Jean Casimir-Perier

6. forseti Frakklands (1847-1907)

Jean Casimir-Perier (8. nóvember 1847 – 11. mars 1907) var franskur stjórnmálamaður sem var forseti Frakklands frá 27. júní 1894 þar til hann sagði af sér 16. janúar 1895. Hann var þar áður forsætisráðherra frá 3. desember 1893 til 22. maí 1894. Casimir-Perier var 46 ára að aldri þegar hann var kjörinn í forsetaembættið og er þar með þriðji yngsti maðurinn sem hefur gegnt því á eftir Louis-Napoléon Bonaparte og Emmanuel Macron. Forsetatíð hans var jafnframt sú stysta í sögu lýðveldisins; aðeins sex mánuðir og tuttugu dagar.

Jean Casimir-Perier
Forseti Frakklands
Í embætti
27. júní 1894 – 16. janúar 1895
ForsætisráðherraCharles Dupuy
ForveriMarie François Sadi Carnot
EftirmaðurFélix Faure
Forsætisráðherra Frakklands
Í embætti
3. desember 1893 – 30. maí 1894
ForsetiMarie François Sadi Carnot
ForveriCharles Dupuy
EftirmaðurCharles Dupuy
Persónulegar upplýsingar
Fæddur8. nóvember 1847
París, Frakklandi
Látinn11. mars 1907 (59 ára) París, Frakklandi
StjórnmálaflokkurVinstri-lýðveldissinnar
TrúarbrögðKaþólskur
HáskóliParísarháskóli
StarfAthafnamaður

Casimir-Perier kom úr fjölskyldu iðnaðarmanna, bankastjóra og stjórnmálamanna. Sjálfur barðist hann í fransk-prússneska stríðinu og hlaut frönsku heiðursorðuna fyrir hugrekki sitt í orrustunni við Bagneux. Hann hóf stjórnmálaferil sinn sem ritari föður síns, Auguste Casimir-Periers, sem var innanríkisráðherra í ríkisstjórn Adolphe Thiers eftir stofnun þriðja lýðveldisins. Casimir-Perier skipaði sér í hóp vinstrisinnaðra lýðveldissinna og var skipaður forsætisráðherra Frakklands af Sadi Carnot Frakklandsforseta þann 3. desember 1893. Þar sem hann vildi halda frá völdum bæði róttæklingum og konungssinnum fór hann fyrir miðhægrisinnaðri ríkisstjórn. Casimir-Perier sagði af sér sem forsætisráðherra þann 23. maí 1894 vegna ágreinings innan ríkisstjórnarinnar um réttindi járnbrautarverkamanna.

Þann 24. júní 1894 var Sadi Carnot forseti myrtur í Lyon. Casimir-Perier var kjörinn forseti í hans stað þann 27. júní sama ár en hann hafði verið nokkur tregur til að bjóða sig fram.[1] Hann varð strax skotspónn franskra vinstrimanna, sem þótti hann vera hrokafullur ríkisbubbi. Casimir-Perier líkaði illa hve takmörkuð völd franska forsetaembættisins voru samkvæmt stjórnarskrá þriðja lýðveldisins. Hann reyndi að hafa afskipti af stjórn ríkisins en óvinsældir hans gerðu honum það illkleift. Þar sem Charles Dupuy forsætisráðherra setti Casimir-Perier út á hliðarlínurnar fór hann að leita sér að tylliástæðu til að segja sig úr embættinu.

Eftir aðeins sex mánuði í embætti sagði Casimir-Perier af sér sem forseti Frakklands með þeim rökum að hann væri útilokaður af ríkisstjórnum sínum og að hann væri aldrei látinn vita af ákvörðunum í utanríkismálum.[2]

Casimir-Perier dró sig alfarið úr stjórnmálum eftir þetta og einbeitti sér að viðskiptum. Hann bar síðar vitni fyrir hönd Alfreds Dreyfusar í Dreyfus-málinu.

Tilvísanir

breyta
  1. Bertrand Joly, Histoire politique de l'affaire Dreyfus, Fayard, 2014, bls. 141.
  2. Uppsagnarbréf Jean Casimir-Periers.


Fyrirrennari:
Charles Dupuy
Forsætisráðherra Frakklands
(3. desember 189330. maí 1894)
Eftirmaður:
Charles Dupuy
Fyrirrennari:
Marie François Sadi Carnot
Forseti Frakklands
(27. júní 189416. janúar 1895)
Eftirmaður:
Félix Faure