Milo Đukanović

Forseti Svartfjallalands
(Endurbeint frá Milo Djukanovic)

Milo Đukanović (svartfellska: Мило Ђукановић; f. 15. febrúar 1962) er svartfellskur stjórnmálamaður sem var forseti Svartfjallalands frá árinu 1998 til 2002 og frá 2018 til 2023. Hann hefur jafnframt verið forsætisráðherra landsins fjórum sinnum (árin 1991–1998, 2003–2006, 2008–2010 og 2012–2016) og leiðtogi Lýðræðisflokks sósíalista, voldugasta stjórnmálaflokks landsins, frá árinu 1998. Đukanović hefur verið ráðandi í svartfellskum stjórnmálum í rúm þrjátíu ár og er því einn þaulsætnasti stjórnmálamaður í Evrópu.

Milo Đukanović
Мило Ђукановић
Đukanović árið 2019.
Forseti Svartfjallalands
Í embætti
20. maí 2018 – 20. maí 2023
ForsætisráðherraDuško Marković
Zdravko Krivokapić
Dritan Abazović
ForveriFilip Vujanović
EftirmaðurJakov Milatović
Í embætti
15. janúar 1998 – 25. nóvember 2002
ForsætisráðherraFilip Vujanović
ForveriMomir Bulatović
EftirmaðurFilip Vujanović
Forsætisráðherra Svartfjallalands
Í embætti
4. desember 2012 – 28. nóvember 2016
ForsetiFilip Vujanović
ForveriIgor Lukšić
EftirmaðurDuško Marković
Í embætti
29. febrúar 2008 – 29. desember 2010
ForsetiFilip Vujanović
ForveriŽeljko Šturanović
EftirmaðurIgor Lukšić
Í embætti
8. janúar 2003 – 10. nóvember 2006
ForsetiFilip Vujanović
Dragan Kujović
Filip Vujanović
ForveriDragan Đurović (starfandi)
EftirmaðurŽeljko Šturanović
Í embætti
15. febrúar 1991 – 5. febrúar 1998
ForsetiMomir Bulatović
ForveriEmbætti stofnað
EftirmaðurFilip Vujanović
Persónulegar upplýsingar
Fæddur15. febrúar 1962 (1962-02-15) (62 ára)
Nikšić, Svartfjallalandi, Júgóslavíu
ÞjóðerniSvartfellskur
StjórnmálaflokkurLýðræðisflokkur sósíalista
MakiLidija Kuč
Börn1
HáskóliHáskóli Svartfjallalands

Æviágrip

breyta

Ferill í Júgóslavíu

breyta

Milo Đukanović tók þátt í valdaráni serbneska leiðtogans Slobodans Milošević gegn stjórnvöldum í Svartfjallalandi (sem þá var lýðveldi innan Sósíalíska sambandslýðveldisins Júgóslavíu) árið 1989.[1] Đukanović var síðan útnefndur forsætisráðherra Svartfjallalands þegar hann var aðeins 29 ára árið 1991. Hann stjórnaði á þeim tíma umfangsmiklu smygli á meðan viðskiptabann Sameinuðu þjóðanna gegn Júgóslavíu var í gildi á tíunda áratugnum. Đukanović var í forystu Svartfellinga sem gerðu innrás í Bosníu ásamt Júgóslavíuher árið 1991 og tók króatísku hafnarborgina Dubrovnik herskildi á tíma sjálfstæðisstríðs Króatíu.[2]

Đukanović var um skeið bandamaður Milošević en samband þeirra versnaði til muna á tíma Júgóslavíustríðanna, þar sem hvert aðildarríki Júgóslavíu á fætur öðru sagði sig úr sambandsríkinu. Árið 1997 vann Đukanović með naumindum forsetakosningar í Svartfjallalandi en Milošević ákvað þá að skipa keppinaut hans, Momir Bulatović, í embætti forsætisráðherra. Đukanović neitaði að viðurkenna þessa skipan og fór sjálfur áfram með stjórn Svartfjallalands.[1]

Árið 1997 lét Đukanović rifta samningi Svartfellinga við Milošević, sem hafði komið stuðningsmönnum sínum fyrir í stjórn Svartfjallalands árið 1989.[3] Á tíma Kósovóstríðsins neitaði Đukanović að fara eftir kröfum Milošević um að stríðsástandi yrði lýst yfir í Svartfjallalandi. Đukanović hélt Svartfjallalandi utan Kósovóstríðsins, sem leiddi til þess að hann fékk það orð á sig að hafa staðið uppi í hárinu á Milošević og verndað Svartfellinga fyrir þjóðernisofstæki stjórnarinnar í Belgrad.[2] Þegar Atlantshafsbandalagið (NATO) gerði loftárásir á Júgóslavíu árið 1999 bað Đukanović bandalagið um að gera ekki árásir á Svartfjallaland. Engu að síður gerði NATO árásir á hernaðarskotmörk innan Svartfjallalands en hlífði efnahagslegum og samgöngumannvirkjum.[1]

Árið 2000 studdi Đukanović lýðræðissinnaða umbótaflokka innan Serbíu, sem stuðlaði að því að Milošević féll frá völdum sama ár.[3]

Frá sjálfstæði Svartfjallalands

breyta

Ríkjasamband Serbíu og Svartfjallalands var stofnað árið 2000 að undirlagi Evrópusambandsins í kjölfar Júgóslavíustyrjaldanna. Svartfjallaland var að miklu leyti sjálfstætt innan þessa ríkjasambands og notaðist meðal annars við aðra löggjöf og mynt en Serbar. Đukanović varð hins vegar talsmaður þess að ríkjasambandinu yrði alfarið slitið og að Svartfjallaland yrði formlega sjálfstætt ríki. Árið 2006 var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla í Svartfjallalandi þar sem landsmenn kusu milli þess að lýsa yfir sjálfstæði eða viðhalda sambandinu við Serbíu.[3] Niðurstaðan varð sú að rúmlega 55 prósent landsmanna kusu að lýsa yfir sjálfstæði.[4]

Á forsætisráðherratíð Đukanović árið 2016 gekk Svartfjallaland í NATO. Landið var þriðja fyrrum lýðveldi Júgóslavíu til að ganga í bandalagið, á eftir Slóveníu og Króatíu. Rússar gagnrýndu inngöngu Svartfjallalands í NATO og sögðu hana sönnun þess að bandalagið væri að beita sér gegn öryggishagsmunum Rússlands.[5]

Đukanović var aftur kjörinn forseti Svartfjallalands þann 15. apríl árið 2018.[6] Hann hefur verið gagnrýndur fyrir einræðistilburði á stjórnartíð sinni. Árið 2020 komst bandaríska hugveitan Freedom House að þeirri niðurstöðu að Svartfjallaland undir stjórn Đukanović gæti ekki talist lýðræðisríki.[7]

Đukanović hefur lengi átt í útistöðum við serbnesku rétttrúnaðarkirkjuna í Svartfjallalandi, sem hann hefur sakað um að ganga erinda erlendra stjórnvalda. Í desember árið 2019 skrifaði hann undir umdeild lög sem áttu að takmarka áhrif serbnesku rétttrúnaðarkirkjunnar með því að skylda eigendur kirkna eða jarðeigna kirkna til að sanna að þeir hefðu átt eignirnar árið 1918 en annars myndi ríkið slá eign sinni á þær.[8] Rétttrúnaðarkirkjunni tókst að koma í veg fyrir eignarnámið með því að lýsa yfir stuðningi við stjórnarandstöðuflokka í þingkosningum árið 2020, sem stuðlaði að því að flokkur Đukanović tapaði meirihluta á þingi í fyrsta sinn í um þrjátíu ár.[9]

Đukanović bauð sig fram til endurkjörs í forsetakosningum Svartfjallalands árið 2023 en tapaði í seinni umferð gegn mótframbjóðanda sínum, Jakov Milatović.[10]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 Valur Ingimundarson (18. maí 2000). „Í skugga Serbíu“. Dagblaðið Vísir. bls. 10.
  2. 2,0 2,1 „Svartfellingar þoka sér fjær sambandsríkinu“. Morgunblaðið. 29. júní 1999. bls. 26.
  3. 3,0 3,1 3,2 Sigrún María Kristinsdóttir (24. maí 2006). „Svartfjallaland fær sjálfstæði á ný“. Fréttablaðið. bls. 20.
  4. Kristján Jónsson (23. maí 2006). „Sjálfstæði samþykkt en þjóðin klofin“. Morgunblaðið. bls. 21.
  5. Þórður Snær Júlíusson (19. maí 2016). „Svartfjallaland skrifar undir aðild að NATO - Áhyggjur af Rússum fyrirferðamiklar“. Kjarninn. Sótt 14. apríl 2023.
  6. Kristín Ólafsdóttir (15. apríl 2018). „Djukanovic lýsti yfir sigri í Svartfjallalandi“. Vísir. Sótt 14. apríl 2023.
  7. Þórgnýr Einar Albertsson (6. maí 2020). „Telja Ungverjaland ekki lengur lýðræðisríki“. Vísir. Sótt 12. ágúst 2023.
  8. „Rétttrúnaðarkirkjan splundrast í Svartfjallandi“. Varðberg. 30. desember 2019. Sótt 13. ágúst 2023.
  9. Markús Þ. Þórhallsson (5. september 2021). „Hörð mótmæli í Svartfjallalandi vegna vígslu biskups“. RÚV. Sótt 13. ágúst 2023.
  10. Atli Ísleifsson (3. apríl 2023). „Pólitískur ný­liði kosinn for­seti í Svart­fjalla­landi“. Vísir. Sótt 14. apríl 2023.