Blanka af Kastilíu

Blanka af Kastilíu (4. mars 118826. nóvember 1252) var konungsdóttir frá Kastilíu, drottning Frakklands frá 1223 til 1226 og síðan ríkisstjóri fyrir Loðvík 9. son sinn þar til hann varð fullveðja.

Blanka af Kastilíu, Frakklandsdrottning.

Blanka var dóttir Alfons 8., konungs Kastilíu, og Elinóru drottningar, sem var dóttir Hinriks 2. Englandskonungs og Elinóru af Akvitaníu. Þegar Filippus 2. Frakkakonungur og Jóhann landlausi Englandskonungur, móðurbróðir Blönku, sömdu frið sín á milli árið 1200 var eitt af ákvæðum samningsins að Loðvík, krónprins Frakklands, skyldi giftast dóttur Elinóru. Upphaflega mun Urraca, systir Blönku, hafa átt að vera brúðurin en þegar Elinóra amma þeirra kom til Kastilíu að sækja hana var það álit hennar að Blanka yrði hentugri Frakklandsdrottning og hún fór því með hana til Frakklands í staðinn vorið 1200. Loðvík krónprins og Blanka gengu í hjónaband 23. maí árið 1200 og voru þá bæði tólf ára að aldri.

Þegar enskir aðalsmenn gerðu uppreisn gegn Jóhanni konungi árið 1216 ákváðu þeir að bjóða Loðvík prinsi ensku krúnuna vegna þess að Blanka var barnabarn Hinriks 2. og börn þeirra voru því afkomendur Englandskonunga. Loðvík hélt þá í herför til Englands og varð vel ágengt. En þegar Jóhann dó í október 1216 kusu Englendingar fremur Hinrik 3. son hans en franskan konung og snerust gegn Loðvík. Þrátt fyrir öflugan stuðning Blönku, sem sendi honum flota frá Calais, varð hann að semja um frið og yfirgefa England.

Loðvík varð konungur og Blanka drottning 1223 en Loðvík dó aðeins þremur árum seinna. Þá lifðu sjö af þrettán börnum þeirra (það yngsta, Karl, á fyrsta ári) en tveir synir dóu innan fárra ára og aðeins fimm komust upp. Elsti sonurinn, Loðvík, varð konungur en hann var aðeins tólf ára og móðir hans varð ríkisstjóri. Hún reyndist dugmikill og ákveðinn stjórnandi og tókst að bæla niður mótstöðu franskra aðalsmanna og verjast árásum Hinriks Englandskonungs. Hún ávann sér virðingu og aðdáun aðalsmannanna og telja má víst að Loðvík sonur hennar hafi átt henni að þakka að ríkið hélst saman. Hann tók við völdum 1234 en móðir hans hafði þó áfram mikil áhrif.

Loðvík giftist Margréti af Provence árið sem hann tók við völdum en samskipti þeirra tengdamæðgnanna voru ekki góð og Blanka vildi helst ekki að Loðvík og Margrét eyddu neinum tíma saman, nema þá í rúminu við að afla erfingja. Loðvík fór í krossferð 1248, þvert gegn vilja móður sinnar, og varð hún þá aftur ríkisstjóri. Henni tókst að halda friði heima fyrir um leið og hún kreisti út fé og mannafla til að senda syni sínum til Austurlanda og þurfti að útvega morð fjár til að kaupa Loðvík lausan þegar Egyptar hertóku hann. En hún var orðin roskin og á endanum þoldi hún ekki álagið, veiktist í nóvember 1252 og dó fáum dögum seinna.

Heimild

breyta