Mahatma Gandi: Hinn dularfulli persónuleiki“. Lesbók Morgunblaðsins. bls. 68–70.