Dreyfus-málið (f. affaire Dreyfus) var stjórnmálahneyskli sem kom upp í Frakklandi undir lok nítjándu aldar. Málið snerist um Alfred Dreyfus, franskan gyðing, sem var kafteinn í franska hernum og var fundinn sekur um landráð í nóvember 1894 fyrir að hafa komið hernaðarleyndarmálum til Þjóðverja. Dreyfus fékk lífstíðardóm og var sendur til fangaeyjunar Djöflaeyjunnar undan ströndum Frönsku Gvæjana og látinn í einangrun.

Mynd af brottrekstri Alfreds Dreyfus úr franska hernum eftir Henri Meyer. Myndin birtist á forsíðu tímaritsins Le Petit Journal þann 13. janúar 1895.

Tveimur árum eftir sakfellingu Dreyfusar varð yfirmönnum franska hersins ljóst að Dreyfus væri saklaus en hinn raunverulegi sökudólgur var majór að nafni Ferdinand Walsin Esterhazy. Frekar en að frelsa Dreyfus og fangelsa Esterhazy var sá síðarnefndi náðaður fyrir herdómstól og sönnunargögn fölsuð af leyniþjónustumanninum Hubert-Joseph Henry lögð fram sem staðfestu á ný sekt Dreyfusar.

Rithöfundurinn Émile Zola hreyfði við málinu með birtingu opins bréfs J'accuse (Ég ásaka) í dagblöðum í janúar 1898. Málið var tekið fyrir dóm á ný 1899 og Dreyfus fluttur aftur til Frakklands. Þá tók við langur málflutningur sem skók franska þjóðfélagið og skipti því í tvennt; milli þeirra sem studdu Dreyfus og héldu fram sakleysi hans og þeirra sem töldu hann sekan. Málið markaðist af gyðingahatri. Þannig fór að Dreyfus var dæmdur saklaus af öllum ákærum og tók hann á ný við stöðu sinni í franska hernum árið 1906. Hann barðist í fyrri heimsstyrjöldinni.

Dreyfus-málið skildi eftir sig djúp spor, ekki aðeins í Frakklandi heldur á alþjóðavísu. Málið sannfærði austurrísk-ungverska blaðamanninn Theodor Herzl um að fyrst siðmenntað ríki eins og Frakkland kæmi fram við gyðinga af slíku hatri og ranglæti ættu gyðingar enga von um að vera samþykktir sem fullgildir meðlimir evrópsks samfélags. Herzl snerist því til Zíonisma og varð einn helsti talsmaðurinn fyrir því að gyðingar stofnuðu sitt eigið þjóðríki í Palestínu, sem átti eftir að gerast með stofnun Ísraelsríkis árið 1948.

Tenglar breyta

   Þessi sögugrein sem tengist Frakklandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.