Glaumbær (skemmtistaður)

fyrrum veitingahús og skemmtistaður í Reykjavík

Glaumbær var veitingahús og skemmtistaður sem Ragnar Þórðarson stofnaði í Framsóknarhúsinu eða „Fjósinu“ (Herðubreið) Fríkirkjuvegi 7. Íshúsið Herðubreið var reist að Fríkirkjuvegi 7, árið 1916 til ístöku úr Tjörninni. Upphaflega stofnaði Ragnar raunar þrjá staði, Káetuna, Glaumbæ og Næturklúbbinn, í þremur sölum hússins. Staðurinn var opnaður 3. nóvember 1961. Áður hafði Framsóknarflokkurinn verið með skrifstofur og fundarsali í húsinu sem þeir endurbyggðu 1956 en frá 1959 voru þar reglulega dansleikir. Ragnar leigði húsnæðið af Húsbyggingafélagi Framsóknarfélaganna. Árið 1963 seldi Ragnar Sigurbirni Eiríkssyni reksturinn. Unglingadansleikir voru haldnir þar reglulega með mörgum helstu hljómsveitum bítlatímabilsins.

Íshúsið Herðubreið þar sem Glaumbær var á efstu hæð.

Um fjögurleytið aðfaranótt 4. desember 1971 kom upp eldur í húsinu og um nóttina brann allt innanstokks á efri hæðinni. Meðal þess sem brann voru hljóðfæri hljómsveitarinnar Náttúru sem voru geymd þar vegna sýninga á Hárinu. Í fyrstu voru uppi hugmyndir um að endurreisa skemmtistaðinn en íbúar í nágrenninu söfnuðu þá undirskriftalista gegn honum. Árið 1972 eignaðist Listasafn Íslands húsið og réðist í miklar endurbætur á því. Það flutti þangað inn árið 1987.

Tenglar

breyta
   Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.