Kjartan Ólafsson (f. 1933)
Kjartan Ólafsson (f. á Laugum í Súgandafirði 2. júní 1933) er íslenskur fræðimaður, ritstjóri, stjórnmálamaður og einn helsti áhrifamaður Sósíalistaflokksins og Alþýðubandalagsins um langt árabil.
Ævi og störf
breytaKjartan lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1953. Frá 1954 til 1961 stundaði hann nám í ýmsum hugvísindagreinum við Háskóla Íslands og í Vínarborg, jafnt íslenskum og germönskum fræðum. Hann lauk BA-prófi í þýsku og mannkynssögu frá HÍ 1961. Hann kvæntist eiginkonu sinni, Gíslrúnu Sigurbjörnsdóttur, árið 1957 og varð því tengdasonur hjónanna Sigurbjarnar Einarssonar, síðar biskups og Magneu Þorkelsdóttur.
Á námsárunum hófst pólitísk þátttaka Kjartans fyrir alvöru. Hann fylgdist grannt með baráttu bresku friðarsamtakanna CND og skipulagningu fyrstu Aldermaston-göngunnar árið 1958, en þær beindust gegn kjarnorkuvígbúnaði. Þegar heim var komið hafði Kjartan forgöngu um að skipuleggja fyrstu Keflavíkurgönguna árið 1960 til að mótmæla bandarískri hersetu. Með göngunni hljóp mikill kraftur í baráttuna gegn hernum og aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og voru Samtök hernámsandstæðinga stofnuð sama ár. Var Kjartan framkvæmdastjóri þeirra fyrstu tvö árin og einn helsti forystumaður þeirra allt þar til starfsemin lognaðist út af undir lok sjöunda áratugarins.
Skipulagshæfileikar Kjartans vöktu athygli forystu Sósíalistaflokksins og var hann framkvæmdastjóri flokksins frá 1962-68. Hann gegndi jafnframt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sósíalista og sat í miðstjórn og framkvæmdanefnd. Eftir stofnun Alþýðubandalagsins sem stjórnmálaflokks tók Kjartan við rekstri flokksskrifstofunnar til ársins 1972.
Samhliða störfunum fyrir Alþýðubandalagið var Kjartan starfsmaður Þjóðviljans. Magnús Kjartansson hætti sem ritstjóri blaðsins þegar hann tók við ráðherradómi árið 1971 og færði Kjartan sig í ritstjórastólinn árið 1972. Hann gegndi störfum ritstjóra til ársins 1978 og svo aftur frá 1980-83.
Kjartan var einn áhrifamesti forystumaður Alþýðubandalagsins utan þings og varaformaður flokksins frá 1977-83. Stjórnmálaferillinn varð þó styttri en búist hafði verið við og skýrðist það af veikri stöðu í Vestfjarðakjördæmi. Í fernum þingkosningum var Kjartan í oddvitasætinu, árin 1974, 1978, 1979 og 1983. Hann náði kjöri árið 1978 þegar vinstriflokkarnir unnu stórsigra en í öll hin skiptin var hann næsti maður inn. Í kosningunum 1979 og 1983 vantaði framboðið fyrst 15 og svo 32 atkvæði til að ná inn manni. Þingferill Kjartans stóð því aðeins frá 1978-79, en að auki kom hann nokkrum sinnum inn sem varaþingmaður.
Kjartan sagði að mestu skilið við stjórnmálin eftir níunda áratuginn og sneri sér að fræðastörfum. Hann ritaði meðal annars verslunarsögu Vestur-Skaftfellinga í þremur bindum, fjölda bóka og greina um héraðssögu Vestfjarða. Árið 2020 sendi Kjartan frá sér bókina Draumar og veruleiki, sem segir sögu Kommúnistaflokksins og Sósíalistaflokksins og var bókin tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2020.