Loðvík 8. Frakkakonungur
Loðvík 8. (5. september 1187 – 8. nóvember 1226) eða Loðvík ljón var konungur Frakklands frá 1223 til dauðadags. Hann var einnig greifi af Artois frá 1190 og erfði þann titil eftir móður sína.
Loðvík var af ætt Kapetinga, sonur Filippusar 2. Frakkakonungs og fyrstu konu hans, Ísabellu af Hainaut. Móðir hans dó þegar hann var á þriðja ári 23. maí árið 1200, þegar Loðvík var tólf ára, giftist hann Blönku af Kastilíu, sem var hálfu ári yngri. Hjónabandið var hluti af friðarsamningum á milli Filippusar og Jóhanns landlausa Englandskonungs, móðurbróður Blönku.
Englandsherför Loðvíks
breytaÞegar enskir aðalsmenn gerðu uppreisn gegn Jóhanni konungi árið 1216 buðu þeir Loðvík krónprinsi krúnuna. Hann sigldi til Englands með herlið, steig á land 21. maí 1216 og mætti lítilli mótspyrnu. Hann hélt þegar í stað til London og var lýstur konungur Englands í Pálskirkju. Hann var þó ekki krýndur konungur en fjöldi aðalsmanna kom á fund hans og vottaði honum hollustu og það gerði Alexander 2. Skotakonungur einnig.
Ekki leið á löngu þar til Loðvík réð yfir hálfu Englandi og sigurinn virtist vís. En þá dó hinn óvinsæli Jóhann konungur og í ljós kom að margir aðalsmannana kusu fremur að þjóna níu ára syni hans, Hinrik 3., en frönskum konungi. Loðvík tapaði orrustu við Lincoln 20. maí 1217 og þegar hann fékk engan stuðning frá föður sínum, Filippusi konungi, og sjóher hans beið einnig lægri hlut neyddist hann til að semja frið og viðurkenna að hann hefði aldrei verið löglegur konungur Englands.
Konungur Frakklands
breytaÞann 14. júlí 1223 lést Filippus konungur og Loðvík tók við. Hann var krýndur í Reims 6. ágúst sama ár. Hann hélt áfram stríðinu við Englandskonung en nú á franskri grund og réðist á þær lendur sem Hinrik 3. átti enn á meginlandinu og hertók meðal annars héraðið Languedoc.
Loðvík átti líka í hörðum deilum við Teóbald 4., greifa af Champagne, en ekki kom þó til átaka á milli þeirra. En árið 1226 réðist Loðvík í herför (kallaða krossferð) gegn Raymond 7. greifa af Toulouse, sem páfinn hafði bannfært fyrir stuðning við kaþara, og varð vel ágengt. Hann hertók meðal annars borgina Avignon, sem áður hafði heyrt undir hið Heilaga rómverska ríki en tilheyrði eftir þetta Frakkakonungi. En á heimleiðinni veiktist hann af blóðkreppusótt og dó 8. nóvember 1226 í Montpensier-höll í Auvergne. Hann er grafinn í St. Denis-klausturkirkjunni í París.
Loðvík og Blanka eignuðust þrettán börn en aðeins fimm komust til fullorðinsára. Elsti eftirlifandi sonurinn, Loðvík 9., varð konungur við lát föður síns, tólf ára gamall, og var móðir hans ríkisstjóri fyrstu árin. Önnur börn þeirra voru Róbert greifi af Artois, sem féll í Egyptalandi 1250 í Sjöundu krossferðinni, Alfons, greifi af Poitiers, sem dó á heimleið úr Áttundu krossferðinni, heilög Ísabella og Karl, konungur Sikileyjar.
Heimild
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Louis VIII of France“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 30. september 2010.
Fyrirrennari: Filippus 2. |
|
Eftirmaður: Loðvík 9. |