Claude af Bretagne og Frakklandi (14. október 149920. júlí 1524) var drottning Frakklands og hertogaynja af Bretagne á 16. öld.

Claude drottning með dætrum sínum.

Claude var dóttir Loðvíks 12. Frakkakonungs og Önnu hertogaynju af Bretagne. Af fjórtán börnum sem móðir hennar ól í hjónaböndum með tveimur konungum Frakklands lifðu aðeins tvær dætur og var Claude sú eldri. Hún erfði því hertogadæmið Bretagne eftir móður sína. Konur gátu hins vegar ekki erft frönsku krúnuna. Anna vildi viðhalda sjálfstæði Bretagne gagnvart Frakklandi og samdi þess vegna um trúlofun hennar og Karls af Lúxemborg (síðar Karls 1. Spánarkonungs og Karls 5. keisara), þegar þau voru fárra ára gömul. Loðvík var þó ósáttur við það og trúlofuninni var fljótlega slitið. Þess í stað var hún árið 1506 heitin Frans hertoga af Angoulême, sem var erfingi frönsku krúnunnar ef Loðvík eignaðist ekki son.

Anna móðir hennar var þó mjög mótfallin hjónabandi þeirra því að hún vissi að ef Claude og Frans eignðust saman son sem erfa mundi bæði frönsku krúnuna og hertogadæmið Bretagne þýddi það endalok sjálfstæðis Bretagne. Það var því ekki fyrr en eftir lát hennar, snemma árs 1514, sem þau Claude og Frans giftust og var brúðkaup þeirra haldið 18. maí um vorið. Loðvík faðir Claude giftist aftur um haustið ungri konu, Maríu Tudor, en dó innan við þremur mánuðum síðar og þar sem María var ekki þunguð varð Frans þegar konungur og Claude drottning.

María sneri aftur til Englands en tvær konur úr fylgdarliði hennar, systurnar Mary og Anne Boleyn, urðu hirðmeyjar Claude. Mary varð um tíma ástkona konungsins, ein af mörgum, en Anna var túlkur fyrir Claude þegar enskir gestir komu til hirðarinnar. Annars var Claude drottning, sem var smávaxin með slæma hryggskekkju og herðakistil, lítt áberandi við hirðina og féll algjörlega í skugga tengdamóður sinnar Lovísu af Savoy, og mágkonu sinnar, systur Frans, Margrétar drottningar af Navarra, sem báðar voru afburðagáfaðar og glæsilegar.

Claude var auk þess nær stöðugt þunguð og eignaðist barn á hverju ári. Þegar hún dó, 24 ára að aldri, hafði hún fætt manni sínum sjö börn. Fimm þeirra komust upp: Frans krónprins, sem dó 18 ára, Hinrik 2. Frakkakonungur, Magdalena, sem giftist Jakobi 5. Skotakonungi en dó úr berklum eftir hálfs árs hjónaband, tæplega 17 ára að aldri, Karl hertogi af Orléans, sem dó 23 ára, og Margrét, sem giftist Emmanúel Filibert hertoga af Savoy.

Þegar Claude lést erfði Frans sonur hennar hertogadæmið Bretagne og það gekk síðan til Hinriks bróður hans. Þegar Frans 1. dó 1547 og Hinrik varð konungur sameinaðist Bretagne Frakklandi.

Heimild

breyta