Alfred Dreyfus (9. október 1859 – 12. júlí 1935) var franskur hermaður af gyðingaættum frá Elsass. Árið 1894 var hann ranglega dæmdur og fangelsaður fyrir landráð. Deilan um sekt eða sakleysi hans varð kveikjan að Dreyfus-málinu, sem setti svip sinn á franskt samfélag frá 1894 til 1906. Á þessum árum sköpuðust skarpar línur milli Frakka sem studdu náðun Dreyfusar og þeirra sem töldu hann sekan.

Alfred Dreyfus
Alfred Dreyfus árið 1894.
Fæddur9. október 1859
Dáinn12. júlí 1935 (75 ára)
StörfHermaður
Þekktur fyrirAð vera ranglega sakfelldur fyrir njósnir í Dreyfus-málinu.
TrúGyðingdómur
MakiLucie Eugénie Hadamard (g. 1891)
ForeldrarRaphael Dreyfus & Jeannette Libmann
Undirskrift

Æviágrip breyta

Dreyfus var handtekinn þann 15. október 1894 fyrir njósnir fyrir þýska keisaraveldið. Þann 5. janúar 1895 varð hann sakfelldur í leynilegum réttarhöldum og dæmdur til fangavistar á Djöflaeyjunni á ströndum frönsku Gvæjana í Suður-Ameríku. Það kom fljótt á daginn að Dreyfus væri saklaus af glæpnum og hefði í raun verið gerður að blóraböggli fyrir glæp sem herforingi að nafni Ferdinand Walsin Esterhazy hefði framið. Þegar í ljós kom að Esterhazy væri njósnarinn þaggaði stjórn hersins það niður til að breiða yfir mistök sín. Þegar almenningi bárust fréttir af þögguninni og sakleysi Dreyfusar hófust hatrammar deilur um gyðingahatur í Frakklandi og hvort Frakkland ætti að teljast kaþólsk þjóð eða lýðveldi byggt á jafnrétti allra borgara.[1]

Þann 13. janúar 1898 birti Émile Zola greinina J'accuse („Ég ásaka“) í dagblaði Georges Clemenceau, L'Aurore. Í greininni sakaði Zola herinn um að hafa sakfellt Dreyfus vegna þess að hann var gyðingur og um að hafa falsað sönnunargögn gegn honum. Stuttu áður hafði Zola einnig gefið út dreyfibréf þar sem hann varaði við því að komandi öld myndi verða öld gyðingahaturs.[2]

Dreyfus-málið dróst frá 1894 til ársins 1904. Þann 19. september 1899 var herréttardómstóllinn kallaður saman og mál Dreyfusar tekið upp á ný. Hann var dæmdur sekur á ný en í kjölfarið náðaður af Émile Loubet forseta og látinn laus. Náðun Dreyfusar var málamiðlun svo hægt væri að veita Dreyfusi frelsi án þess að viðurkenna formlega að herinn hefði brotið á honum. Dreyfus þáði náðunina en var þó eðlilega ekki fullsáttur við niðurstöðuna og lét þau orð falla að frelsi hans væri „einskis virði án heiðurs“. Dreyfus hófst handa við að safna nýjum sönnunargögnum og fékk mál sitt tekið upp í þriðja sinn árið 1904. Þann 12. júlí var dómur felldur og Dreyfus var sýknaður af öllum ákæruatriðum. Í kjölfarið fékk Dreyfus uppreist æru og var hleypt inn í franska herinn á ný.

Saga Dreyfusar setti mark sitt á franskt þjóðfélag. Þegar Charles Maurras, rithöfundur og stuðningsmaður Vichy-stjórnarinnar, var handtekinn árið 1944 fyrir að styðja hernámslið nasista og tortímingu franskra gyðinga, á hann að hafa sagt: „Þetta er hefnd Dreyfusar.“[3]

Sem frjáls maður var Dreyfus ekki eins hugsjónasamur og þeir sem höfðu barist fyrir frelsi hans. Þegar hann var beðinn um að sækja um að lífi anarkistanna Sacco og Vanzetti yrði þyrmt[4] neitaði hann því hann hafði fengið nóg af sviðsljósinu.[5]

Dreyfus barðist með franska hernum í fyrri heimsstyrjöldinni og var orðinn lautinant-ofursti í lok hennar. Eftir heimsstyrjöldina varð heimaland Dreyfusar, Elsass, hluti af Frakklandi á ný. Þann 9. júlí 1919 var Dreyfus veitt aðild að frönsku heiðursorðunni.

Tilvísanir breyta

  1. Bernt Hagtvet: Ideologienes århundre (s. 57), forlaget Dreyer, Oslo 2010.
  2. Bernt Hagtvet: Ideologienes århundre (s. 58)
  3. Jacques Prévotat, Les Catholiques et l'Action française – Histoire d'une condamnation, Paris, Fayard, 2001, bls. 103.
  4. „The Sacco and Vanzetti Trial“. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. ágúst 2009. Sótt 28. apríl 2018.
  5. Geert Mak: Europa (s. 26), forlaget Cappelen Damm, Oslo 2008.