Aldermaston-göngurnar

Aldermaston-göngurnar voru áhrifamiklar mótmælagöngur gegn kjarnorkuvígbúnaði sem bresku friðarsamtökin CND (Campaign for Nuclear Disarmament) stóðu fyrir á sjötta og sjöunda áratugnum. Gengið var á milli kjarnorkuvopnaþróunarmiðstöðvarinnar í Aldermaston og miðborgar Lundúna, rétt rúmlega áttatíu kílómetra leið. Göngur þessar urðu þekktustu aðgerðir CND og fyrirmynd sambærilegra gangna í öðrum löndum.

Samtökin CND voru stofnuð árið 1957 með það að meginmarkmiði að sameina andstæðinga kjarnorkuvopna í Bretlandi. Kjarnorkukapphlaup Bandaríkjanna, Sovétríkjanna og í minna mæli Bretlands stóð þá sem hæst. Strax á fyrsta starfsárinu var hannað merki samtakanna, sem fljótlega öðlaðist sess sem alþjóðlegt friðarmerki.

Fyrsta Aldermaston-gangan var haldin páskahelgina 1958. Þar var gengið frá Lundúnum til Aldermaston, en síðari göngur voru í hina áttina. Áð var á nokkrum stöðum á leiðinni þar sem slegið var upp tjaldbúðum, fluttar ræður og haldin menningardagskrá. Þessi fyrsta ganga var haldin undir merkjum friðarsamtakanna DAC, The Direct Action Committee, en studd af CND. Allar seinni göngurnar voru í nafni CND.

Aldermaston-göngur voru árviss viðburður fram á sjöunda áratuginn. Fjöldi fólks tók þátt í göngunum og bættist sífellt í hópinn eftir því sem nálgaðist miðborg Lundúna. Tónlist var fyrirferðarmikil og náðu ýmsir baráttusöngvar göngufólks miklum vinsældum, má þar nefna lög eftir söngvaskáldið Ewan MacColl. Aðgerðirnar vöktu athygli út fyrir Bretland og urðu fyrirmyndir sambærilegra ganga til að mynda í Vestur-Þýskalandi. Samtök hernámsandstæðinga á Íslandi voru stofnuð árið 1960 í kjölfar fyrstu Keflavíkurgöngunnar, sem var augljóslega innblásin af Aldermaston-göngunum.

Deilur skipuleggjenda árið 1963 og minnkandi spenna milli risaveldanna varð til þess að hætt var að efna til göngunnar. Árin 1972 og 2004 voru þó skipulagðar göngur þar sem gengið var í hina upphaflegu átt. Reyndust þær þó mun fámennari en gömlu aðgerðirnar.

Heimildir

breyta

Fyrirmynd greinarinnar var „Aldermaston Marches“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 2. júní 2019.