Jóhanna af Valois
Jóhanna af Valois (23. apríl 1464 – 4. febrúar 1505) eða Jóhanna af Frakklandi var frönsk konungsdóttir, hertogaynja af Orléans, drottning Frakklands í skamman tíma 1498 og síðan hertogaynja af Berry. Hún var tekin í helgra manna tölu 28. maí 1950 sem heilög Jóhanna af Valois.
Jóhanna var dóttir Loðvíks 11. Frakkakonungs og seinni konu hans, Karlottu af Savoja. Þau systkini hennar sem upp komust voru Karl 8. Frakkakonungur og Anna af Frakklandi, hertogaynja af Búrgund og ein valdamesta kona 15. aldar. Þegar Jóhanna var tólf ára, 8. september 1476, giftist hún frænda sínum, Loðvík hertoga af Orléans, sem var tveimur árum eldri. Hann hélt því raunar fram síðar að hann hefði verið yngri.
Litlum sögum fer af samlífi þeirra en þau eignuðust ekki börn. Jóhanna var heilsuveil og líklega eitthvað fötluð. Þann 7. apríl 1498 dó Karl bróðir hennar af slysförum og Loðvík varð konungur sem Loðvík 12. Í hjúskaparsamningi sem gerður hafði verið milli Karls og drottningar hans, Önnu af Bretagne, árið 1491 var áskilið að ef Karl dæi barnlaus skyldi hún giftast eftirmanni hans, en hún var þá ríkasta kona Evrópu og Frakkakonungar höfðu mikinn hug á að ná erfðaríki hennar, Bretagne, undir sig.
Fáeinum dögum eftir að Loðvík tók við krúnunni lýsti hann hjónaband sitt ógilt á þeirri forsendu að kona hans væri vansköpuð og hann hefði ekki getað uppfyllt hjúskaparskyldur sínar vegna fötlunar hennar, enda væru þau barnlaus eftir 22 ára hjónaband. Auk þess hefði hann ekki verið orðinn fjórtán ára og því ekki mátt giftast. Jóhanna barðist hart á móti og leiddi fram vitni um að hjónabandið hefði víst verið fullkomnað. Loðvík hefði vafalaust ekki fengið sínu framgengt ef Alexander VI páfi hefði verið hlutlaus dómari en af pólitískum ástæðum úrskurðaði hann konungi í vil. Var hjónaband konungshjónanna ógilt 15. desember 1498 og Loðvík giftist Önnu 8. janúar 1499.
Jóhanna var ævareið en sagðist ætla að biðja fyrir fyrrverandi eiginmanni sínum. Hann gaf henni titilinn hertogaynja af Berry og hún flutti til Bourges í Berry og settist þar að, stofnaði klaustur og iðkaði bænir. Hún dó 4. febrúar 1505 og var grafin í klaustrinu. Gröf hennar var vanhelguð og líkamsleifar hennar brenndar af Húgenottum 27. maí 1562. Skömmu eftir dauða hennar voru henni kennd kraftaverk og ýmis jarteikn og hún var talin dýrlingur. Jóhanna af Valois var svo formlega tekin í dýrlingatölu af Píusi XII páfa árið 1950.
Heimild
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Joan of France, Duchess of Berry“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 12. október 2010.