Listasafn Íslands er listasafn í eigu íslenska ríkisins sem var stofnað árið 1884 í Kaupmannahöfn af Birni Bjarnarsyni, síðar sýslumanni í Dalasýslu og alþingismanni. Stofninn í listaverkaeign safnsins voru gjafir frá listamönnum, aðallega dönskum, en brátt fóru að berast reglulega gjafir frá íslenskum listamönnum sem urðu kjarninn í eign safnsins.

Listasafn Íslands í gamla íshúsinu við Tjörnina.

Safnkostur

breyta

Listasafn Íslands er þjóðlistasafn og leggur megináherslu á 19. og 20. aldar list, íslenska og erlenda. Það á merkasta safn íslenskra verka á Íslandi og eftir alla helstu myndlistarmenn þjóðarinnar. Það hefur einnig að geyma vaxandi safn erlendra verka eftir heimskunna listamenn, svo sem Pablo Picasso, Edvard Munch, Karel Appel, Hans Hartung, Victor Vasarely, Richard Serra og Richard Tuttle.

Listasafn Íslands heldur að staðaldri fjölbreyttar sýningar sem endurspegla listaverkaeign þess. Auk þess efnir það árlega til víðtækra sérsýninga á verkum íslenskra sem erlendra listamanna. Í tengslum við þær eru gefin út rit.

Í safnbyggingunum að Fríkirkjuvegi 7 eru nokkrir sýningarsalir á þremur hæðum, safnbúð og kaffistofa.

Í skrifstofubyggingunni að Laufásvegi 12 er sérfræðibókasafn með heimilda- og ljósmyndasafni og forvörsludeild.

Saga Listasafns Íslands

breyta

Árið 1916 var listasafnið gert að deild í Þjóðminjasafni Íslands. Safnkosturinn var þá geymdur víðs vegar og lánaður til opinberra stofnana og skóla um allt land, auk þess sem hluti safnkostsins var sýndur í Alþingishúsinu og Safnahúsinu við Hverfisgötu. Með stofnun menntamálaráðs 1928 varð safnið að Listasafni ríkisins og heyrði beint undir ráðið.

1950 er ráðinn fyrsti forstöðumaður safnsins Selma Jónsdóttir og því fenginn staður á efstu hæð nýja hússins sem reist hafði verið yfir bæði Listasafnið og Þjóðminjasafnið við Suðurgötu. Þá var safnkosturinn endurheimtur alls staðar að og fékkst að mestu leyti til baka. Með nýjum lögum 1961 varð safnið svo sjálfstæð stofnun sem heyrir beint undir menntamálaráðuneytið.

Listasafnið er nú staðsett í gamla íshúsinu, Fríkirkjuvegi 7, við Tjörnina í Reykjavík. Húsið var hannað af Guðjóni Samúelssyni árið 1916 fyrir fyrirtækið Herðubreið. Síðar hýsti það skrifstofur og sal Framsóknarflokksins og frá 1961 Glaumbæ sem brann 1971. Þá eignaðist listasafnið húsið sem þurfti algerrar endurnýjunar við. Safnið flutti fyrst í húsið árið 1987. Nýbyggingin var verk Garðars Halldórssonar, húsameistara ríkisins.

Safn Ásgríms Jónssonar er sérstök deild í Listasafni Íslands. Ásgrímur Jónsson lést árið 1958 og ánafnaði íslensku þjóðinni öll listaverk sín í eigin eigu ásamt húseign að Bergstaðastræti 74 í Reykjavík. Árið 1960 var Ásgrímssafn opnað í húsi hans. Árið 1988, þegar Listasafn Íslands fluttist í eigið húsnæði, var safn Ásgríms sameinað Listasafninu samkvæmt ákvæðum í erfðaskrá hans. Heimili Ásgríms að Bergstaðastræti 74 var opnað að nýju, eftir ótímabundna lokun, á íslenska safnadeginum, sunnudaginn 8. júlí 2012.

Þann 21. júní 2012 var Listasafni Íslands fært Listasafn Sigurjóns Ólafssonar að gjöf. Staðfest var með undirritun gjafabréfs og samkomulags, gjöf sjálfseignarstofnunar Listasafns Sigurjóns Ólafssonar á listaverkum Sigurjóns Ólafssonar og öðrum eignum safnsins til Listasafns Íslands. Hér er um að ræða afar verðmæta gjöf til Listasafns Íslands, bæði í listrænu og fjárhagslegu tilliti.

Safnið hefur gert kostunarsamninga við fyrirtæki um ýmis verkefni. 2006 gerðist eignarhaldsfélagið Samson aðalstyrktaraðili safnsins til ársins 2008. Í tengslum við þann samning var ákveðið að fella alveg niður aðgangseyri að safninu. Í maí árið 2010 var tekinn upp aðgangseyrir á sérsýningar safnsins. Í dag þarf að greiða aðgangseyri fyrir allt safnið. Hægt er að ganga í listaklúbbinn Selmu en félagar fá árskort í safnið og fleiri fríðindi.

Listaklúbburinn Selma í Listasafni Íslands:

breyta

Listaklúbburinn dregur nafn sitt af Selmu Jónsdóttur listfræðingi (1917 – 1987) sem var safnstjóri Listasafns Íslands 1950 – 1987 og öflugur frumkvöðull í kynningu á myndlist hérlendis. Listaklúbburinn er fyrir fólk sem vill kynna sér myndlist og fylgjast vel með þeim sýningum sem eru í safninu.

Listaklúbbur SELMA er klúbbur áhugafólks um myndlist. Félagsaðild veitir aðgang að sérsniðinni leiðsögn og fyrirlestrum í safninu. Félagar fá afslátt í Safnbúð og ýmis fríðindi.

Forstöðumenn Listasafnsins

breyta

Tenglar

breyta

64°08′38.80″N 21°56′21.30″V / 64.1441111°N 21.9392500°V / 64.1441111; -21.9392500