Kevin McCarthy
Kevin Owen McCarthy (f. 26. janúar 1965) er bandarískur stjórnmálamaður úr Repúblikanaflokknum og fyrrverandi forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Hann tók við því embætti þann 7. janúar 2023 í kjölfar þess að Repúblikanar unnu meirihluta á fulltrúadeildinni í þingkosningum ársins áður. McCarthy hefur setið á fulltrúadeildinni fyrir kjördæmi í Kaliforníu frá árinu 2007 og var þingflokksleiðtogi Repúblikana á deildinni frá árinu 2014 til ársins 2023.
Kevin McCarthy | |
---|---|
Forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings | |
Í embætti 7. janúar 2023 – 3. október 2023 | |
Forveri | Nancy Pelosi |
Eftirmaður | Mike Johnson |
Fulltrúadeildarþingmaður fyrir Kaliforníu | |
Núverandi | |
Tók við embætti 3. janúar 2007 | |
Forveri | Bill Thomas |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 26. janúar 1965 Bakersfield, Kaliforníu, Bandaríkjunum |
Stjórnmálaflokkur | Repúblikanaflokkurinn |
Maki | Judy Wages (g. 1992) |
Börn | 2 |
Háskóli | Ríkisháskóli Kaliforníu í Bakersfield |
Undirskrift |
McCarthy var vikið úr embætti þingforseta þegar flokkssystkini hans kölluðu eftir vantrausti gegn honum þann 3. október 2023. Hann er fyrsti forseti fulltrúadeildarinnar í sögu Bandaríkjanna sem hefur verið vikið úr embætti með þessum hætti. McCarthy er jafnframt stuttlífasti þingforseti í sögu fulltrúadeildarinnar.
Æviágrip
breytaÞegar John Boehner sagði af sér sem forseti fulltrúadeildarinnar árið 2015 var víða litið á McCarthy sem sjálfsagðan eftirmann hans. McCarthy tilkynnti hins vegar í október 2015 að hann myndi ekki gefa kost á sér til að taka við keflinu af Boehner, flestum að óvörum.[1]
McCarthy hafði um svipað leyti verið gagnrýndur eftir að hann viðurkenndi opinberlega að kostnaðarsöm rannsókn þingmeirihluta Repúblikana á fyrrum utanríkisráðherranum Hillary Clinton, væntanlegs frambjóðanda Demókrataflokksins í forsetakosningum ársins 2016, vegna árásarinnar á bandaríska sendiráðið í Benghazi í Líbíu árið 2012 væri ætluð til þess að koma pólitísku höggi á Clinton.[2]
McCarthy var náinn bandamaður Donalds Trump Bandaríkjaforseta á stjórnarárum Trumps frá 2017 til 2021. Eftir að Trump tapaði endurkjöri fyrir Joe Biden í forsetakosningum árið 2020 hvatti McCarthy Trump þó til að viðurkenna ósigur og hætta tilraunum sínum til að fá niðurstöðu kosninganna hnekkt.[3] Eftir að stuðningsmenn Trumps gerðu árás á þinghúsið í Washington þann 6. janúar 2021 sagði McCarthy að Trump bæri nokkra ábyrgð á árásinni. Hann hefur engu að síður viðhaldið bandalagi við Trump.[4]
Repúblikanar unnu meirihluta á fulltrúadeild Bandaríkjaþings í þingkosningum ársins 2022. Meirihluti þeirra varð hins vegar mun naumari en von hafði verið á miðað við aðstæður, eða 222 þingsæti af 435. Vegna naums meirihluta flokksins gat tiltölulega lítill hópur andófsmanna innan flokksins sem töldu McCarthy ekki nógu hægrisinnaðan eða róttækan komið í veg fyrir að McCarthy yrði kjörinn þingforseti.[5] Þegar nýtt þing kom saman þann 3. janúar 2023 leiddi andstaða þessara þingmanna til þess að McCarthy náði ekki tilskildum meirihluta atkvæða til embættis þingforseta. Þetta var í fyrsta sinn frá árinu 1923 sem ekki tókst að kjósa nýjan þingforseta fulltrúadeildarinnar í fyrstu atkvæðagreiðslu.[6]
McCarthy samdi við andstæðinga sína innan Repúblikanaflokksins á næstu dögum og gaf róttæklingum flokksins ýmis loforð gegn því að þeir greiddu honum atkvæði eða sætu hjá við atkvæðagreiðsluna. Það tók fjóra daga og fimmtán atkvæðagreiðslur áður en McCarthy náði loks kjöri til embættis þingforseta með minnsta mögulega meirihluta þann 7. janúar. Ekki hafði tekið svo margar atkvæðagreiðslur til að kjósa þingforseta síðan árið 1859.[7]
Til þess að vinna sér stuðning andstæðinga sinna þurfti McCarthy að veita mörgum róttækustu meðlimum Repúblikanaflokksins sæti í mikilvægustu nefndum þingsins, þar á meðal allsherjarnefndinni sem ræður því hvaða mál fá þinglega meðferð á fulltrúadeildinni og ræður áherslum í fjárlagagerð. McCarthy neyddist jafnframt til þess að samþykkja kröfu þeirra um að hvaða þingmaður sem væri gæti einn og óstuddur lagt fram vantrauststillögu gegn forseta fulltrúadeildarinnar og knúið fram atkvæðagreiðslu um hana.[7]
Þann 2. október 2023 lagði Matt Gaetz, einn af hægrisinnuðustu fulltrúadeildarþingmönnum Repúblikana, fram tillögu um að kosið yrði um að víkja McCarthy úr embætti þingforseta. Ástæðan var óánægja Gaetz og annarra róttækra Repúblikana með samkomulag sem McCarthy hafði gert við Demókrata um fjárlög. Kosið var um tillöguna næsta dag og niðurstaðan varð sú að McCarthy var vikið úr embætti þingforseta. Þetta er í fyrsta sinn í sögu Bandaríkjanna sem forseta fulltrúadeildarinnar er vikið úr embætti með atkvæðagreiðslu á þennan hátt.[8]
Tilvísanir
breyta- ↑ Kjartan Kjartansson (17. október 2015). „Forðast forsetann eins og pestina“. mbl.is. Sótt 7. janúar 2023.
- ↑ „Clinton stóð af sér Benghazi-árásir“. mbl.is. 23. október 2015. Sótt 7. janúar 2023.
- ↑ Samúel Karl Ólason (12. janúar 2021). „Segist enga ábyrgð bera“. Vísir. Sótt 7. janúar 2023.
- ↑ Þórgnýr Einar Albertsson (6. janúar 2022). „Eitrað andrúmsloft og 700 ákærur ári eftir árásina“. RÚV. Sótt 7. janúar 2023.
- ↑ Samúel Karl Ólason (2. desember 2022). „Mætir mótspyrnu innan eigin flokks“. Vísir. Sótt 7. janúar 2023.
- ↑ Kjartan Kjartansson (5. janúar 2023). „Niðurlæging þingforsetaefnis repúblikana hélt áfram“. Vísir. Sótt 7. janúar 2023.
- ↑ 7,0 7,1 Ævar Örn Jósepsson (7. janúar 2023). „McCarthy kjörinn forseti fulltrúadeildar í 15. tilraun“. RÚV. Sótt 7. janúar 2023.
- ↑ Ólöf Ragnarsdóttir (3. október 2023). „Forseta fulltrúadeildar vikið úr embætti“. RÚV. Sótt 3. október 2023.
Fyrirrennari: Nancy Pelosi |
|
Eftirmaður: Mike Johnson |